A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
08.08.2016 - 08:05 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Tengdasonur Dýrafjarðar: - Smellti mynd af áhöfn aflaskipsins

Myndin fræga Áhöfnin á Víði II í Garði á forsíðu Fálkans 24. október 1958.
Myndin fræga Áhöfnin á Víði II í Garði á forsíðu Fálkans 24. október 1958.
« 1 af 4 »

• Unnar Stefánsson, tengdasonur Dýrafjarðar, var ungur blaðamaður á Alþýðublaðinu þegar hann myndaði áhöfn aflaskipsins Víðis II á Seyðisfirði haustið 1958 • Þetta er ein frægasta myndin af Eggert Gíslasyni og áhöfn hans

 

Fyrir skömmu var í Morgunblaðinu samantekt um feril hins nafntogaða aflaskipstjóra Eggerts Gíslasonar en Eggert er nýlátinn.

Er skemmst frá því að segja að viðbrögðin við greininni voru geysimikil. Var augljóst að hún hafði vakið upp ljúfar minningar hjá mörgum um hinn magnaða tíma sem síldarárin svokölluðu á síðustu öld voru.

Einn þeirra sem hafði samband var Unnar Stefánsson fyrrverandi ritstjóri. Unnar upplýsti að hann væri höfundur frægrar myndar sem birtist með greininni. Myndin var af Eggert og áhöfn hans á Víði II í Garði.

Unnar lýsir tilurð myndarinnar svo:

„Sumarið 1958 starfaði ég samhliða námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands sem blaðamaður hjá Alþýðublaðinu. Ég hafði það sumar tekið nokkur samtöl við fólk á förnum vegi og birt í blaðinu. Á skrifstofu Alþýðuflokksins, sem var á sömu hæð og Alþýðublaðið í Alþýðuhúsinu, hitti ég Eggert G. Þorsteinsson, alþingismann og formann Múrarafélags Reykjavíkur, sem var að leggja af stað í ferð um Norðausturlandið til að ræða við flokksbræður sína vegna kosninga til þings Alþýðusambands Íslands þetta haust (sem átti eftir að verða sögulegt). Svo talaðist til að ég fékk að „sitja í“ með Eggerti til að afla efnis í blaðið. Ég átti nýja myndavél, sem ég ávallt hafði með í för. Við fórum til Siglufjarðar og austur um til Seyðisfjarðar, þar sem Víðir II var að koma að með síldarafla. Ég fékk að koma um borð og áhöfnin stillti sér upp til myndatöku. Þetta var aflahæsta skipið og ekki hefur það spillt fyrir að með mér var Eggert G. Þorsteinsson nafni og náfrændi Eggerts Gíslasonar skipstjóra.

Svona er þetta í minningunni, en þetta sumar árið 1958 var ég 24 ára gamall og áhugasamur blaðamaður.“

En hvernig stóð á því að myndin birtist í Fálkanum? „Blaðamenn blaða og tímarita komu oft í síðdegiskaffi í Ingólfskaffi í Alþýðuhúsinu, enda var þar oft glatt á hjalla. Einhverju sinni kom ritstjóri Fálkans á ritstjórnina, sá myndina og spurði hvort hann mætti ekki fá hana til birtingar. Ég lét honum myndina í té og veitti honum leyfi til að nota hana en þetta var í lok síldarvertíðar.“

En hver voru tildrög þess að Unnar varð blaðamaður?

„Sumarið 1955 starfaði ég við nýbyggingu við Landspítalann. Ég var þar í sumarvinnu við smíðar, en samhliða námi í viðskiptafræði við Háskólann var ég á samningi sem trésmíðanemi hjá föður mínum, sem var byggingameistari í Hveragerði. Við smíðarnar unnu tveir smiðir frá Klakksvík í Færeyjum, sem fóru heim í leyfi á Ólafsvöku. Meðan þeir voru heima í Færeyjum, voru þar átök sem kölluð voru Klakksvíkurdeilan. Dag nokkurn þegar ég rölti heim á leið úr vinnunni, mætti ég gömlum kennara mínum, Sigvalda Hjálmarssyni, fréttastjóra Alþýðublaðsins. Ég sagði honum frá smiðunum frá Færeyjum og sagði við hann að nú gæti hann fengið gott fréttaefni ef hann fengi þá til að segja frá nýliðnum atburðum í Klakksvík. Sigvaldi taldi þetta gott efni en kvaðst ekki hafa neinn til að skrifa þetta. Hann bað mig að skrifa um þetta, kvað mig vel geta gert það. Og það varð úr að ég skrifaði samtalið á brúnan nestispoka. Síðan hreinskrifaði ég samtalið og lét Sigvalda það í té næsta dag og hann birti það undir fyrirsögninni „Klandur í Klakksvík“. Í framhaldi af þessu bað Sigvaldi mig að koma til starfa hjá blaðinu. Það varð úr að ég henti frá mér hamrinum og fór að skrifa.“

 

Tók sæti á Alþingi

Unnar Stefánsson fæddist í Neskaupstað 20. apríl 1934. Hann fluttist til Hveragerðis á öðru ári og ólst þar upp. Unnar var ötull í félagsstörfum og pólitísku starfi. Hann tók sæti á Alþingi sem varamaður (landskjörinn) fyrir Alþýðuflokkinn öðru hverju í tíu ár frá 1960. Unnar bauð sig fram fyrir flokkinn í Suðurlandskjördæmi.

Ævistarf Unnars var hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar sem hann var m.a ritstjóri Sveitarstjórnarmála. Telur Unnar að skrif hans í Alþýðublaðið, sérstaklega af landsbyggðinni, hafi átt sinn þátt í því að hann var valinn í starfið.

Eiginkona Unnars er Dýrfirðingurinn María Ólafsdóttir prófarkalesari og eiga þau þrjú uppkomin börn, Kristján Má fréttamann, Stefán Örn viðskiptafræðing og framkvæmdastjóra og Elínu Björk framhaldsskólakennara við Verkmenntaskólann á Akureyri, en sem er búsett á Dalvík. Barnabörnin eru tíu og eitt barnabarnabarn.

Morgunblaðið laugardagurinn 6. ágúst 2016.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31