A A A
  • 1931 - Valgeršur Kristjįnsdóttir
  • 1956 - Aušbjörg Halla Knśtsdóttir
  • 1984 - Hrafnhildur Żr Rafnsdóttir
  • 1988 - Emil Ólafur Ragnarsson
17.05.2017 - 16:40 | Bjarni Georg Einarsson,Gušmundur Ingvarsson,Hallgrķmur Sveinsson

Į śtgeršarašallinn aš rįša žvķ hvar lķfvęnlegar sjįvarbyggšir skuli stašsettar į Ķslandi?

Ný byggðastefna verður ekki mörkuð án þess að hafa það að leiðarljósi að ein meginforsenda lífvænlegrar byggðar er arðsamur sjávarútvegur og skilvirkur og frjáls landbúnaður.“

   Hvaða spekingur skildi nú skrifa svona fallegan texta? Þetta er ekki fært í letur hér fyrir vestan, heldur í sjálfri Reykjavíkinni! Það er Óli Björn Kárason, þáv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og núv. þingmaður, sem tók svo til orða í Morgunblaðinu 9. júlí 2014.

   Svo við höldum okkur við sjávarsíðuna, þá var sú tíð að þróttmestu og arðsömustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins voru staðsett á Vestfjörðum. Þar búa einhverjir harðsæknustu sjómen í heimi hér og stutt til fengsælla miða. Fiskurinn meira að segja oft uppi í kálgörðum þeirra þessi árin. Samt er það liður í hinum arðsama sjávarútvegi dagsins að hætta útgerð og fiskvinnslu að mestu hér fyrir vestan. En að því hefur verið stefnt leynt og ljóst sem kunnugt er. Svo talað sé tæpitungulaust: Það hefur beinlínis verið liður í atvinnustefnu stjórnvalda næstliðna áratugi að leggja niður sjávarútveg á Vestfjörðum. Það er að sjálfsögðu ný byggðastefna. Hvort hún hefur stuðlað að lífvænlegri byggð í landinu er aftur önnur saga.

Orð varaþingmannsins um nýju byggðastefnuna eru athyglisverð. En ætli jafnvægi í byggð landsins sé liður í slíkum áætlunum? Stjórnvöld hafa af gæsku sinni afhent kvótaaðlinum stjarnfræðilegar upphæðir í veiðiheimildum til frjálsrar ráðstöfunar. Þetta vita allir. En það eru ekki allir sem átta sig á einu: Aðallinn ræður því hvaða sjávarbyggðir skuli haldast og hverjar lepja dauðann úr skel. Þrátt fyrir þá staðreynd að meiri hluti þjóðarinnar vill að byggðin sé ekki bara á suðvesturhorni landsins. En fiskvinnslufólk og íbúar byggðarlaga vítt og breitt um landið hefur verið gert að bónbjargamönnum. Því er haldið fram af sumum sem dásama þetta fiskveiðistjórnunarkerfi að það hafi leitt af sér sérhæfðari fiskvinnslu og frekari útvegun markaða. Eins og sú þróun hefði ekki getað átt sér stað án þessa kerfis. En stórútgerðin ræður för hvernig sem á þessi mál er litið.

 

Frumbyggjarétturinn

Ýmsir hafa bent á að margt sé líkt með frumbyggjum til dæmis Ameríku og fiskvinnslufólki á Vestfjörðum. Í Ameríku voru frumbyggjarnir rændir nánast öllu sem þeir áttu. Mörgum þeirra útrýmt eða plantað niður á vonlausum eyðilöndum. Þekkt fyrirbrigði um alla heimskringluna. Á Íslandi hefur fiskvinnslufólk og sjómenn víða í ýmsum sjávarbyggðum mátt horfa á fiskinn synda langleiðina upp í kálgarða hjá sér. Án þess að mega nýta hann nema með einhvers konar smjörklípuaðferðum. Línuívilnun, byggðakvóti, sértækur kvóti, strandveiðar, sérstakir byggðakvótar svo eitthvað sé nefnt. Fólkinu er gert að lifa á einhverskonar bónbjörgum eða betli þar sem hver slæst við annan. Það er löngu kominn tími til að viðurkenna með beinum hætti frumbyggjarétt þeirra sem hafa veitt fisk, unnið í fiski, etið fisk og talað um fisk alla sína tíð.

 

Hvað er þessi kvótaaðall?

Steingrímur Hermannsson ræddi um það við Dag B. Eggertsson í 2. bindi ævisgögu sinnar bls. 283 Vaka Helgafell Rvk. 1999.

Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri landssambands íslenskra útvegsmanna, var eitt sinn að því spurður hvers vegna útgerðarmenn sæktu svo stíft eftir heimildum til að kaupa nýrri og stærri togara fyrst þeir væru reknir með bullandi tapi. Kristján svaraði, og eflaust af hreinskilni, að það gerðu þeir vegna þess að þeir þyrftu ekki að hætta sínu eigin fé við fjárfestingarnar. Þeir fengju lánað nær til fulls fyrir kaupunum úr opinberum sjóðum og veðin væru aðeins í skipunum sjálfum. Útgerðarmenn hefðu því engu að tapa. Mér þótti þetta heldur vafasamt siðferði þótt skýringin ætti eflaust við rök að styðjast.

Það er umhugsunarefni að fáum árum síðar voru þessir sömu menn, sem ekki hættu eigin fjármagni nema að litlu leyti til kaupa á skipum, eftir því sem Kristján Ragnarsson sagði, taldir sjálfsagðir handhafar, ef ekki eigendur kvótans þegar hann kom til sögunnar. Þá voru rökin þau að þeir hefðu með eigin dugnaði, fjármagni og fórnarlund dregið fiskinn úr sjó og fært hann á land áratugum saman.“

Steingrímur var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Hann fékk Vestfirðinginn og reynsluboltann Baldur Jónsson frá Aðalvík sér til aðstoðar. Þeir settu saman tillögur um nýtt kerfi í fiskveiðistjórnun. Grundvöllur þess var að það leiddi ekki til byggðaröskunar. Kvótanum átti að deila á milli fiskvinnsluhúsa, skipa og báta á hverju tilgreindu svæði. Sem sagt beint til fólksins á viðkomandi stað. Fólksins sem hafði lifað á fiski frá upphafi byggðar í landinu. Ekki skipti máli hvar fiskinum yrði landað innan hvers löndunarsvæðis. Innan þess mátti jafnframt framselja hann milli fiskverkenda og báta.

Nú er þjóðarnauðsyn að rifja upp þessar tillögur þeirra félaga. Þær voru því miður jarðaðar og tröllum gefnar á sínum tíma. Útgerðarmenn í LÍÚ gerðu tillögur um kvóta á skip með stuðningi sjávarútvegsráherrans sem tók við af Steingrími. Þeir fengu að ráða ferðinni. Þetta var upphafið að þeirri feigðarför fyrir hinar dreifðu byggðir sem Íslendingar hafa síðan gengið.

Íslenskir stórútgerðarmenn eru alls góðs maklegir. Og það er auðskilið að þeir hagi seglum sínum eftir vindi. En að þeim skuli afhentur á silfurfati frumburðarréttur þjóðarinnar er algjörlega með ólíkindum. Þeir hafa raunverulega ráðið því hvaðan sjór skuli stundaður á landinu og fiskurinn unninn. Óskiljanlegt venjulegu fólki, einkum þeim sem hafa unnið við fisk alla sína hunds-og kattartíð.

 

Steingrímur iðraðist þess helst að hafa ekki barist af meiri hörku!

Steingrímur segir í ævisögu sinni og má telja þau orð að vissu leyti pólitíska erfðaskrá hans hér fyrir vestan:

Fámennur hópur ræður stórum hluta af auðlind þjóðarinnar. - Þegar ég hugsa til þess hvernig kvótakerfið hefur leikið margar blómlegar byggðir landsins iðrast ég þess helst að hafa ekki barist af meiri hörku fyrir breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi.“

Svo mörg voru þau orð forsætisráðherrans. Þau standa enn eins og stafur á bók. Var hann ekki marktækur maður?

 

 

Hvar eiga lífvænlegar sjávarbyggðir að vera staðsettar?

 

En hvað er það sem til þarf svo lífvænlegar sjávarbyggðir geti vaxið og dafnað? Og hvar eiga þær að vera staðsettar? Hvert mannsbarn veit að frumskilyrði þess er að fiskur sé í sjónum.  Þá þarf fiskveiðiheimildir. Að ekki sé verið að flytja óunnið hráefni þvert yfir landið á risastórum flutningabílum á handónýtum vegum, jafnvel til útflutnings. Eiga þær að vera sem lengst frá fiskimiðunum? Eiga þær að vera sem lengst í burtu frá þeim stöðum þar sem auðveldast er að stunda sjósókn? Ef aftur á móti á að vinna fiskinn um borð í fiskiskipunum sjálfum, þá þarf engar sjávarbyggðir. Það segir sig sjálft.

Tillaga um nýjar leiðir

Það þýðir víst ekkert að vera að röfla um það sem liðið er nema kannski að læra af því. Það sem skiptir máli er dagurinn í dag og framtíðin. Því leggjum við til að stjórnvöld hætti öllu braski með línuívilnun, byggðakvóta, sértæka kvóta, strandveiðar, sérstaka byggðakvóta og svo framvegis. Í stað þess fái menn að róa til fiskjar eftir hentugleikum. Hluta af veiðiheimildum verði úthlutað á vissum löndunarsvæðum og fari aldrei þaðan, sbr. tillögur þeirra Steingríms og Baldurs. Smáskammtalækningar á borð við byggðakvóta leysa engan vanda segir framkvæmdastjóri L. Í . Ú. Við erum því algjörlega sammála.   

   Nú er fiskur um allan sjó segja þeir spekingarnir. Hverjir eiga að fá þær aflaheimildir sem væntanlega bætast við? Hinir stóru sem allt vilja gleypa, spáir múgamaðurinn. En frumbyggjarnir? Þeir geta bara lapið dauðann úr skel eins og hefðbundið er um allan hinn svokallaða siðræna heim.

Hallgrímur er fyrrum stjórnarformaður Kaupfélags Dýrfirðinga,
Bjarni er fyrrum útgerðarstjóri sama félags
og Guðmundur er fyrrum stöðvarstjóri Pósts og síma á Þingeyri. 
« Jśnķ »
S M Ž M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30