A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
01.10.2016 - 21:01 | Blaðið - Vestfirðir,Vestfirska forlagið,Leifur Reynisson

Þegar hirðusemi var dyggð

« 1 af 3 »

Nokkuð utarlega við norðanverðan Dýrafjörð stendur gamalt eyðibýli á fornri bújörð sem nefnist Arnarnes. Þar var löngum tvíbýlt og stundum þríbýlt þó ekki væri jörðin stór enda sóttu Arnarnesbændur sjóinn stíft eins og lenska var meðal Vestfirðinga. Ekki er laust við að eyðibýlið veki sterk hughrif og stórbrotið landslagið gerir upplifunina enn magnaðri. Í gegnum aldirnar gengu menn til verka og áttu saman gleðiog sorgarstundir en nú ber allt merki fallvaltleikans. Steinsteypt íbúðarhúsið er hrörlegt orðið og útihúsin ekki annað en tóftir. Úti fyrir breiðir hafið úr sér við fjarðarminnið en fjallið Óþoli gnæfir yfir öllu eins og sá sem valdið hefur. Fátt rýfur kyrrðina nema náttúran sjálf sem ræður hér ríkjum.

Ég var hér fyrst á ferð sumarið 1975 ásamt afa mínum, Sveini Mósessyni, og sonum hans tveimur – Kristni og Reyni. Sveinn fæddist á Arnarnesi árið 1907 en þar hafði ætt hans búið mann fram af manni. Þar sem bærinn var kominn í eyði þótti okkur furðulegt að sjá reyk liðast upp skorsteininn og var sem við hefðum færst aftur í tímann. Í ljós kom að síðasti ábúandinn, Guðný Gilsdóttir, var heima þó hún hefði brugðið búi átta árum fyrr. Guðný var frænka Sveins, fædd og uppalin á Arnarnesi. Ung flutti hún suður en snéri aftur til baka árið 1959 en þá hafði Arnarnes verið mannlaust í 10 ár. Guðný var kjarnakona sem gat ekki hugsað sér að ættjörðin færi í eyði og er óhætt að segja að hún hafi með sínum hætti tengt saman nútíð og fortíð. Hún lét leggja veg og síma að bænum, tún voru sléttuð og á dráttarvél lærði hún þó roskin væri. Flest var þó með fornum brag á bænum og áttum við eftir að komast betur að því þegar við tókum frúna tali.

Fagnaðarfundir urðu með þeim Guð- nýju og Sveini sem tóku þegar að ræða liðna tíð. Var okkur boðið upp á loft þar sem vísað var til sætis á stórar kistur og minnti það á forna tíð þegar stólar voru fátíðir á heimilum manna. Á bænum var margt að sjá sem minnti á tímana tvenna svo sem gamall plötuspilari, þar sem hljómlistin barst út um lúður, og á sama borði var trog sem færði mann en lengra aftur í tímann. Guðný hafði gömul gildi í hávegum og nytjahyggjan var henni í blóð borin. Eftir að við höfðum þegið af henni grasate bað hún okkur um að bjarga rekatré undan sjó en við vorum á Bronco jeppa og var spil framan á honum með sterkum vír. Tréð lá í fjöru undan nokkuð háum bökkum nálægt stað sem nefnist Spillirinn. Var það myndarbjálki, góðar tvær mannlengdir að stærð. Vírnum var brugðið um rekatréð og fór spilið létt með að draga viðinn upp að bakkanum en Guðný fylgdist ánægð með aðförunum og var greinilegt að henni þótti dagsverkið gott.

Rekaviður var talinn til mikilvægra hlunninda fyrr á tímum þegar timbur var dýrt. Hann þótti enda góður smíðaviður en á ferð sinni um hafið gegnsýrist hann af salti sem veitir góða vörn gegn fúa. Rekatré taldist því mikill happafengur á æskuárum Guðnýjar sem ólst upp við hirðusemi eins og flestir landsmenn. Þegar Sveinn var aftur á ferð um æskustöðvar sínar nokkrum árum síðar var tréð á sömu slóðum og má ætla að þar sé það enn.

Leifur Reynisson

sagnfræðingur

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31