Guðbjörg Lind (t.h) við vinnu sína ásamt Ólöfu Oddgeirsdóttur í tengslum við sýninguna "Lýðveldið á eyrinni".
Sunnudaginn 27. júní kl.14.00 opnar Guðbjörg Lind Jónsdóttir myndlistarmaður sýninguna Þögul mynd af húsi í Vertshúsi á Þingeyri. Húsið sem einnig hefur verið kallað Hótel Niagara var byggt árið 1881 og á sér mikla sögu. Sýningin er einskonar menningarlegur fornleifagröftur þar sem gamlir munir er fundist hafa við endurbætur á húsinu eru settir í nýtt myndrænt samhengi. Til þess að skapa sýningunni sögulega umgjörð prýða veggi Vertshúss gamlar ljósmyndir frá Þingeyri. Einnig eru til sýnis málverk og teikningar Guðbjargar sem eru afrakstur dvalar í húsinu. Þar gætir bæði áhrifa frá Vertshúsi að innan sem og umhverfi þess.
Nýverið stofnaði Guðbjörg Lind Minningasafnið, en tilgangur þess er að vera hýsill skapandi verkefna á sviði mynd- og ritlistar, þjóðfræði og sögu, í því skyni að auðga menningarlíf á Þingeyri. Guðbjörg er fædd og uppalin á Ísafirði og hefur haldið fjölmargar sýningar hér heima og erlendis.
Sýningin stendur til sunnudagsins 11.júlí og er opin frá kl. 14.00 til kl. 18.00 alla daga nema mánudaga en þá er lokað.