A A A
  • 1958 - Birgir karlsson
28.06.2016 - 07:02 | Vestfirska forlagiđ,Morgunblađiđ

Ţórhallur Arason - Fćddur 14. janúar 1954 - Dáinn 19. júní 2016 - Minning

Ţórhallur Arason.
Ţórhallur Arason.
« 1 af 2 »
Þórhallur Arason fæddist í Reykjavík 14. janúar 1954. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 19. júní 2016.

Foreldrar hans voru Camilla Elín Proppé og Ari Jónsson. Þórhallur var yngstur þriggja systkina, en hin eru Svava Aradóttir og Jón Friðrik Arason.

Sonur Þórhalls er Þráinn, sem hann eignaðist með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Hildi Þráinsdóttur. Þráinn Þórhallsson er í sambúð með Klöru Kristjánsdóttur. Sonur þeirra er Dalí Þráinsson.

Þórhallur lauk búfræðinámi frá Hvanneyri 1977. Hann dvaldi um tíma í Danmörku við nám í viðskiptafræðum. Eftir heimkomu var hann um árabil framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Tímabæjar í Reykjavík. Hann vann að kynningarmálum fyrir Bændasamtök Íslands í nokkur ár. Þá var hann var áhugamaður um verslun og viðskipti og kom að stofnun nokkurra fyrirtækja.

Skömmu eftir síðustu aldamót flutti Þórhallur til Þingeyrar, þar sem hann var athafnasamur framkvæmdamaður, rak þar um skeið fiskvinnslufyrirtæki, fór í trilluútgerð og vann jafnframt að nýsköpunarverkefnum er sneru að sjávarútvegi. Þá var hann nýsköpunar- og þróunarstjóri hjá fiskvinnslufyrirtækinu Vísi og síðar hjá vöruþróunarfyrirtækinu Optimal í Grindavík. Þórhallur lét til sín taka í félagsmálum á Þingeyri og barðist fyrir mörgum hagsmunamálum bæjarbúa. Hann var félagsmaður Rótarýhreyfingarinnar á Ísafirði og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Einnig var hann virkur liðsmaður SÁÁ um árabil. Hann var fróður um sögu Dýrfirðinga og stofnfélagi áhugamannafélags um víkingaverkefni á söguslóðum Gísla Súrssonar. Hinsta verkefni Þórhalls var að stofna félag um rekstur víkingaskipsins Vésteins, sem nú siglir með ferðamenn frá Reykjavíkurhöfn.

Þórhallur verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 28. júní 2016, og hefst athöfnin klukkan 15.


_________________________________________________________________________________

 

Minningarorð Harðar Sigurðarsonar

Við Þórhallur Arason vorum jafnaldrar og æskuvinir, báðir fæddir 1954 og bjuggum í sömu götu fyrstu ár ævinnar. Foreldrum okkar og systkinum var vel til vina enda kynntumst við Þórhallur sem hvítvoðungar og hélt sú innilega vinátta þar til leiðir skildu í síðustu viku, en Þórhallur lést 19. júní eftir allsnarpa en hetjulega baráttu við krabbamein.

Þórhallur var einn fjölhæfasti og hugmyndaríkasti maður sem ég hef kynnst. Allt frá barnsaldri hafði hann fjölmörg járn í eldinum, var ótæmandi hugmyndabanki, þúsundþjalasmiður, sérstaklega fjörmikill einstaklingur og mikill húmoristi. Við brölluðum margt í barnæsku og hafði Þórhallur oftar en ekki orð fyrir okkur báðum og reyndist hann mér traustur málsvari þegar í klandur var komið.

Ekki minkaði lífsgleðin þegar við komumst á unglingsárin. Þórhallur spilaði á mörg hljóðfæri, samdi tónlist og söng eins og engill. Hann var hrókur alls fagnaðar þar sem gleðskapur var – reytti af sér brandarana, reykti eins og strompur og drakk áfengi eins og enginn væri morgundagurinn. Hann sá þó fljótlega að Bakkus var ekki alltaf besti vinurinn og gekk snemma til liðs við SÁÁ og var það mikið gæfuspor.

Þórhallur flutti vestur á Þingeyri um síðustu aldamót og bjó þar síðan. Hann var sífellt með á takteinum hugmyndir að nýsköpunarverkefnum er oftast tengdust sjávarútvegi. Hann hannaði og lét smíða fiskvinnsluvélar er stuðluðu að bættri nýtingu sjávarfangs og vann að ýmsum þróunarverkefnum í sjávarútvegi. Hann keypti sér bát, fór í trilluútgerð og barðist af hörku fyrir því að Þingeyri fengi úthlutað byggðakvóta.

Þórhallur lét til sín taka í félagsmálum á Þingeyri, var áberandi í bæjarlífinu og beitti sér af heilindum fyrir mörgum hagsmunamálum bæjarbúa. Hann keypti sér glæsilegt hús á fögrum stað við sjávarsíðuna og þar var gestkvæmt og glatt á hjalla. Karlarnir á Þingeyri hittust þar oft um helgar, kneyfðu öl og horfðu saman á enska boltann á breiðtjaldi. Fólk sótti hann heim úr öllum heimshornum enda var hann vinmargur og hjartahlýr. Á Þingeyri var hann höfðinginn og hrókur alls fagnaðar, eldaði dýrindis steikur og veitti guðaveigar á báðar hendur enda var hann aldrei bindindismaður fyrir aðra en sjálfan sig.

Þórhallur hafði mikinn áhuga á sögu lands og þjóðar og kom sem frumkvöðull að víkingaverkefnum er tengdust Dýrafirði og Gísla sögu Súrssonar. Síðasta verkefni hans var að stofna félag um víkingaskipið Véstein, sem nú siglir með ferðamenn frá Reykjavíkurhöfn. Hann kom siglandi frá Þingeyri á fögrum sumardegi fyrir einu ári ásamt traustri áhöfn vina og samstarfsmanna.

Skömmu eftir komuna til Reykjavíkur greindist Þórhallur með illkynja krabbamein og var þá þegar ljóst hvert stefndi. Þórhallur tók þessum fréttum af miklu æðruleysi, hélt sínu striki, barðist karlmannlega við sjúkdóminn allt til dauðadags, vann ótrauður áfram að hugðarefnum sínum og sinnti vinum sínum og fjölskyldu af ástúð og æðruleysi.

Það er með djúpum söknuði og trega sem ég kveð nú minn kæra vin. Fjölskyldu hans, sem var honum svo náin og kær, sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Hörður Sigurðarson.

 

 

MOrgunblaðið þriðjudagurinn 28. júní 2016.« Júní »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30