A A A
10.07.2017 - 07:11 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Víkingatíminn lifnar við á Vestfjörðum

Frumkvöðull.  Borgný Gunnarsdóttir er annar stofnenda víkingastaðarins Skálans á Þingeyri þar sem gestir fá að upplifa landnámstímann.
Frumkvöðull. Borgný Gunnarsdóttir er annar stofnenda víkingastaðarins Skálans á Þingeyri þar sem gestir fá að upplifa landnámstímann.
« 1 af 2 »

Borgný Gunn­ars­dótt­ir og eig­inmaður henn­ar Þórir Örn Guðmunds­son eru um þess­ar mund­ir að opna nýj­an stað á Þing­eyri í Dýraf­irði í anda vík­inga­tím­ans. Gest­ir fá meðal ann­ars að baka brauð yfir opn­um eldi og klæða sig upp í vík­inga­klæði en um er að ræða ein­staka upp­lif­un fyr­ir þá sem hafa áhuga.

 

Við ætl­um okk­ur að leyfa fólki að upp­lifa land­náms­tíma­bilið hér hjá okk­ur þar sem við höf­um inn­réttað 85 fer­metra mót­töku­sal. Við höf­um hugsað okk­ur að taka á móti litl­um hóp­um,“ seg­ir Borgný Gunn­ars­dótt­ir en hún og eig­inmaður henn­ar, Þórir Örn Guðmunds­son, sem eru um þess­ar mund­ir að opna nýj­an stað í vík­inga­stíl á Þing­eyri á Vest­fjarðar­kjálk­an­um sem hef­ur fengið nafnið Skál­inn. Þar gefst fólki ein­stakt tæki­færi til þess að kom­ast í kynni við aðstæður og lifnaðar­hætti forfeðra og -mæðra Íslend­inga á land­náms­tím­an­um, auk þess sem það fær að taka þátt í ýms­um at­höfn­um sem svip­ar til þess sem forfeður okk­ar tók­ust á við á sín­um tíma.

„Hér fær fólk að baka sér vík­inga­brauð á opn­um eldi, það fær að klæða sig upp á í forn­klæði ef það vill, hér er all­ur fatnaður til þess. Það fær einnig að skoða hand­verk og ýmsa muni sem hafa verið gerðir í tengsl­um við þenn­an tíma. Við gerðum borð og bekki þar sem fólk get­ur sest og fengið að drekka úr vík­ingakrús­um og einnig bjóðum við fólki upp á að fá sér kaffi­sopa úr slík­um krús­um,“ seg­ir Borgný.

 

Langaði að gera eitt­hvað meira

Borgný seg­ir að Skál­inn sé glæ­nýr, verið sé að hleypa þessu af stokk­un­um um þess­ar mund­ir. „Við erum svo­lítið að horfa til farþega skemmti­ferðaskip­anna, ætl­um okk­ur að byrja þar. Við erum að koma okk­ur inn á þann markað í sam­starfi við rútu­fyr­ir­tæki sem heit­ir Fant­astic Fjords.“ Allt að 100 skemmti­ferðaskip munu leggj­ast að bryggj­um Ísa­fjarðar og ná­granna­bæj­ar þetta sum­arið og því ljóst að Skál­inn er kjör­in viðbót við allt sem Vest­f­irðir hafa upp á að bjóða. Að auki eru bundn­ar von­ir við að Skál­inn verði einnig mik­il lyfti­stöng fyr­ir ferðamannaiðnaðinn á Vest­fjörðum. Þegar Borgný er innt eft­ir því hvernig hug­mynd­in hafi kviknað, seg­ir hún að áhug­inn á land­náms­tím­an­um sé ekki nýr af nál­inni á Þing­eyri.

 

„Hér hef­ur verið starf­rækt Vík­inga­fé­lag í ör­ugg­lega ein 15 ár“ og á hún þá við fé­lagið Vík­ing­ar Vest­fjarða. „Allt hand­verk og allt í kring­um þenn­an tíma er svo heill­andi þannig að við erum búin að vera í því, hjóna­korn­in og fjöl­skyld­an, í svo­lít­inn tíma. Svo hef­ur það bara blundað í okk­ur lengi að gera eitt­hvað meira.“

Skál­inn er þó ekki eina teng­ing­in við land­náms­tím­ann á Vest­fjörðum en þar er rík hefð fyr­ir áhuga á vík­ing­um og ýmsu tengdu þeim.

„Hér var byggt upp svo­lítið skemmti­legt svæði í fjöru­borðinu, í Odd­an­um, í vík­inga­stíl. Þetta er útiaðstaða sem tek­ur í kring­um 300 manns, og þar er hægt að vera með varðeld og fleira. Þetta er aðstaða sem Vík­inga­fé­lagið byggði upp á sín­um tíma og í kring­um það er maður bú­inn að fá þenn­an brenn­andi áhuga á þessu tíma­bili. Ég hef til dæm­is verið að gera mikið af hand­verki í kring­um þenn­an tíma,“ seg­ir Borgný og bæt­ir við að út frá þess­um áhuga hafi hug­mynd­in að Skál­an­um kviknað. Íslend­ing­ar eru þekkt­ir fyr­ir stoltið yfir vík­inga­arf­leið sinni og Skál­inn því lík­leg­ur til þess að auka enn á áhuga land­ans fyr­ir land­náms­tím­an­um.

 

Gott mynda­stopp með meiru

Und­ir­bún­ing­ur fyr­ir Skál­ann hófst í vet­ur og er kom­inn á það stig seg­ir Borgný að þau geti farið að taka á móti hóp­um. „Fyr­ir gesti er þetta bæði upp­lif­un og viss lífs­reynsla að fá að taka þátt í þessu, fá að kynn­ast þess­um tíma með því að prófa, sjá og smakka. Það felst mik­il upp­lif­un ein­mitt í því að kom­ast í gír­inn og upp­lifa sig eins og á land­náms­tím­an­um. Svo leggj­um við einnig upp með það að þegar gest­ir eru komn­ir á staðinn geta þeir látið mynda sig í allskon­ar bún­ing­um. Þetta er því gott mynda­stopp með meiru.“ Von­ast Borgný til að þetta heilli fólk sem eigi leið hjá og dragi þannig að sér fjölda ferðamanna, en oft hef­ur verið talað um að auka þurfi flæði ferðamanna til annarra lands­hluta en bara Suður­lands­ins.

 

„Við ætl­um að reyna að taka á móti hóp­um því það er öðru­vísi stemn­ing í að upp­lifa þetta sam­an frek­ar en einn og einn. Við erum ekki að tala um stóra hópa, kannski upp í 20 manns, það er þægi­leg­ur fjöldi. Þá verður þetta per­sónu­legra án þess að það sé yf­ir­drifið mikið í gangi í einu. En að sjálf­sögðu eru all­ir vel­komn­ir til okk­ar.“

Spurð hvernig megi nálg­ast upp­lýs­ing­ar um Skál­ann bend­ir Borgný á Face­book-síðu staðar­ins sem má finna und­ir heit­inu Skál­inn. „Ég er búin að setja dá­lítið af upp­lýs­ing­um bæði inn á Face­book-síðuna okk­ar og líka In­sta­gram þar sem fólk get­ur séð mynd­ir af þessu.“ Fyr­ir fólk sem hyggst leggja land und­ir fót í sum­ar og ferðast inn­an­lands er því ekki úr vegi að bregða sér á Þing­eyri og upp­lifa al­vöru vík­inga­stemn­ingu. Tekið verður vel á móti öll­um sem leggja leið sína í Skál­ann, mikið er lagt upp úr því að gera upp­lif­un gesta ein­staka, hvort sem um er að ræða fjöl­skyld­ur, pör eða bara alla þá sem hafa brenn­andi áhuga á land­náms­tím­an­um, vík­ing­um og öllu sem því teng­ist.

Morgunblaðið mánudagurinn 10. júlí 2017.

 

 

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30