Aðeins úr bókinni -Þorp verður til á Flateyri- eftir Jóhönnu G. Kristjánsdóttur, unnið upp úr bréfasöfnum
Flateyri við Önundarfjörð varð til sem þorp á síðari hluta 19. aldar. Eins og önnur þorp við sjávarsíðuna allt í kring um landið voru fiskveiðar og vinnsla aflans sá atvinnugrunnur sem gerði búsetu „á mölinni“ eftirsóknarverða fyrir þá sem voru að koma undir sig fótunum, eins og sagt er.
Á Flateyri hafa nú um 100 ára skeið verið geymd bréfasöfn Jóhanns Lúthers Sveinbjarnarsonar og Guðrúnar Torfadópttur. Þeim verður fundinn staður í opinberu safni, enda fyrir löngu kominn tími til. Bréfasöfnin tvö munu þá hverfa burtu af eyrinni þar sem þau hafa legið í ferðakofforti og kommóðuskúffu frá árinu 1913. Fyrir nokkrum árum fór sú löngun að láta á sér kræla hjá mér að gaman væri að gera þeim einhver skil áður en þau færu á betri geymslustað. Þannig vissu fleiri af þeim en heimilisfólkið á heimilinu þar sem þau hafa verið allan þennan tíma.
Jóhann Lúther Sveinbjarnarson og bréfasafn hans
Jóhann Lúther Sveinbjarnarson var fæddur í Skáleyjum 9. mars árið 1854. Hann lést á Hólmum í Reyðarfirði 11. september 1912 og er jarðsettur þar. Foreldrar hans voru María Jónsdóttir (1821–1862) frá Svefneyjum og Sveinbjörn Magnússon (1821–1899) bóndi í Skáleyjum. Jóhann Lúther ólst upp í Skáleyjum en missti móður sína átta ára gamall. Ári síðar giftist faðir hans Sesselju systur Maríu sem orðið hafði ekkja nokkru áður. Jóhann naut undirbúningsfræðslu á Staðarstað hjá séra Sveini Níelssyni og varð stúdent frá Reykjavíkurskóla í júní 1875. Á meðal bekkjarbræðra hans voru Þorvaldur Thoroddsen, náttúrufræðingur, og Gestur Pálsson, skáld og rithöfundur. Jóhann dvaldist á Flateyri sem heimiliskennari hjá Maríu Össurardóttur og Torfa Halldórssyni í Torfahúsi veturinn á eftir. Sigríður systir Jóhanns var búsett á Flateyri, gift Sveini Rósinkranssyni skipherra og föðursystir hans, Sigríður Magnúsdóttir, hafði einnig starfað á heimili Maríu og Torfa í Torfahúsi. Tengslin vestur í Önundarfjörð hafa því verið nokkur.
Jóhann lauk prófi úr Prestaskólanum árið 1878. Hann tók við starfi aðstoðarprests séra Daníels Halldórssonar að Hrafnagili í Eyjafirði sama ár og fluttist með honum að Hólmum í Reyðarfirði árið 1881. Jóhann tók við brauðinu árið 1893 og hélt því til æviloka. Hann var skipaður prófastur í Suður-Múlaprófastsdæmi 1894 og lét sig skóla- og fræðslumál eystra miklu varða og var formaður skólanefndar Eskifjarðarskóla á árunum 1892–1909 og prófdómari þar árum saman.
Fyrri kona séra Jóhanns var Margrét Daníelsdóttir (1853–1900), dóttir séra Daníels Halldórssonar, systir Halldórs bæjarfógeta í Reykjavík og séra Kristins á Söndum í Dýrafirði og Útskálum. Þau voru barnlaus en áttu fósturdótturina Jakobínu Grímsdóttur. Seinni kona hans var Guðrún Torfadóttir (1872–1956) frá Flateyri og áttu þau fjögur börn, Margréti, Torfa, Maríu og Björn og fósturdótturina Ingibjörgu.
Bréfasafnið hefur að geyma eftirfarandi:
- 127 sendibréf frá Sveinbirni Magnússyni, rituð í Skáleyjum, á Flateyri og Hvilft í Önundarfirði á árunum 1870–1899
- 58 sendibréf frá biskupunum Þórhalli Bjarnarsyni (rituð 1892–1912), Hallgrími Sveinssyni (rituð 1895–1908) og Jóni Helgasyni (rituð 1891–1902)
- 150—160 sendibréf frá Halldóri Daníelssyni, bæjarfógeta í Reykjavík og mági JLS, send frá Kaupmannahöfn, Staðarfelli og Reykjavík á árunum 1880—1912
- 120 sendibréf frá séra Kristni Daníelssyni, mági JLS, send frá Reykjavík, Söndum í Dýrafirði og Útskálum á árunum 1879—1912
- 22 sendibréf frá Jóhannesi Daníelssyni, mági JLS, rituð í Reykjavík á árunum 1883–1886
- 24 sendibréf frá Jakobi Gunnlaugssyni, rituð í Kaupmannahöfn 1898–1905
- 150 sendibréf frá ýmsum öðrum (óflokkuð)
Alls eru í safninu um 660 sendibréf sem rituð voru til Jóhanns Lúthers Sveinbjarnarsonar.
Guðrún Torfadóttir og bréfasafn hennar
Guðrún Torfadóttir fæddist í Torfahúsi á Flateyri 2. október árið 1872. Hún lést á Flateyri 15. ágúst 1956. Foreldrar hennar voru hjónin María Össurardóttir (1840–1915) og Torfi Halldórsson (1823–1906), skipherra og skólastjóri fyrsta sjómannaskólans á Íslandi.
Guðrún ólst upp í Torfahúsi á Flateyri sem byggt var af Friðriki Svendsen árið 1819 en Torfi faðir hennar hafði keypt Flateyrareignir að Friðriki látnum árið 1857. Húsið var í 60 ár eina íbúðarhúsið á eyrinni og heimilisfólk fjölmargt áratugum saman. Guðrún stundaði nám í Kristjaníu (nú Osló) og lauk prófi frá Den kvindelige industriskole árið 1897 sem handavinnukennari telpna. Guðrún starfaði í verslun Árna Sveinssonar á Ísafirði en fluttist árið 1903 austur að Hólmum er hún giftist séra Jóhanni Lúther Sveinbjarnarsyni prófasti þar.
Eftir lát séra Jóhanns árið 1912 flutti Guðrún ásamt börnum þeirra fjórum, Margréti, Torfa, Maríu og Birni og tveimur fósturdætrum, Jakobínu og Ingibjörgu, vestur til Flateyrar. Þar hafði fjölskylda hennar, öldruð móðir og systkini, flust nokkrum árum áður úr Torfahúsi að Sólbakka sem hvalfangarinn Hans Ellefsen hafði látið byggja árið 1889. Ásamt systur sinni, Ástríði Torfadóttur, lét Guðrún reisa nýtt hús að Sólbakka sem kallað var Litla-býli. Það var seinna flutt niður á Flateyri og stendur nú við Ránargötu 2. Í því var símstöð frá árinu 1936 og pósthús í nokkur ár frá árinu 1961 eða þangað til Póstur og sími byggðu hús við Ránargötu 1 undir starfsemina.
Guðrún átti langa og farsæla starfsævi og hafði margvísleg afskipti af samfélagsmálum. Hún var fyrsti formaður kvenfélagsins Brynju á Flateyri og gegndi því starfi í 23 ár. Félagið kom að fjölmörgum framfara- og mannúðarverkefnum, meðal annars byggingu kirkjunnar á Flateyri. Guðrún hafði allt fram á síðustu ár mikið yndi af hannyrðum enda hlotið menntun á því sviði. „Skyldustykki“ Guðrúnar frá handavinnukennaranáminu í Noregi veita skemmtilega innsýn í tísku og hannyrðir á síðasta áratug 19. aldar og eru þau varðveitt á Flateyri.
Gott dæmi um framtakssemi Guðrúnar er að hún stóð fyrir söfnun í sjóð vegna kirkjubyggingar í Reyðarfirði. Í bréfi til kvennanna í hreppnum í janúar 1911 hvetur hún þær til að nota tímann fram að vorönnum til að búa til muni til að selja á hlutaveltu og safna fé til byggingarinnar. Svo vel tókst til að með þessari einu söfnun náðist að greiða um 10. hluta alls kostnaðar við kirkjubyggingu, kirkjugarð og orgelkaup. Í bréfinu vonast Guðrún til þess að svo margar konur taki þátt að það sannist að „við konur leggjum stund á það sem að allra dómi er undirrót þjóðþrifa, nefnilega samheldni og fjelagsskap, þegar styðja þarf góð málefni.“
Snorri Sigfússon, skólastjóri á Flateyri á árunum 1912–1929, skrifar þetta um Guðrúnu Torfadóttur í ágúst 1942[2]: „Hún er þannig skapi farin, svo andlega sterk og heilbrigð að hverjum manni líður vel í návist hennar. Hún hefur líka margan huggað í raunum, mörgum hjálpað og margan stælt í stríði við örðugleika og andstreymi, verið oft fundvís á leiðir til að greiða geislunum veg inn í skuggann, en verið sjálf hetja í hverri raun.“
Í bréfasafni Guðrúnar eru rúmlega 400 bréf. Bréfin frá móður hennar eru tæplega 140, mörg bréf eru frá systrum hennar og bræðrum og einnig er þar að finna bréf frá mörgum öðrum. Í sendibréfasafninu eru eftirfarandi bréf:
- 138 sendibréf frá Maríu Össurardóttur, rituð í Torfahúsi á Flateyri og á Sólbakka á árunum 1895—1912
- 2 sendibréf frá Torfa Halldórssyni, rituð á Flateyri
- 112 sendibréf frá Ástríði Torfadóttur, rituð á Flateyri, Ísafirði, Melgraseyri, Þórshöfn, Akureyri, Kaupmannahöfn og Fáskrúðsfirði
- 88 sendibréf frá Sigríði Torfadóttur, rituð á Flateyri, Sólbakka, í Kaupmannahöfn og á Bretlandi
- 41 sendibréf frá bræðrum Guðrúnar, Páli, Kristjáni, Halldóri, Ásgeiri og Ólafi Torfasonum
- 7 sendibréf frá Sveinbirni P. Guðmundssyni, dóttursyni Sveinbjarnar bréfritara
- 6 sendibréf frá Ingibjörgu H. Bjarnason
- 2 sendibréf frá Ásgeiri Ásgeirssyni
- 4 sendibréf frá Svanfríði Jónsdóttur
- 2 sendibréf frá Sigríði Sveinbjarnardóttur á Hvilft
- 22 sendibréf frá ýmsum öðrum (flokkuð)
Úr bókinni - Þorp verður til á Flateyri- eftir Jóhaönnu G. Kristjánsdóttur sem út kom hjá Vestfirska forlaginu árið 2016.