08.02.2019 - 15:45 |
Þingeyringur sigurvegari í söngvakeppni
Þingeyringurinn Bríet Vagna og ísfirsk vinkona hennar Sara Emily lentu á dögunum í fyrsta sæti í Söngvakeppni Félagsmiðstöðva á norðanverðum Vestfjörðum með laginu Líttu Sérhvert Sólarlag eftir Braga Valdimar Skúlason. Þetta var í fyrsta skiptið sem þær stöllur syngja saman, en þær hafa báðar verið í tónlistarnámi um árabil, Bríet í gítar og söngnámi og Sara í píanónámi.
Sigurinn tryggði þeim þátttökurétt í Söngvakeppni Samfés sem fram fer í Laugardagshöll þann 23. mars næstkomandi. Við hjá Þingeyrarvefnum erum auðvitað rífandi stolt af okkar fólki og óskum þeim góðs gengis í stóru keppninni.