A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
13.11.2016 - 07:14 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Þekkingin smitaðist út í sveitirnar

Dýrfirðingurinn Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri.
Dýrfirðingurinn Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri.
« 1 af 2 »
Saga Mjólkurskólans á Hvanneyri og Hvítárvöllum komin út á bók 
Var meðal fyrstu starfsmenntabrauta sem stóð konum til boða

Fjárfest í þekkingu áður en farið var í framleiðslu

»Mér finnst þetta glæsilegt dæmi um það hvernig menn mættu erfiðleikum í atvinnurekstri. Þegar brestur varð í markaði sauðasölunnar undir lok nítjándu aldar duttu bændur ofan á þá lausn að reyna sölu á smjöri til útlanda,« segir Bjarni Guðmundsson, fyrrverandi prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og verkefnisstjóri Landbúnaðarsafns Íslands. Hann hefur sent frá sér bók um sögu Mjólkurskólans á Hvanneyri og Hvítárvöllum.

 

Skoðun Bjarna á þessari sögu leiðir ýmislegt fleira athyglisvert í ljós. Hann nefnir að í þessu tilviki hafi verið ákveðið að fjárfesta í þekkingu áður en farið var að byggja upp framleiðsluna. Það er ekki algengt í sögunni.

 

Meðferð mjólkur breyttist

 

Mjólkurskólinn hóf starfsemi haustið 1900. Var fenginn maður frá Danmörku, Hans Grönfeldt Jepsen, til að koma honum á fót og stýra. Skólinn var síðan fluttur til Hvítárvalla, eftir að hús hans brann á Hvanneyri. Þar starfaði hann í tengslum við rjómabú bænda í Andakíl og nærsveitum fram um 1920 þegar starfsemin fjaraði út vegna þess að ekki var lengur eftirspurn eftir náminu. »Margt breyttist í fyrra stríði. Markaðurinn brast og erfiðara varð að fá vinnuafl til sveitastarfa.«

 

En hver voru áhrif starfsins í Mjólkurskólanum?

 

»Teknir voru upp nýir hættir við meðferð og vinnslu mjólkur sem smituðust út í sveitirnar með breyttum verkháttum þótt nemendurnir yrðu ekki nema um 200 í heildina. Mjólkurskólinn breytti einnig stöðu kvenna. Var ein af fyrstu starfsmenntabrautum sem konur áttu kost á. Margar þeirra tóku við forystu rjómabúa og það opnaði þeim leið til meiri ábyrgðarstarfa,« segir Bjarni, en titill bókarinnar vísar til þessa, »Konur breyttu búháttum«.

 

Bjarni bætir því við að þótt ekki hafi verið lengur þörf fyrir þessa kennslu hafi kunnáttan verið áfram til staðar og hægt að grípa til hennar þegar mjólkuriðnaðurinn hófst til þess vegs sem hann er á í dag.

 

Þegar rætt er um áhrif starfsins í Mjólkurskólanum nefnir Bjarni einnig að í stað sjálfsþurftarbúskaparins hafi bændur þurft að vinna saman við stofnun og rekstur rjómabúa. Stofna félög, reka fyrirtæki, selja afurðir, deila hagnaði eða tapi og svo framvegis. Það sé ein af rótum samvinnufélagsskapar við afurðasölu.

 

Smjörframleiðslan í rjómabúunum varð síðan til þess að bændur fengu tekjur til að taka á móti tæknibreytingum, svo sem með kaupum á vélum eða byggingu húsa.

 

Bjarni hefur gefið út bækur um tæknivæðingu landbúnaðarins, meðal annars vinsælar bækur um dráttarvélar. Ástæðan fyrir því að saga mjólkurskólans varð viðfangsefni hans í mörg ár er persónuleg.

 

Amma hans sótti skólann

 

»Það var vegna ömmu minnar [Guðmundu Maríu Guðmundsdóttur frá Kirkjubóli í Dýrafirði] sem var í þessum skóla. Frá henni varðveittust forvitnileg gögn. Þegar ég fór að skoða þau varð mér ljóst að Mjólkurskólinn var miklu merkilegri stofnun en ég hafði gert mér grein fyrir. Annars eru sögulegar heimildir um skólann fátæklegar, ef til vill að einhverju leyti vegna þess að fólki hefur ekki þótt hann merkilegur. Kannski er það óbeinn mælikvarði á stöðu kvenna á þessum tíma,« segir Bjarni.

 

Þrátt fyrri þennan útúrdúr hefur Bjarni enn mikinn áhuga á heyskap. Hann er nú að draga saman gögn í yfirlit um breytingar á heyskap á 20. öld og vonast til að geta miðlað því efni á næstu árum.

 

Morgunblaðið 12. nóvember 2016.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31