A A A
  • 1982 - Sveinbjörn Halldórsson
Heiðursfélagi. Sigurjón G. Jónasson, sauðfjárbóndi í Lokinhömrum eða sauðfjársérfræðingur eins og það myndi líklega vera orðað í dag, var heiðursfélagi í Búnaðarfélagi Auðkúluhrepps. Hér er hann að spila á orgelið í kapellunni á Hrafnseyri 17. júní 1998. Ljósm. H. S.
Heiðursfélagi. Sigurjón G. Jónasson, sauðfjárbóndi í Lokinhömrum eða sauðfjársérfræðingur eins og það myndi líklega vera orðað í dag, var heiðursfélagi í Búnaðarfélagi Auðkúluhrepps. Hér er hann að spila á orgelið í kapellunni á Hrafnseyri 17. júní 1998. Ljósm. H. S.

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps fyrir árið 2018 var haldinn í Mjólkárvirkjun 10. apríl. Fundurinn var vel sóttur að vanda og gengu fundarstörf vel fyrir sig. Ekkert var rifist á fundinum og voru menn bara kátir sem fyrr. Formaður félagsins, Hreinn Þórðarson hreppstjóri á Auðkúlu, stjórnaði samkomunni á sinn hógværa hátt. Sagði ekki líka sá góði maður, Njáll á Bergþórshvoli: „Kemst þó hægt fari, húsfreyja“.

Ályktanir nokkrar voru samþykktar til að leggja fyrir landsmenn. Undir liðnum önnur mál kom í ljós að mönnum liggur ýmislegt á hjarta í Auðkúluhreppi hinum forna. Ekki var það nú allt fært til bókar, sem betur fer, en þó sumt og skal nú stiklað á stóru í þeim efnum.


Dýrafjarðargöng

Steinar R. Jónasson, stöðvarstjóri í Mjólká upplýsti, að kl. 14,30 á fundartímanum væru eftir 36,5 mtr. ósprengdir af Dýrafjarðargöngum. Hrópað var ferfalt húrra fyrir gangnamönnum.


Kostulegt béf frá Íslandspósti

Árni B. Erlingsson á Laugabóli upplýsti, að Jón Halldórsson, sjó- og landpóstur væri hættur. Var hann búinn að þjóna Auðkúluhreppi í rúm 26 ár, alls 2600 ferðir. Síðasta ferð Jóns var 29. marz 2019. Áður hafði faðir hans þjónað sömu leið í 20 ár. Árni sagði að honum hefði verið úthlutað ókeypis pósthólfi á Patreksfirði og ætti hann að tæma það reglulega. Annars yrði því lokað! Jæja. Steinar lagði fram myndband frá síðustu póstferðinni. Las Jón upp bréf frá Íslandspósti sem nauðsyn ber til að birta. Hlegið var skart að bréfinu og jafnvel reknar upp rokur. Teitur Magnússon kom á fundinn sem áheyrnarfulltrúi. Einnig Pétur Oddsson fyrir hönd Ísfirðinga.

Húsdýrin og dýr merkurinnar

Hvorki útigöngu-né álfakindur hafa sést á svæðinu í vetur, sagði Pétur Oddsson. Engar sauðkindur eru heldur á húsi í hreppnum var bætt við.

Tólf melrakkar og álíka margir minkar hafa verið felldir í vetur á svæðinu frá Mjólká út að Dynjanda. Friðrik Skagfirðingur, gangastarfsmaður var veiðimaðurinn. Engin assa hefur sést í vetur og er það fyrsti veturinn sem Árni á Laugabóli hefur ekki séð örn. Spurt var um músagang á svæðinu að vanda. Steinar í Mjólká sagðist ekki hafa séð eina einustu mús í allan vetur. Einhver slatti hefur þó verið af mýslu á Laugabóli. Steinar sagði að laxveiði hefði gengið vel í Mjólká í fyrra. Þyngsti laxinn var 14 pund. Sá fór til Tékklands. (Það eru líka Tékkar sem sprengja í Dýrafjarðargöngum sem kunnugt er). Ólafur Kristjánsson mætti nú á fundinn sem þriðji áheyrnarfulltrúinn.

Jörðin Laugaból er nú til sölu  

Nýja kaffivélin í Mjólká kom sér vel. Enda hefur það komið fram í félaginu að sumir halda ekki heilsu nema drekka þetta 5-10 stóra fanta á dag! Nú, nú. Atvinnumál voru rædd á víðum grundvelli sem kemur vel fram í skörpum og hnitmiðuðum ályktunum fundarins. Rætt var um málefni Orkubús Vestfjarða og hins opinbera. Flogið hefur fyrir að sameining Rariks og O. V. standi jafnvel fyrir dyrum.

Bókaútgefandinn lagði fram 50,000,- kr. í seðlum í hendur Hildigunnar gjaldkera. Er það ágóði félagsins af bókinni Að fortíð skal hyggja, sem fjallar einmitt um nágrenni Dýrafjarðarganga, Borgarfjarðarmegin. Það fylgdi að ekki mætti kaupa karamellur fyrir félagsmenn í Kaupfélaginu á Kúlu. En brjóstsykur, Nikk Nakk og límonaði frá Niðaróss gosdrykkjafabrikku hf útibú í Norge væri í lagi fyrir hluta af fjármununum! Eins og komið hefur fram áður, er K. D. útibú, umboðsaðili þeirrar fabrikku á Íslandi. Er það í gegnum Bör Börsson júníor á Öldurstað. Pétur sagði að búið væri að einkavæða andrúmsloftið, sbr. síðustu fréttir af WOW air og kolefniskvóta þess. Er það svipað og með fiskveiðikvótann. Mikið var rætt um svokölluð umhverfismál.

  Að lokum skal þess getið að fram kom á fundinum, að jörðin Laugaból í Mosdal er nú til sölu með gögnum og gæðum. Er það eina jörðin í hreppnum sem svo er ástatt um.




« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31