A A A
24.10.2011 - 23:29 | Hallgrímur Sveinsson

Ađ lesa og skrifa list er góđ

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
"Hann telur affarasælast að fyrstu fjögur ár grunnskólans séu helguð grunnþekkingu í lestri, skrift og stærðfræði til að leggja grundvöll fyrir aðrar námsgreinar síðar á námsferlinum." (Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi)


Það var eiginlega sláandi að lesa ofangreinda tilvitnun í uppslætti á forsíðu Morgunblaðsins 13. okt. 2011, sem vel má umorða þannig, að nú þyki rétt að fara aftur að fylgja því eftir að börn læri að lesa, skrifa og reikna í yngri bekkjum í stofnunum þeim sem áður hétu barnaskólar. Í blaði allra landsmanna er einnig haft eftir prófessornum á umræddri forsíðu að breyta þurfi kennsluaðferðum og skipulagi skóladagsins á yngsta stigi grunnskóla til þess að bæta námsárangur.
Það var og. 


Í "gamla daga" gengu menn í skóla í bókstaflegri merkingu á unga aldri til að læra þessar listir. Er eitthvað annað uppi á teningnum nú til dags? Er virkilega svo komið fyrir Íslendingum að þeir þurfi lærðan mann frá Noregi til að benda á að fyrstu skólaárin eigi börn að læra lestur, skrift og reikning og ekkert múður? Nú hljóta þeir gömlu að vera orðnir órólegir.

 

Að lesa og skrifa list er góð
læri það sem flestir.
Þeir eru haldnir heims hjá þjóð
höfðingjarnir mestir.

 

Það er eitthvað meira en lítið að á minningarári Jóns Sigurðssonar þegar grunngildin sem koma fram í þessari gömlu, fallegu vísu riða til falls hjá þjóð hans. Hann barðist ekki svo lítið fyrir því að komið yrði á fót skólum í landinu. Æskan er stórkostleg á öllum tímum. Því verður að spyrja alveg vafningalaust: Hvers konar aumingjaháttur er það að geta ekki komið henni til nokkurs þroska í undirstöðugreinum einmitt á því aldursskeiði sem hún er hvað móttækilegust?

« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31