A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
12.04.2016 - 09:16 | Ólafur V. Þórðarson

Alþýðuskáld í Auðkúluhreppi: Njáll Sighvatsson -Fyrri hluti-

Njáll Sighvatsson.
Njáll Sighvatsson.
« 1 af 3 »

Njáll Sighvatsson var fæddur 3. ágúst 1872 að Klúku í Bjarnarfirði á Ströndum, sonur Sighvatar Grímssonar Borgfirðings, fræðimanns og konu hans Ragnhildar Brynjólfsdóttur, frá Bjarneyjum á Breiðafirði. Hann var fjórði í röðinni af tólf börnum þeirra hjóna, en sjö af þeim létust í frumbernsku.

   Vorið 1873, þegar Njáll er á fyrsta ári, flyst Sighvatur með fjölskyldu sína að Höfða í Dýrafirði, þar sem hann bjó síðan til dauðadags 14. janúar 1930. Það eina sem vitað er um þessa flutninga með vissu er, að það var farið landveg. Hvaða leið var farin er ekki vitað nákvæmlega, en ferðin hlýtur að hafa tekið einhverja daga.

Þegar hann er á fimmta ári, fer hann í fóstur til Einars Grímssonar, föðurbróður síns og Hólmfríðar Vigfúsdóttur, konu hans, sem þá voru að flytja að Hjallkárseyri í Arnarfirði og síðar að Rauðsstöðum, og ólst upp hjá þeim til fullorðinsára.

   Þá kvænist hann Jónínu Guðrúnu Sigurðardóttur (f. 1.6. 1862) frá Baulhúsum og á með henni þrjú börn, þau Sigríði Amelíu, f. 18. okt. 1900, Þórð Guðna, f. 10. jan. 1902 og Ólaf, f. 14. apríl 1903, en hann fórst með Dýra, 22 smálesta þilskipi frá Þingeyri, ásamt allri áhöfn, alls 10 manns. Einnig eignaðist hann tvö börn utan hjónabnds, Skarphéðin, f. 31. maí 1916, með Jónu Ágústu Jónsdóttur og Maríu, f. 7. maí 1917, með Guðnýju Benediktsdóttur.

   Njáll og Jónína hófu búskap að Tjaldanesi 1899 og voru þar til 1904 að þau fara í svokallaða þurrabúð að Svalbarða, neðan túns á Tjaldanesi og stundaði hann  þá ýmis störf utan heimilis, mest var hann til sjós bæði vor og haust, á skútum. Var hann mjög eftirsóttur sem sjómaður, enda var hann langtímum saman í sama skiprúmi og eða með sama formanni. Til dæmis var hann átta vertíðir á Marý, 17 smálesta skútu frá Þingeyri.

   Þess á milli vann hann mikið við alls konar smíðar, bæði á tré og járn og til dæmis kunni hann þá aðferð að kveikja saman járn, en hafði þó hvorki yfir að ráða logsuðu eða rafsuðu til þess. Tel ég nokkuð víst að þeir séu ekki margir sem kunna þetta í dag, enda komin önnur tækni til þeirra hluta.

   Það er svo vorið 1913 sem Njáll ræðst sem bústjóri til séra Böðvars Bjarnasonar á Hrafnseyri, sem verður til þess að hann hættir til sjós um tíma. Á Hrafnseyri mun hann hafa haft sína eldsmiðju og smíðar þar ýmislegt, svo sem reislur, skeifur, lamir, læsingar og fleira og fleira. Og þeir voru margir pottarnir og kaffikönnurnar sem hann gerði við fyrir konurnar í sveitinni.

   Árið 1921 flytjast þau Njáll og Jónína að Ósi og eru þar í tvíbýli með Þórarni Guðmundssyni og Elinborgu, konu hans. Að Ósi eru þau þar til þau fara að Öskubrekku í Ketildalahreppi og eru þar í eitt ár. Ástæða þess að þau fara þangað er sú, að bóndinn hafði látist skyndilega og stóð konan uppi hálf bjargarlaus, en eftir árið ákvað hún að bregða búi og fluttist burt.

 

Ólafur V. Þórðarson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31