A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
05.07.2011 - 10:50 | JÓH

Vel heppnaðir Dýrafjarðardagar að baki

Um 1000 manns sóttu Dýrafjarðardaga í ár. Myndir: JÓH
Um 1000 manns sóttu Dýrafjarðardaga í ár. Myndir: JÓH
« 1 af 6 »
Mikið fjölmenni var á Dýrafjarðardögum um helgina en þetta var í tíunda sinn sem hátíðin er haldin. Erna Höskuldsdóttir, formaður Dýrafjarðardaganefndar, segir að hátíðin hafi heppnast einstaklega vel. "Það var góð mæting og metþátttaka í öllum dagskrárliðum. Veðrið hefur líka alltaf mikið að segja og við vorum heppin í ár". Dagskrá hátíðarinnar var mjög fjölbreytt en meðal þess sem boðið var upp á var fléttunámskeið, listasýningar, gönguferð um Gíslaslóðir, kajak- og bátsferðir, hestaferðir, hoppukastalar og kassabílarallý, svo fátt eitt sé nefnt.

Setning hátíðarinnar fór fram í Félagsheimilinu að þessu sinni og var gestum boðið upp á alíslenskan mat, skötustöppu og plokkfisk. Þá var einnig hægt að gæða sér á dýrindis sjávarréttasúpu á bryggjunni, hlusta á uppistand Ara Eldjárns á Veitingahorninu og á trúbadorinn Gumma Hjalta í Simbahöllinni. „Við vildum líka hafa eitthvað á dagskránni sem var sérstaklega fyrir unglingana svo við settum upp sápubraut fyrir aftan Félagsheimilið, það var geggjað gaman og vakti mikla lukku. Svo fóru allir þaðan í sundlaugardiskóið", segir Erna.

 

Dagskrá laugardagsins hófst á gönguferð um söguslóðir Gísla Súrssonar undir leiðsögn Þóris Arnar, og voru þátttakendur tvöfalt fleiri en í fyrra. Íbúar á Brekkugötu buðu svo upp á súpu í garði í hádeginu og var góður rómur gerður að matseldinni. Þá mættu um 150 manns í Félagsheimilið til að horfa á brot úr leikritinu Ballið á Bessastöðum og grunnskólakrakkarnir öttu kappi í kassabílarallýi.

 

Margir góðir listamenn komu fram í grillveislunni á Víkingasvæðinu og að sögn Ernu var stemmningin góð. „Það var aðeins farið að kólna þegar líða tók á kvöldið en það var ekkert til að tala um. Maturinn var góður og fólk virtist skemmta sér vel". Hljómsveitin Hvanndalsbræður sá um að skemmta fólki fram undir morgun með balli í Félagsheimilinu og dagskrá hátíðarinnar lauk svo með tónleikum Svavars Knúts í Þingeyrarkirkju í gærdag.

 

Erna telur að um þúsund manns hafi sótt hátíðina og er það svipaður fjöldi og í fyrra. „Það voru margir sem unnu að því að gera þessa hátíð sem glæsilegasta og eiga miklar þakkir skildar. Við í nefndinni erum mjög ánægð með helgina og erum strax farin að láta okkur hlakka til næsta árs".

 

Nokkrar myndir frá hátíðinni má finna hér, og við hvetjum ykkur til að benda á fleiri skemmtilegar myndir frá Dýrafjarðardögum.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31