A A A
09.07.2018 - 12:03 | Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson

Vestfirðingar góðir og aðrir landsmenn!

Sagt hefur verið um Vestfirðinga að þeir hnýti ekki alltaf bagga sína sömu hnútum og aðrir landsmenn. Þeir vilja efla gömlu atvinnuvegina, landbúnað, sjávarútveg og iðnað hvers konar. En „þið þarna fyrir sunnan“ viljið endilega að þeir verði bugtandi ferðaþjónar. Fylli fjórðunginn af stjórnlausu ferðafólki og þjóni því allan ársins hring. Hreyfi sem minnst við landsins gögnum og gæðum svo blessaðir ferðalangarnir fái ekki sjokk af sjónmengun.


Vilja menn að Vestfirðir verði Mallorca norðursins?

Íslendingar eiga erfitt með að stjórna sjálfum sér svo vel sé. Og kunna ekki og vilja ekki forgangsraða fjármunum. Íslenska stjórnsýslan hefur stundum ekki hugmynd um hvað er að gerast í kringum hana, til vinstri né hægri. Því eru litlar sem engar líkur á að við getum haft almennilegt kontról á mörgum milljónum ferðamanna á ári að óbreyttu. Þetta er náttúrlega bilun, en það er svona samt!

Ferðamenn, farið heim, segja nú sumir innfæddir á Mallorca og Kanaríeyjum. Þrátt fyrir allan gróðann. Margir hérna fyrir vestan vilja ekki að Vestfirðir verði Mallorca norðursins. „Þið þarna fyrir sunnan“ verðið bara að skilja það.

Ferðamenn eru góðir sem slíkir að vissu marki. En stjórnlausir ferðamenn í massavís geta orðið algjör plága, sbr. miðbærinn í Reykjavík. Megum við þá frekar biðja um frumatvinnuvegina. En í hæfilegri blöndu með ferðamennskunni. Best að hafa þetta sitt af hverju tagi.

Almannarómur segir að þegar Vestfirðingar eru hættir að geta rifið kjaft, séu þeir búnir að vera. „Þið þarna fyrir sunnan“ eruð sífellt að leiðbeina þeim hvernig best er að standa að ýmsum hlutum í Vestfirðingafjórðungi. En „þeir þarna fyrir vestan“ vilja alltaf gera eitthvað annað og öðruvísi og brúka bara munn eins og gamla konan sagði.

Vestfirska rafmagnið

Flestir atvinnuvegir þurfa rafmagn. En þetta eilífa basl Vestfirðinga að halda rafmagninu inni er brandari á landsvísu. Þeir eru löngu orðnir þreyttir á einhverjum hundi að sunnan, sem er góður út af fyrir sig. En hann hleypur alltaf út og suður þegar verst gegnir. Flestar ef ekki allar stórvirkjanir okkar eru staðsettar á sívirku eldgosabelti landsins. Sú staða getur því hæglega komið upp að Vestfirðir fái ekki eitt einasta kílóvatt eftir hundinum að sunnan, jafnvel langtímum saman. Á þetta hafa vísir menn margoft bent.

Það var kraftaverk að rafvæða Vestfirði fyrir 60 árum. Og koma orkunni nánast á hvert byggt ból. Mikilvirkir, stórhuga og lagtækir menn voru þar að verki. Ekki er vitað til að nokkur Vestfirðingur né aðrir hafi beðið tjón á sálu sinni þrátt fyrir alla þá nauðsynlegu tréstaura sem stóðu undir rafmagnslínunum og standa enn. Hitt er annað að auðvitað vilja flestir góðir menn að rafstrengir séu í jörðu. Það ætti nú ekki að vera ofverkið okkar í dag miðað við fyrri afrek í dreifingu rafmagns.

Mjólkárvirkjun hefur malað gull í 60 ár

Mjólkárvirkjun hefur nú malað Vestfirðingum gull í slétt 60 ár. Þegar byrjað var á Mjólká 1 1956, 2,5 MW, var enginn vegur í Borgarfirði. Allt byggingarefni og tæki flutt á sjó. Ótrúlegt þrekvirki. Alls konar stíflur reistar á hálendinu ofan Mjólkár. En þar efra á Glámuhálendi, í 500-700 metra hæð, eru veður ströng þegar svo ber við. Efri og neðri stífla. Stærðar lón. Vegir og vatnsmiðlanir. Margra kílómetra vatnsrör ofanjarðar. Seinna kom svo Langavatnsmiðlun ásamt fleiri miðlunum. Vatni sumsstaðar veitt neðanjarðar. Svo kom Hófsárveita. Stífla þar, lón og langur skurður. Svo kom Mjólká 2 og 3 og fleira. Bara allskonar.

Við sem næstir búum höfum ekki heyrt nokkurn einasta mann kvarta yfir þessum mannvirkjum. Engan. Mjólkárfossar eru einhverjir fegurstu fossar hér um slóðir. Þeir eru stundum þurrir svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir á ári vegna vatnssöfnunar Orkubúsins. Enginn kjaftur segir eitt einasta orð. Enginn beðið tjón á sálu sinni svo vitað sé! Og það jafnvel þótt þjóðvegurinn liggi neðan fossanna. Þetta er náttúrlega bilun!

Mjólkárvirkjun-Hvalárvirkjun

Nú er upplagt að þeir sem vit hafa á setji á blað samanburð á öllum framkvæmdunum í kringum Mjólkárvirkjun í gegnum tíðina og væntanlegri Hvalárvirkjun. Í það þarf ekki að fara nema dagstund. Skyldi vera einhver raunverulegur munur þar á ef grannt er skoðað? Við leikmennirnir (einn okkar var starfsmaður á plani við Mjólká 1) höldum að þetta sé nákvæmlega sama tóbakið. Hvalárvirkjun jafnvel náttúruvænni ef eitthvað er. En sem áður segir hefur Mjólkárvirkjun malað Vestfirðingum gull í 60 ár. Og það án þess nokkur maður hafi tekið eftir því.                                   

(Meira seinna)



« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30