Vilja stofna lýðháskóla á Flateyri
Stefnt er að því að lýðháskóli taki til starfa á Flateyri haustið 2018. Um 20-30 manns vinna nú að undirbúningi skólans sem mun nýta sér mannauð og umhverfi Flateyrar.
Undirbúningur að stofnun lýðháskóla á Flateyri hófst á haustmánuðum, þótt hugmyndin hafi verið lengi „á floti“ segir Runólfur Ágústsson sem er í stýrihópi verkefnisins: „Þessa stundina eru um 20-30 manns að vinna í sjálfboðasarfi að þessari hugmynd og framkvæmd hennar, skilgreina námslínur, sem er búið að gera í grófum dráttum, og hvað staðurinn og umhverfið hefur uppá að bjóða.“
Námsleiðirnar verða í tónlist, kvikmyndagerð, umhverfisfræði og fjallamennsku. „Lýðháskóli vinnur út frá hugmyndafræðinni að nýta það sem staðurinn hefur uppá á að bjóða,“ segir Runólfur. Stór hópur kvikmyndagerðarfólks hefur jafnan aðsetur á Flateyri, umhverfisfræðin verður að einhverju leyti í tengslum við háskólasetur Vestfjarða, fjallamennskan mun vera í tengslum við starf björgunarsveita og nýta sér umhverfi Flateyrar og á Flateyri er öflugt tónlistarlíf.
„Við teljum hugmyndina raunhæfa og sterka og stefnum að því að skólastarf geti hafist haustið 2018,“ segir Runólfur.