A A A
  • 1979 - Björgvin Helgi Brynjarsson
08.08.2008 - 23:26 | bb.is

Viðburðaríkur júlímánuður

Frá Dýrafjarðardögum. Ljósm: Páll Önundarson.
Frá Dýrafjarðardögum. Ljósm: Páll Önundarson.
Júlí var viðburðaríkur í menningarbænum Ísafjarðarbæ en menningarlífið fór af stað með miklum krafti í mánuðinum. Leiklistarhátíðin Act alone var haldin með pompi og prakt og hefur aldrei verið stærri. Á hátíðinni léku innlendir og erlendir leikarar fjölda einleikja fyrir gesti og gangandi. Brugðið upp á þeirri nýbreytni þetta árið að bjóða einnig upp á tvíleiki, og verðlaun voru veitt fyrir best heppnuðu sýningarnar. Bæjarhátíðin Dýrafjarðardagar var að vanda haldin fyrstu helgina í júlí. Í boði var ýmiskonar afþreying; keppni í strandblaki, tónleikar, leiksýningar á vegum Act alone og hin ómissandi markaðsstemmning og grillveisla á víkingasvæðinu. Hápunktur hátíðarinnar í ár var sjósetning víkingaskipsins Vésteins sem Dýrfirðingar hafa smíðað af miklum móð og ætla að gera út á ferðamenn í framtíðinni. Knattspyrnuskóli Íslands kom í bæinn í annarri viku mánaðarins og námu margir ungir fótboltakappar undir handleiðslu sér reyndari manna í nokkra daga á Þingeyri.

 

Önnur helgi júlímánaðar var sérstaklega viðburðamikil. Árleg Sæluhelgi Súgfirðinga var haldin á Suðureyri. Eins og flestir vita byggðist hátíðin upp í kringum mansaveiðikeppni barna og er nú orðin að einni samfelldri veislu þar sem Súgfirðingar taka sig saman og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta sjálfum sér og gestum bæjarins líða vel. Fjölskylduskemmtun, grill, söngvarakeppni og húsmæðrafótbolti var meðal þess sem boðið var upp á þessa helgi. Kraftakeppnin Vestfjarðavíkingurinn var haldin þessa helgi og var meðal annars keppt á Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Kraftajötnarnir hafa verið árlegir gestir á Vestfjörðum og skiptast yfirleitt á að koma til suður- og norðursvæðis Vestfjarða.

 

Stóra púkamótið var haldið á Ísafirði, en þar koma saman menn á fertugsaldri og þaðan af eldri sem eitt sinn þóttu efnilegir eða jafnvel góðir í fótbolta. Kapparnir hafa engu gleymt og sýndu oft á tíðum mjög góða takta, þó líkami hafi ekki alltaf fylgt hug að málum eins og gengur og gerist þegar komið er fram á þennan aldur. Fyrsta ættarmót Arnardalsættarinnar var haldið í átthögunum, Arnardal milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Ættin er gríðarstór og telur fleiri tugi þúsunda. Frekar fáir sáu sér þó fært að mæta í Arnardalinn og var fámennt en góðmennt í dalnum þessa helgi.

 

Árleg saltfiskveisla Byggðasafns Vestfjarða var haldin annan laugardag mánaðarins, en veislan er haldin í elstu húsaþyrpingu landsins í Neðstakaupstað á Ísafirði. Sama dag var afhjúpaður á Sólbakka bautasteinn til heiðurs alþingismanninum Einari Oddi Kristjánssyni frá Flateyri. Einar Oddur varð bráðkvaddur á síðasta ári og var steinninn afhjúpaður þegar ár var liðið frá andláti hans.

 

Þriðju helgina í júlí var hestamót Storms haldið á Þingeyri með tilheyrandi gæðingakeppni og útreiðatúrum. Vesturgatan var hlaupin eins og alltaf á þessum tíma, en svo kallast leiðin fyrir Svalvoga milli Arnar fjarðar og Dýrafjarðar. Fáum kom á óvart þegar hlaupadrottningin Martha Ernstsdóttir sigraði í hlaupinu, en hún bætti eigið brautarmet. Í karlaflokki sigraði Sigurður Hansen. Sömu helgi var haldin fjölskylduskemmtun í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þar sem fram komu Morrinn og hljómsveitirnar Appolo og Eurobandið.

 

Í næstsíðustu viku júlí kom sirkúsinn í bæinn þegar þrír erlendir sirkúslistamenn kenndu unglingum ýmsar listir og sýndu afrakstur kennslunnar í íþróttahúsinu við Austurveg um kvöldið. Í sömu viku hófst átta daga kveðjuhátíð kaffihússins Langa Manga á Ísafirði. Kaffihúsið hefur verið rekið í um fimm ár og verður þess sárt saknað af mörgum bæjarbúum. Meðal atriða á kveðjuhátíðinni má nefna ljóðakvöld, bingó, lágmenningarkvöld, Drekktu betur, gítarkareoki og lokaball. Útihátíðin Rokk&rolla var haldin í Hjarðardal í Önundarfirði laugardaginn 26. júlí og er talið að á þriðja hundrað hafi komið í dalinn.

 

Tónleikaröðin Sumar í Hömrum var að venju í júlímánuði og var boðið upp á píanó- og harmonikkutónleika og myndlistasýningu að þessu sinni. Þá heimsótti galdrakarlinn í Oz Ísafjörð, sem og hljómsveitirnar Reykjavík!, Benni Hemm Hemm, Morðingjarnir og Borkó sem léku fyrir heimamenn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði um miðjan mánuðinn.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31