Þurfa að gera betur í markaðsmálum bænda
• Fundað um lambakjöt á Hellu á laugardag • Boðið í veislu
Markaðsmál sauðfjárbænda verða í brennidepli á fundi sem haldinn verður í íþróttahúsinu á Hellu á morgun, 6. janúar. Lambakjöt er verðmæt vara er yfirskrift fundarins sem Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, stendur að en margir eru með í málinu, svo sem bændur í héraði, IKEA, Kjötkompaníið og Markaðsráð kindakjöts. „Við þurfum að nálgast málin af bjartsýni því ef rétt er á málum haldið eru mikil tækifæri í íslenskum landbúnaði. En það má gera betur á markaðinum, samanber að nú koma tvær milljónir ferðamanna til landsins á ári en salan á lambakjötinu eykst ekki. Einhversstaðar eru ónýtt tækifæri,“ sagði Ásmundur í samtali við Morgunblaðið.
Efla nýsköpun
Vandi sauðfjárbænda komst í fréttirnar síðastliðið haust þegar sláturleyfishafar gáfu út að skerða þyrfti afurðaverð til bænda vegna mikilla óseldra birgða. Rétt fyrir áramót samþykkti Alþingi tillögu um að verja 665 milljónum króna til að koma til móts við sauðfjárbændur, en stuðningur við hvern og einn byggist á ýmsum forsendum.
Hluti af aðgerðunum felst síðan í nýsköpun og vöruþróun. Í því efni segir Ásmundur Friðriksson áhugavert að horfa til þess góða árangurs sem hafi náðst. Í verslun IKEA í Garðabæ seljist nú til dæmis lambaskankar og lokur með lambakjöti afar vel – og lambafita sé notuð tl þess að steikja kleinur sem seljist vel. Þá sé Jón Örn Stefánsson í Kjötkompaníinu í Hafnarfirði að gera góða hlut og selji kótelettur sem seldar eru á 5.990 kr. kílóið. Þeir Ásmundur og Jón Örn muni segja frá þessari markaðssetningu á Hellufundinum, sem sé mjög áhugavert mál.