A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
12.11.2016 - 07:08 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Þuríður Gísladóttir - Fædd 6. júlí 1925 - Dáin 30. október 2016 - Minning

Þuríður Gísladóttir (1925 - 2016)
Þuríður Gísladóttir (1925 - 2016)
Þuríður Gísladóttir fæddist á Gljúfurá í Arnarfirði 6. júlí 1925. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 30. október 2016.

Foreldrar hennar voru Gísli Vignir Vagnsson, f. 3. ágúst 1901 í Fjarðarhorni, Gufudalshr., Austur-Barð., d. 4. október 1980, bóndi á Mýrum í Dýrafirði, og kona hans Guðrún Sigríður Jónsdóttir, f. 17. maí 1895 í Sauðeyjum á Breiðafirði, d. 7. október 1975.

Systkini Þuríðar: Einar Andrés, f. 1924, d. 2015, Sigurbjörg Árndís, f. 1927, d. 1965, Una, f. 1928, Álfheiður, f. 1929, Jón Höskuldur, f. 1932, Valdimar Haukur, f. 1934, Bergsveinn Jóhann, f. 1938, Davíð, f. 1941. Uppeldisbróðir og frændi: Pétur Kristinn Þórarinsson, f. 1922, d. 1999.

Barnsfaðir: Ágúst Steindórsson, f. 6. september 1925 í Ási, Hrunamannahr., d. 29. nóvember 2006. Foreldrar hans: Steindór Eiríksson, bóndi í Ási, og kona hans Guðrún Stefánsdóttir. Sonur Þuríðar og Ágústs er Sigurleifur, f. 11. ágúst 1954 á Mýrum í Dýrafirði, stýrimaður, nú lagerstjóri Olíudreifingar. Eiginkona 9. júlí 1988 Þórhildur Sverrisdóttir, f. 14. október 1961 í Reykjavík, starfar við grafíska miðlun. Foreldrar hennar eru Sverrir Jónsson flugstjóri, f. 1924, d. 1966, og kona hans Sólveig Þorsteinsdóttir, f. 1931. Börn Sigurleifs og Þórhildar eru: 1) Guðmundur Ingi, f. 30. nóvember 1988, MSc í iðnaðarverkfræði og stjórnun, starfar hjá Marel. 2) Benedikt, f. 18. ágúst 1992, hugbúnaðarverkfræðingur og starfar hjá Controlant.

Eiginmaður Þuríðar var Guðmundur Ingi Kristjánsson, f. 15. janúar 1907 á Kirkjubóli í Bjarnardal, Önundarfirði, skáld og bóndi þar, einnig skólastjóri í Holti, Önf. Foreldrar hans: Kristján G. Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og kona hans Bessabe Halldórsdóttir.

Hún flutti frá Gljúfurá að Mýrum árið 1936 ásamt foreldrum sínum, systkinum, afa og ömmu: Vagni Guðmundssyni og Þuríði Gísladóttur. Þuríður veiktist af berklum níu ára gömul en fékk bót meina sinna á Sjúkraskýlinu á Þingeyri.

Fyrir tvítugt hleypti Þuríður heimdraganum og réð sig til heimilisstarfa hjá móðurbróður sínum í Reykjavík. Þaðan lá leiðin í Hafnarfjörð til Unu föðursystur Þuríðar og Davíðs manns hennar. Úr Hafnarfirði lá svo leiðin austur á Hvolsvöll. Þar starfaði Þuríður um skeið hjá sýslumannshjónunum Birni og Margréti. Skólaárið 1945-6 stundaði hún nám við Húsmæðraskólann á Ísafirði.

Um nokkurt skeið starfaði hún við mötuneyti Héraðsskólans á Núpi og einnig oft á heimili foreldra sinna.

Haustið 1954 réð hún sig sem ráðskonu við Holtsskóla í Önundarfirði. Þar var Guðmundur Ingi skólastjóri. Þuríður hóf snemma að kenna handavinnu við skólann auk þess að sjá um mötuneytið. Eftir að Þuríður og Guðmundur Ingi giftu sig, 2. september 1962, bjuggu þau á Kirkjubóli á sumrin en á veturna í Holtsskóla. Árið 1974 lét Guðmundur Ingi af skólastjórn í Holti og fluttist þá ásamt Þuríði og Sigurleifi alfarið að Kirkjubóli. Þar bjuggu þau uns Guðmundur lést árið 2002. Þuríður flutti eftir það til Reykjavíkur. Hún bjó á Hofteigi 42 til ársins 2011 að hún flutti á Hjúkrunarheimilið Skjól við Kleppsveg í Reykjavík.

Minningarathöfn fór fram frá Laugarneskirkju mánudaginn 7. nóvember
.

Jarðsett verður í dag, 12. nóvember 2016, klukkan 14 í Holti í Önundarfirði.

_______________________________________________________________________

 

Minningarorð Valdimars H. Gíslasonar

 

Í dag er borin til grafar Þuríður Gísladóttir, systir og vinkona. Hún sleit barnsskónum á Gljúfurá í Arnarfirði, býlinu sem Jón Sigurðsson forseti eignaðist til að verða kjörgengur. Útsýni af bæjarhlaðinu á Gljúfurá er vítt og fagurt og geymist vel í minni þeirra er þarna ólust upp. Gljúfurá er smábýli, það varð því þröngt í búi hjá foreldrum okkar þegar barnahópurinn stækkaði. Við vorum orðin sjö auk fósturbróður og afa og ömmu, 12 manns í heimili. Fyrir aðstoð góðra manna tókst föður okkar að fá ábúð á Mýrum í Dýrafirði 1936 og síðan að kaupa þá jörð 1937.

Þura, eins og við kölluðum hana jafnan, varð 11 ára árið sem við fluttum að Mýrum. Hún hafði fengið berkla en sigrast á þeim og var langt komin með að jafna sig eftir glímuna við þá þegar hún flutti að Mýrum. Bjó hún jafnan við góða heilsu eftir þetta, þurfti þó að fara í aðgerð á hnjáliðum á fullorðinsárum.

Þura var elst fjögurra systra og næstelst níu systkina. Það kom því í hennar hlut að aðstoða móður sína við uppeldi yngri systkina. Komu þá fljótt í ljós skapgerðareiginleikar sem entust henni til æviloka, glaðværð og hlýtt viðmót. Þessa nutum við systkini hennar í ríkum mæli og ég hygg að svo hafi verið um allt hennar samferðafólk.

Þura vann víða við heimilisstörf en var jafnan heima á Mýrum þess á milli. Það var mikil gæfa fyrir hana að eignast soninn Sigurleif. Hann varð strax mikill gleðigjafi alls heimilisfólks á Mýrum. Það má segja að undirritaður hafi verið heimagangur á Kirkjubóli hjá Þuru og Guðmundi Inga eiginmanni hennar meðan við Guðmundur störfuðum saman í stjórn Búnaðarsambands Vestfjarða. Þá voru stjórnarfundir iðulega haldnir á Kirkjubóli og þá kom það í hlut Þuru að sjá fundarmönnum fyrir mat og kaffi. Gestrisnin var mikil og gestakomur tíðar. Þura var mikil hannyrðakona, gagnaðist vel námið í Húsmæðraskólanum á Ísafirði. Hún prjónaði, heklaði, saumaði púða og veggteppi og var vandvirk við allt sem hún tók sér fyrir hendur. Margir eiga ýmiss konar prjónles og púða úr hennar smiðju.

Eftir að Þura komst nokkuð á níræðisaldurinn fór að bera á minnisleysi hjá henni. Varð þá að ráði að hún flyttist á Hjúkrunarheimilið Skjól. Þar naut hún ágætrar aðhlynningar sem ber að þakka fyrir. Þá naut hún jafnan umhyggju Sigurleifs sonar síns og hans fjölskyldu.

Við sem búum á Mýrum heimsóttum jafnan Þuru þegar við komum til Reykjavíkur. Það var gott að koma til hennar. Hún tók á móti gestum með gleði, þakklæti og hlýju. Hún lýsti jafnan yfir ánægju með dvölina á Skjóli og þann lúxus að þurfa hvorki að elda eða þvo upp. Skammtímaminni hennar var farið en enn leyndust í hugskotum hennar minningar frá bernskustöðvunum, einkum Gljúfurá. Hún mundi útsýnið af bæjarhellunni þar og kannski hefur hinn máttugi hljómur frá fossinum Dynjanda fylgt þeirri mynd. En í góðviðrum má greina óm frá fossinum út að Gljúfurá.

Að leiðarlokum þökkum við Þuru samfylgdina. Sigurleifi og fjölskyldu vottum við innilega samúð.

 

Valdimar H. Gíslason og fjölskylda, Mýrum.

 

____________________________________________

 

Minningarorð Ólafs Þ. Harðarsonar

 

Þura á Kirkjubóli er látin á 92. aldursári. Hún var ekkja Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds.

Sjö ára gamall fór ég í sveit að Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði. Var þar í sex sumur 1959-64. Eitt mesta happ sem ég hef orðið fyrir í lífinu.

Ég var hjá Guðmundi Inga, afabróður mínum, sem hélt heimili með móður sinni, Bessu (fullu nafni Bessabe), systur sinni Jóhönnu og Kolfinnu, dóttur Hönnu. Halldór afabróðir minn hélt annað heimili í húsinu ásamt Rebekku konu sinni og börnunum Ósk, Siggu og Bjössa. Fjöldi sumarbarna tók virkan þátt í félagsbúskapnum á Kirkjubóli.

Sumarið 1962 kom ég frá því að reka kýrnar og sá að dúkað borð var í stofunni. Hvað var á seyði? Upplýst var að Ingi og Þura væru að gifta sig niðri í Holti. Smásveini brá. Hann hafði nefnilega fengið að sofa í herbergi skáldsins þetta sumar. Margt var þar gáfulegt spjallað. Nú yrði þeirri skemmtan lokið. Sem og varð.

Þura hafði verið ráðskona í Barnaskólanum í Holti um árabil, en Ingi var þar skólastjóri. Samdráttur þeirra hafði lengi verið kunnur. En nú flutti hún að Kirkjubóli með syni sínum, Sigurleifi.

Þetta reyndist ekki bara Inga sérstakur happafengur – heldur heimilismönnum öllum. Þura var einstakt ljúfmenni, brosti við öllum – ekki síst börnum. Og svo var hún snillingur í eldhúsinu, enda verið á Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Maturinn á Kirkjubóli áður en hún kom hafði að vísu verið góður – og afar þjóðlegur: hafragrautur með eldsúru slátri, fiskur með mörfloti, harðfiskur með floti, feitt sauðakjöt, áfasúpa, blóðpönnukökur, gamalhænsnakjöt. En nú jókst fjölbreytnin svo um munaði: alls konar réttir úr samtímanum, danska eldhúsið, heimabökuð vínarbrauð, margar sortir af kökum. Ungum munnum þótti þetta ekki vond viðbót.

Ingi var 18 árum eldri en Þura. Í minningarathöfn um Þuru sunnan heiða (fyrir útför í Holti) flutti síra Davíð Þór Jónsson einkar fallega líkræðu í Laugarneskirkju – og las þetta ástarljóð Inga til konu sinnar frá 1975:

 

Vorið kom hlæjandi

hlaupandi

niður hlíðina vestan megin.

Engri sjón hef ég orðið jafn bundinn

og allshugar feginn.

 

Ég tók það í fang

og festi mér það

sem fegurst og best ég þekki.

Mánuður leið,

mannsaldur leið,

og ég missti það ekki.

 

Varðveist hefur afmælisdaga-vísnabók, handskrifuð af listaskrifaranum Inga; vísurnar orti hann 1923-32 (en systkini hans fengu að yrkja sjálf við sína afmælisdaga!) Þura saumaði síðar út fagra bókarkápu utan um gripinn. Ingastofa í Holti gaf þetta listaverk út á prenti fyrir fáeinum árum. Einstakur gripur. Við afmælisdag Þuru í bókinni er þessi fallega vísa – kannski fyrirboði?

 

Ég vildi hingað heilla þig

um hálfa stund að finna mig,

að syngja hjá mér sönginn þinn

og sjá og skilja dalinn minn.

 

Þrjár systur mínar, Sigrún Ágústa, Elín Soffía og Kristín Bessa, voru líka í sveit á Kirkjubóli og fengu að kynnast Þuru og öðru góðu fólki sem bjó á því mikla menningarheimili. Við systkinin þökkum Þuru samfylgdina. Ættingjum vottum við samúð.

 

Ólafur Þ. Harðarson.

 

Morgunblaðið Laugardagurinn 12. nóvember 2016.

 

 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31