Vika 45
Í viku 45 voru grafnir 79,0 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Lengd ganganna í Dýrafirði í lok vikunnar var 258,1 m sem er 15,7% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 73,9% af göngunum.
Líkt og í síðustu viku var grafið í gegnum basalt og kargaskotið basalt. Í lok vikunnar var efnið úr göngunum keyrt í vegfyllingu.
Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með styrkingar í hægri vegg ganganna. Í lok vikunnar var búið að setja bergbolta á tæplega 2.600 m kafla og sprautusteypa rúmlega 1.900 m langann kafla í heildina en göngin Arnarfjarðarmeginn eru 3657,6 m löng.
Klárað var að raða grjótvörn umhverfis sökkla Hófsárbrúar og haldið áfram með mölun á efni við Hófsá og á haugsvæði sem er austur af munnanum í Arnarfirði. Mót voru rifin frá nyrðri stöpli brúarinnar yfir Mjólká.
Í Dýrafirði var unnið við slóðagerð að námum ásamt skeringarvinnu, slóðagerð og fyllingavinnu nálægt tengingu vegarins við núverandi veg ásamt fyllingavinnu við munna ganganna.
Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar verið er að herða á bergbolta, framlengja loftræstitúðu og stöplana í Mjólkárbrúnni.