04.08.2009 - 12:21 | Hallgrímur Sveinsson
Verður Félag léttadrengja stofnað í Dýrafirði?
Það flýgur nú fjöllunum hærra að unnið sé að stofnun Félags léttadrengja í Dýrafirði um þessar mundir. Er sagt að Hemmi Gunn, léttadrengur á Húsatúni í Haukadal, sé þar framarlega í flokki og verði jafnvel hugsanlegt formannsefni ef af verður, sem er þó allsendis óvíst. Vitað er að léttadrengir eru mörgum bæjum í Arnar-og Dýrafirði, eins og var í gamla daga og eru þeir á ýmsum aldri, jafnvel allt upp í sjötugt. Léttastúlkur eru einnig til þar um slóðir, ef út í það er farið, en það verður ekki gert að sinni. Svo skal ekki gleyma að nefna starfsmenn á plani til sögunnar, en það er næsti bær við. Hvort þeir fá svo inngöngu í Léttadrengjafélagið er ekki vitað. Þess skal getið að orðið léttadrengur táknar snúningastrák samkvæmt Orðabók menningarsjóðs, ef menn skyldu ekki klárir á hvað þetta starfsheiti felur í sér.