A A A
  • 1928 - Unnur Hjörleifsdóttir
12.10.2016 - 22:19 | Vestfirska forlagiğ,Morgunblağiğ

Şetta gerğist: 12. október 1962 var kvikmyndin "79 af stöğinni" frumsınd

79 af stöğinni.
79 af stöğinni.

Kvikmyndin 79 af stöðinni var frumsýnd í Háskólabíói og Austurbæjarbíói í Reykjavík þann 12. október 1962.

Hún var gerð eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar. Kvikmyndahandritið skrifaði Guðlaugur Rósinkrans, þjóðleikhússtjóri, frá Tröð í Önundarfirði.

Titillag kvikmyndarinnar var "Vegir liggja til allra átta" eftir Sigfús Halldórsson við texta Indriða G. Þorsteinssonar. Hin glæsilega útsetning lagsins er verk Dýrfirðingsins Jóns Sigurðssonar -bassa- fæddur að Söndum í Dýrafirði 14. mars 1932 og dáinn þann 30. apríl 2007.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Á útfarardegi Jóns Sigurðssonar þann 7. maí 2007 skrfaði Hildur Jónsdóttir, dóttir Jóns Sigurðssonar þetta:

 

Eitt sinn verða allir menn að deyja, söng Vilhjálmur góðvinur föður míns forðum. Pabbi léði því lagi sinn sterka svip með einni fallegustu strengjaútsetningu sem heyrst hefur í íslensku dægurlagi. Gerð hennar bar upp á tveggja ára dánarafmæli hans eigin sonar. Við í fjölskyldunni vissum, að undurblíðir strengjahljómarnir tjáðu hans eigin sonarharm. Nafn pabba kom hvergi fram á plötuumslagi og þetta mun á fárra vitorði. Þegar við börnin hans ergðum okkur yfir því var pabbi jafn hógvær um eigin verk og endranær og vildi ekkert leiðrétta.

Lítillæti yfir eigin hlut var skapgerðareinkenni pabba. Þegar við vorum að alast upp og fram að spretta ungir menn í dægurlagabransanum, sem ekki voru tónlistarmenntaðir, voru mýmörg dæmi þess að þeir kæmu til pabba með kassagítarinn eða segulbandsupptökur þar sem þeir rauluðu lögin sín. Oft voru þetta hálfkláruð stef, hugmynd að lagi. Þeir vildu fá ráðleggingar, jafnvel hjálp við að klára lögin, nótnaskrift og stundum útsetningar. Pabbi tók öllum af sömu alúð og hjálpsemi. Breytum þessum hljómi, hækkum þarna, hægjum á laginu, lengjum það með millikafla... Frá pabba fóru þeir með fullburða lagasmíðar á nótum, að sjálfsögðu með eigið nafn undir öllu saman og efldir að sjálfstrausti. Á sama hátt bar hann föðurlegan hlýhug til nemenda sinna. Ég man eftir því þegar hann gaf einum gæruúlpuna frá Álafossi utan af mér, sagði mig hvort sem er nota hana sjaldan. Sá bjó við sára fátækt og ég fann að pabbi sá sjálfan sig í honum.

Okkur börnunum þótti oft nóg um þögn pabba yfir eigin afrekum. Segðu okkur frá því þegar þú samdir djasslagið í flugvélinni til Þýskalands með KK sem vann svo fyrstu verðlaun, sífruðum við. Segðu okkur frá því þegar þú varst kosinn besti djassleikari Evrópu á einhverju djassfestivali í Noregi, af öllum stöðum. Einstaka sinnum náðum við honum á flug, en það þurfti oftast mikið til. Og það var fyrir handvömm að hann var ekki skráður meðhöfundur lags Sigfúsar Halldórssonar, Vegir liggja til allra átta. Hann gerbreytti þessum litla tangói Fúsa, skrifaði inn í hann forspil og millikafla og gerði að því rokklagi sem hrifið hefur kynslóð eftir kynslóð.

Pabbi var einlægur jafnaðarmaður í hugsun og leið ekki félagslegt óréttlæti. Þrátt fyrir fátækt tókst honum að láta draum sinn um að læra tónsmíðar og hljóðfæraleik rætast og upp frá því var hann kenndur við bassann. Hann gekk til liðs við Sinfóníuhljómsveitina á fyrsta starfsári hennar 1951 og starfaði þar allan sinn starfsaldur. Á tímum þegar háir manngerðir múrar voru milli svokallaðrar hámenningar og lágmenningar var hann einn fárra sem flökkuðu jafnvígir milli klassíkurinnar, djassins og dægurtónlistarinnar og beitti öguðum vinnubrögðum hins klassískmenntaða tónlistarmanns einnig á vettvangi dægurtónlistarinnar.

Ég kveð föður minn með virðingu og djúpu þakklæti og votta öllum hans afkomendum, systkinum og ástvinum samúð. Móður minni, ást lífs hans og besta vini, bið ég blessunar. Ég veit að í krafti trúar sinnar og óslökkvandi kærleika mun hún aldrei finna til aðskilnaðar við lífsförunaut sinn.

Guð blessi þig, elsku pabbi.

 

Hildur Jónsdóttir

 
Morgunblaðið 7. maí 2007


Hér á slóðinni má heyra hina frábæru útsetningu Jóns Sigurðssonar á
Vegir liggja til allra átta.

https://www.youtube.com/watch?v=W6nEjeVz29M&list=RDW6nEjeVz29M


Vegir liggja til allra átta
enginn ræður för
hugur leitar hljóðra nátta
er hlógu orð á vör
og laufsins græna á garðsins trjám
og gleðiþyts í blænum.
Þá voru hjörtun heit og ör
og hamingja í okkar bænum.

Vegir liggja til allra átta
á þeim verða skil
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að byrti á ný
og bleikur morgun rísi.
Nú strýkur blærinn stafn og þil
stynjandi í garðsins hrisi. 


„Vegir liggja til allra átta (upphaflega „79 af stöðinni) er íslenskt dægurlag eftir Sigfús Halldórsson við texta eftir Indriða G. Þorsteinsson. Lagið var samið fyrir kvikmyndina 79 af stöðinni eftir samnefndri skáldsögu Indriða sem kom út 1955 og hafði notið mikilla vinsælda. Guðlaugur Rósinkranz Þjóðleikhússtjóri tók fljótlega að skrifa kvikmyndahandrit eftir sögunni og íslenska fyrirtækið Edda Film stóð að gerð myndarinnar sem var leikstýrt af danska leikstjóranum Erik Balling. Guðlaugur fékk Sigfús og Indriða til að semja lagið fyrir myndina. Samkvæmt Indriða hafði Guðlaugur fengið þá hugmynd að myndin yrði að hafa eftirminnilegt lag, líkt og myndirnar Casablanca og Brúin yfir Kwai. Jón Sigurðsson, tónlistarmaður, útsetti lagið og í einu atriði hennar sést Ellý Vilhjálms syngja það á balli á Hótel Borg. Í laginu er langt gítarmillispil sem Ólafur Gaukur Þórhallsson lék og sumir segja vera fyrsta gítarsóló íslenskrar tónlistarsögu.

Lagið varð umsvifalaust gríðarlega vinsælt. Það kom út á smáskífu ásamt laginu „Lítill fugl 1963, ári eftir að kvikmyndin var frumsýnd, undir heitinu „79 af stöðinni, en í síðari útgáfum var nafninu breytt í „Vegir liggja til allra átta. Þetta var önnur plata Ellýjar.


 

 

 

 

« Júní »
S M Ş M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30