A A A
  • 1958 - Birgir karlsson
16.08.2016 - 21:08 | Ungmennafélag Ķslands,Vestfirska forlagiš

Žessi mašur var ósyndur fyrir fjórum įrum!

Gunnar Örn Gušmundsson frį Njaršvķk og Ingimundur Ingimundarson frį Ungmennasambandi Borgarfjaršar.
Gunnar Örn Gušmundsson frį Njaršvķk og Ingimundur Ingimundarson frį Ungmennasambandi Borgarfjaršar.
« 1 af 2 »

Það vakti athygli við afhendingu verðlauna í sundi á Landsmóti UMFÍ 50+ í miðbæ Ísafjarðar fyrr í sumar þegar Ingimundur Ingimundarson frá Ungmennasambandi Borgarfjarðar stóð á verðlaunapalli og hrópaði upp yfir sig: „Þessi maður var ósyndur fyrir fjórum árum!“ Þar átti Ingimundur við Gunnar Örn Guðmundsson frá Njarðvík, sem lenti í öðru sæti í 100 metra skriðsundi í aldursflokki 70–74 ára, einni af þeim fjórum sundgreinum sem hann keppti í.

 

Íþróttaferill Gunnars er langur. Hann var mikið á hreyfingu á sínum yngri árum, hóf ferilinn í körfubolta með Njarðvík og varð Íslandsmeistari í júdó um þrítugt. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í „old boys“-flokki í körfu.

Greinarnar, sem Gunnar hefur prófað, eru fjölmargar auk þess sem hann hefur tekið þátt í ýmsum áhættuíþróttum og reynt m.a. fyrir sér í sviffallhlífarstökki fram af 1000 metra hárri klettabrún í Slóveníu. Gunnar hefur hlaupið og hjólað mikið en sjaldnar synt. Gunnar var reyndar ósyndur þar til hann ákvað að taka þátt í þríþraut fyrir fjórum árum, þá 67 ára gamall.

 

Af hverju kunnir þú ekki að synda?

„Ég veit það ekki, en ætli það hafi ekki verið þrjóska, eitthvað sem ég beit í mig. Ég bókstaflega hataði sund. En stelpan mín keppti oft í sundi og ég dæmdi í sundi. Það var einmitt stelpan sem fékk mig til að fara í þríþrautina og boðaði mig í sundkennslu í Keflavíkurlaug. Það var algjört helvíti, ég tók inn mikið af vatni og var hálftíma að fleyta mér áfram 400 metra í 50 metra laug,“ segir Gunnar en hann stakk sér í fyrsta sinn í laugina á Landsmótinu á Ísafirði í júní. „Ég hafði aldrei stungið mér fyrr og ætlaði að spyrna mér frá bakkanum. Þegar á hólminn var komið fannst mér það svo aulalegt að þarna stakk ég mér með hinum. Það gekk vel.“

 

Gunnar gerði meira en að keppa eingöngu í sundi. Hann var líka einn þriggja karla í þríþraut. Sund er ein greinanna og lenti hann í þriðja sæti að loknu fimm kíló- metra hlaupi.

 

Og hvernig finnst þér nú að synda?

„Þetta er orðið eitt af því skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Gunnar.

Hann keppti í fyrsta sinn á Landsmóti UMFÍ 50+ og eys það lofi. „Þetta er meiriháttar gaman. Ég er að hitta hér menn sem ég keppti við í körfubolta áður fyrr og hef ekki séð í 40 ár. Það er rosalega gaman!“

 

 

Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

 

Þú getur smellt hér og lesið blaðið.

Tags:

Landsmót 50+

Gunnar Örn Guðmundsson

Ísafjörður

Landsmót UMFÍ 50+


« Jśnķ »
S M Ž M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30