Þorbjörg Jónasdóttir - Fædd 20. maí 1926 - Dáin 21. apríl 2017 - Minning
Foreldrar hennar voru Jónas Hallgrímur Guðmundsson, skipstjóri á Flateyri, f. á Alviðru í Dýrafirði 2.5. 1886, d. 18.12. 1935, og María Þorbjarnardóttir, húsm. á Flateyri, frá Hrauni á Ingjaldssandi, f. 9. apríl 1897, d. 21. apríl 1979. Systkini Þorbjargar voru Marteinn Jónasson, f. 1916, d. 1987, Þuríður Jónasdóttir, f. 1917, d. 2008, Baldur, f. 1920, d. 1923, Bragi Jónasson, f. 1924, d. 1983 og Baldur Jónasson, f. 1924, d. 1992.
Hinn 13. nóvember 1948 giftist hún Kristjáni Guðmundssyni, bakarameistara á Flateyri, f. 25.8. 1927 á Patreksfirði, sonur Guðmundar Kristjánssonar, f. 1900, d. 1959, og Ingveldar Gísladóttur, f. 1904, d. 2004, sem bæði voru úr Breiðafjarðareyjum. Kristján eiginmaður Þorbjargar lést um aldur fram 17. júní 1974.
Börn Þorbjargar og Kristjáns eru:
1) Guðmundur Jónas, f. 13.5. 1949, búsettur í Mosfellsbæ.
2) María Kristín, f. 13.9. 1952, gift Sigurbirni Svavarssyni, búsett í Mosfellsbæ, börn þeirra: a) Kristjana Þorbjörg, f. 1974, gift Jóhanni Braga Fjalldal, f. 1974, þeirra börn: Freyja María, f. 2007, Katrín Margrét, f. 2011, og Sigurbjörn Kári, f. 2011. b) Björn Þór, f. 1979.
Þorbjörg ólst upp á Flateyri, fór ung í Húsmæðraskólann í Reykjavík, en starfaði á Flateyri alla sína starfsævi, lengst af á Ritsímanum og síðar á Pósti og síma, síðustu 14 árin sem símstöðvarstjóri. Hún fór á eftirlaun 1992 og flutti þá til Reykjavíkur með syni sínum, Guðmundi Jónasi.
Útförin fór fram frá Fossvogskirkju í gær, 28. apríl 2017.
___________________________________________________
Minningarorð Sigurbjörns Svavarssonar.
Dúbbu tengdamóður mína hitti ég fyrst í Strýtu á Flateyri í mars 1974 og það án dóttur hennar. Ég hafði komið til hafnar á Ísafirði á varðskipi og fékk sérstakt leyfi skipherrans til að skjótast yfir Breiðadalsheiði til Flateyrar. Þetta var allt óundirbúið og þá engir farsímar til að tilkynna skyndilega komu verðandi tengdasonar hennar á miðjum vinnudegi til Flateyrar. Böddi sem hafði birst svo óvænt um borð á Ísafirði og ég hitti í fyrsta sinn þá, hafði sannfært mig um að koma með sér til að hitta verðandi tengdafólk mitt, bankaði á dyr Strýtu og María amma Maju bauð mér til stofu eftir að Böddi hafði kynnt mig. Hvort sem gamla konan hringdi, þá kom Dúbba fyrst til að taka á móti mér, vatt sér inn snögg í hreyfingum, heilsaði og baðst afsökunar, þyrfti að hringja í Kidda og Jónas.
Þarna hitti ég tengdafólkið mitt fyrst sem átti eftir að verða svo náið. Þarna hitti ég Kidda bakara, verðandi tengdaföður, í fyrsta og eina skiptið því hann lést um aldur fram 17. júní þá um sumarið. Skyndilegt lát Kristjáns varð tengdafólki mínu mikið áfall og þá sá ég styrk Dúbbu er hún leiddi fjölskylduna í gegnum erfiðleikana af ákveðni og dugnaði. Nýr kafli í lífi Dúbbu varð eftir fráfall Kidda. Hún var einbeitt í því að halda heimilli með syni sínum og aldraðri móður sinni sem krafðist mikils eftir fullan vinnudag á símstöðinni. Ég dáðist oft að dugnaði hennar, á haustin tók hún innmat og gerði slátur, tók hálfa nautaskrokka, úrbeinaði, hreinsaði og flokkaði sjálf og gekk frá öllu í máltíðarpakkningar, bakaði reglulega ótaldar kökutegundir, og af öllu þessu nutum við ríkulega, allt unnið á kvöldin og um helgar.
Þessir eiginleikar; andlegur styrkur, ákveðni og dugnaður þar sem aldrei féll verk úr hendi einkenndu Dúbbu auk þess að vera frábær gestgjafi þar sem kunnátta hennar úr húsmæðraskóla skein alltaf í gegn. Natni í smáatriðum og nákvæmni í öllu sem hún gerði hélt öllu í röð og reglu, það varð stundum til stríðni af minni hálfu. Skap hennar var ljúft, aldrei hækkaði hún röddina heldur stóð ákveðin og keik með hendur á mjöðmum og beitti góðum rökum með sínu vestfirska tungutaki. Á þessum rúmum 40 árum tókum við stundum snerru okkar á milli vegna þess sem ég taldi vera of mikla dekrun við barnabörnin, en hún taldi ekkert of gott fyrir börnin, ég skil það núna þegar ég sjálfur dekra við barnabörnin. Dúbba og María móðir hennar misstu báðar eiginmenn sína snemma og urðu sínum nánustu eins og klettar sem vörðu fyrir áföllum, sterkar vestfirskar konur sem skiluðu sínu með sæmd og menningarreisn. Það var minn heiður að hafa kynnst þeim. En nú er ég viss um að fagnaðarfundir verða á efri sviðum.