A A A
06.12.2009 - 00:09 | BB.is

Vestfirska forlagið fimmtán ára

Hallgrímur Sveinsson forleggjari hjá Vestfirska forlaginu segir það gefa sér ánægju hve vel fólk taki bókum forlagsins sem er 15 ára í haust.
Hallgrímur Sveinsson forleggjari hjá Vestfirska forlaginu segir það gefa sér ánægju hve vel fólk taki bókum forlagsins sem er 15 ára í haust.
Vestfirska forlagið á Hrafnseyri er fimmtán ára um þessar mundir. Stofnandi forlagsins og eigandi, Hallgrímur Sveinsson, segir þetta hafa gengið svona upp og ofan, en almennt séð sé hann sáttur. „Það hefur verið mjög gaman að standa í þessu," segir Hallgrímur. „Fólkið hefur tekið þessu sífellt betur og betur og það gefur manni ánægju. Annars væri maður löngu hættur. Það hefur líka gefið þessu gildi hversu margir hafa lagt hönd á plóginn. Og fjöldinn allur af höfundum hafði aldrei skrifað staf fyrr en þeir fóru að skrifa í bækurnar okkar. Auk þess höfum við bjargað frá glötun þúsundum mynda sem við höfum fengið hjá hinum og þessum, svo ekki sé nú minnst á öll gögnin og heimildirnar sem annars hefðu farið beint í glatkistuna."

Forlagið einbeitir sér að útgáfu á vestfirsku efni undir samheitinu Bækurnar að vestan. Lögð er áhersla á að blanda saman blíðu og stríðu og gamni og alvöru í bókum forlagsins, líkt og gerist í mannlífinu almennt, að sögn Hallgríms. Síðari árin hafa komið út 10 - 12 bækur á ári undir merkjum forlagsins og í ár eru þær 10. Að öðrum bókum ólöstuðum segir Hallgrímur Vestfirsku þjóðsögurnar hafa notið mestra vinsælda í gegnum árin. Og hann segist þekkja til fólks sem aldrei lesi aðrar bækur. Þær eru nú orðnar tólf og nýjasta bókin í þeim flokki, 99 vestfirskar þjóðsögur, sem Finnbogi Hermannsson tók saman fer einmitt í dreifingu á næstu dögum.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31