A A A
  • 1957 - Jón Reynir Sigurðsson
  • 1963 - Ísleifur B Aðalsteinsson
  • 2000 - Lilja Kristín Björgvinsdóttir
11.08.2016 - 07:05 | Vestfirska forlagið,Samvinnan,Guðlaugur Rósinkranz

Þetta gerðist - 11. ágúst 1918 – stofndagur Kaupfélags Önfirðinga

Gamla Kaupfélagið á Flateyri. Það brann 1983.
Gamla Kaupfélagið á Flateyri. Það brann 1983.
« 1 af 6 »

Guðlaugur Rósinkranz skrifar í Samvinnuna árið 1938

Kaupfélag Önfirðinga var stofnað 1918. Starfið gekk heldur illa í byrjun og varð fél. fyrir ýmsum óhöppum líkt og Kaupfélag Dýrfirðinga. Sérstaklega tapaði félagið mikið á fiskkaupum. Reynzla þessara tveggja félaga sýnir, hve hættulegt það getur verið fyrir lítil og fjárhagslega veik félög að fara út í áhættusama verzlun eins og fiskverzlun.

Þegar félagið hóf starfsemi sína, keypti það verzlunar- og íbúðarhús Bergs Rósinkranzsonar á Flateyri og rak þar verzlunina þar til það, 1928, keypti verzlunarhús Hinna sameinuðu ísl. verzlana. Eign þessari fylgdu, auk verzlunarhússins, íbúðarhús allstórt, tvö stór geymsluhús, bryggja og stórir reitar. Eignin er virt á 90 þús. kr. Aðstaða til verzlunar og fiskverkunar er þarna ágæt. Fiskverkun hefir félagið líka stóðugt haft og í ár hefir það verkað um 400 skippund.

Félagsmennirnir eru 60. Flestir eru bændur. Á síðustu árunum hafa þó allmargir verkamenn og sjómenn á Flateyri gengið í félagið. Vöruvelta hjá félaginu var síðastliðið ár 143 þús. kr. Sala erlendra vara og íslenzkra iðnaðarvara voru 93 þús. kr., en innl. vörur 53 þús. Verzlunin var mjög lík og hún hafði verið næsta ár á undan.

Stjórn félagsins skipa:  

Séra Jón Ólafsson prestur í Holti, formaður, Finnur Finnsson, bóndi á Hvilft, Guðmundur Gilsson, bóndi í Hjarðardal, Jóhann Jónsson, bóndi í Breiðadal og Magnús Guðmundsson, skrifstofumaður, Flateyri.

Bæði á Flateyri og Þingeyri hefir að öllum jafnaði verið allmikill útvegur. Á skútutímabilinu voru mörg seglskip, en nú á seinni árum hefir verið allmikill vélbátaútvegur á Flateyri, en á Þingeyri eru þrír línuveiðarar.

Aðstaða til fiskveiða er ágæt frá báðum þessum stöðum, stutt að sækja, hafnir góðar og ágæt aðstaða til fiskverkunar í landi. Á Flateyri er síldarog karfaverksmiðja starfandi og skapar hún mikla atvinnu yfir sumarmánuðina. Á síðastliðnu sumri tók hraðfrystihús til starfa á Flateyri. Frysti það aðallega kola, sem seldur var til Englands fyrir ágætt verð.

Síðastliðið sumar var því mjög mikil atvinna þar, svo skortur var jafnvel á fólki um tíma. Ef atvinnulíf þessara kauptúna getur í framtíðinni orðið með líkum hætti og það hefir verið á þessu ári, er þess að vænta að afkoman verði góð, og verzlun mikil.

Fyrir innsveitina í Önundarfirði hafa hinar bættu samgöngur við ísafjörð, með bílvegi yfir heiðina á milli fjarðanna, haft allmikla þýðingu. Frá Önundarfirði er nú hægt að selja mjólk til Ísafjarðar yfir sumarið. Til þess að full not geti orðið að mjólkurmarkaðnum á Ísafirði, þyrfti vitanlega að vera einhver annar markaður fyrir mjólkina, þann tíma ársins, sem ekki er hægt að flytja hana til Ísafjarðar, en það eru 8—9 mánuðir. Leiðin til þess að bæta úr því mundi vera stofnun rjómabús í Önundarfirði, sem gæti þá starfað allan þann tíma, sem ekki er hægt, sökum snjóa á heiðinni, að koma mjólkinni til ísafjarðar. Ef hægt væri að koma þessu í framkvæmd, mundi borga sig að auka mjólkurmagnið miklu meira en hægt er nú með mjólkursölu þennan stutta tíma.

Á Vestfjörðum, eins og víða annarstaðar, voru danskar selstöðuverzlanir ráðandi svo að segja í allri verzlun, allt fram til 1920, að kaupfélögin hófu þar starfsemi sína. Þó kaupfélög þessi hafi ekki verið stór og fjársterk, hafa þau með starfsemi sinni, stuðlað að því, að þessar gömlu, hálfgerðu einokunarverzlanir hafa lagzt niður. Því þegar kaupfélögin byrjuðu, fóru margir af viðskiptamönnum gömlu verzlana til kaupfélaganna. Viðskipti þeirra minnkuðu því, og þegar þær síðan urðu að fylgja verðlagi kaupfélaganna, minnkaði hagnaðurinn svo á verzlununum, að þær hættu starfseminni.

Enginn vafi leikur á, að kaupfélög þessi hafa með starfsemi sinni gert stórmikið gagn fyrir þau héruð, sem þau hafa starfað í, með því að lækka vöruverðið á aðkeyptum vörum og auka atvinnu á þeim stöðum, þar sem þau eru. Vonandi tekst félögunum, eftir. því sem þau eflast, að ná betri árangri og verða enn þá meiri máttarstoðir atvinnulífsins á Vestfjörðum.


Samvinnan 1938
Guðlaugur Rósinkranz frá Tröð í Önundarfirði.


« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30