A A A
24.03.2015 - 20:42 | Í spegli tímans:,Hallgrímur Sveinsson

Úr fréttabréfi frá 12. 08. 2003

« 1 af 3 »

Sjávarplássið Þingeyri


Það er löngu viðurkennt að Þingeyri við Dýrafjörð er eitthvert snyrtilegasta sjávarpláss á Íslandi og þó víðar væri leitað. Ferðamenn taka eftir þessu fallega plássi, fallegu görðunum, vel máluðum húsunum og almennt allri hýbýlaprýði.
Trén eru víða ótrúlega gróskumikil og sum fleiri mannhæðir og blómgróðurinn í görðunum einstaklega fagur fyrir augað. Sagt er að ræktunarmenningu hafi Þingeyringar numið hjá séra Sigtryggi á Núpi á sinni tíð, enda ekki langt að fara til að sjá fordæmið: Garðinn Skrúð á Núpi sem allir skrúðgarðar á landinu heita eftir.
Þess ber einnig að geta, að Jónas Ólafsson, sem var sveitarstjóri á Þingeyri áratugum saman, var harður á því að snyrtimennska væri í hávegum höfð, jafnt hjá Þingeyrarhreppi sem þá hét, sem einstaklingum í byggðarlaginu. Í þriðja lagi má svo nefna veðurfarið, en Þingeyri er einhver veðursælasti staður á Íslandi.

Verslun á Þingeyri

Eins og flestir vita, er nú aðeins ein verslun eftir á Þingeyri, en það er Söluskáli Esso, sem Jóvina Sveinbjörnsdóttir stýrir. Þar hefur verið geysi mikið að gera í sumar og fjöldi ferðamanna kemur þar við. Það má teljast með ólíkindum hvað margt fæst í þeirri góðu verslun. Ef menn til dæmis spyrja um tannstöngla, þá eru þeir til og allt eftir því. Það er ekki alltaf stærðin sem ræður úrslitum!


Sumarskákmót Jóns Sigurðssonar

Sumarskákmót kennt við Jón Sigurðsson var haldið á Hrafnseyri 9. ágúst. Sigurvegari mótsins var Magnús Sigurjónsson frá Bolungarvík, öflugur skákmaður. Í öðru sæti var Sigurður G. Daníelsson kantor og dinnerspilari á Hrafnseyri og í þriðja til fjórða sæti voru hinir landsþekktu Flateyringar og brandarakarlar, Sigurður Hafberg kajakstjóri með meiru og Guðbjartur Jónsson fyrrum Vagnsstjóri. Góð verðlaun voru veitt að vanda. Þátttakendur hefðu mátt vera fleiri, en kannski eru menn að hugsa um annað heldur en skák í góða veðrinu.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30