A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
28.05.2015 - 08:14 | bb.is,BIB

Teigsskógarleið aftur í umhverfismat

Séð út með norðanverðum Þorskafirði.
Séð út með norðanverðum Þorskafirði.
« 1 af 2 »
Skipulagsstofnun hefur fallist á beiðni Vegagerðarinnar um að endurskoða umhverfismat vegna hins umdeilda vegar um Teigsskóg við Þorskafjörð í Reykhólahreppi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Skipulagsstofnunar í gærmorgun. Um er að ræða rúmlega 15 km kafla Vestfjarðavegar, sem áformaður er frá Þorskafirði og vestur fyrir Gufufjörð og fer meðal annars um Teigsskóg. Vegagerðin óskaði í vetur eftir því við Skipulagsstofnun að heimilað yrði að endurskoða umhverfismat vegarins, en forsaga málsins er sú, að árið 2006 var í úrskurði Skipulagsstofnunar lagst gegn leið B vegna umhverfisáhrifa. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra og síðar skotið til dómstóla. Árið 2009 staðfesti Hæstiréttur að óheimilt væri að leggja veginn samkvæmt leið B vegna umhverfisáhrifa. 

Þegar mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar fór fram lauk matsferlinu með úrskurði, sem var bindandi fyrir leyfisveitingar til framkvæmda. Síðan hafa verið gerðar þær breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum, að matsferlinu lýkur með áliti Skipulagsstofnunar, sem leyfisveitendur skulu kynna sér og taka rökstudda afstöðu til við útgáfu leyfa. 

Ný veglína 

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að það kunni að þurfa að endurskoða matsskýrslur ef 10 ár líða frá því umhverfismat fór fram, án þess að komi til leyfisveitinga og framkvæmda. Þar sem ekki eru liðin tilskilin 10 ár í tilfelli Vestfjarðavegar byggir Vegagerðin beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga. 

Í endurupptökubeiðni Vegagerðarinnar er lögð fram tillaga að breyttri veglínu, sem kölluð er leið Þ-H. Í henni felst tilfærsla á veglínu frá leið B að hluta, auk þess sem brúarop eru breikkuð á brúm yfir Djúpafjörð og Gufufjörð og fallið er frá efnistöku í Teigsskógi. Skipulagsstofnun kynnti endurupptökubeiðni Vegagerðarinnar með auglýsingu og óskaði umsagna viðkomandi sveitarfélags og opinberra stofnana og bárust stofnuninni 17 umsagnir og athugasemdir. 

Engin efnistaka í Teigsskógi 

Greining Skipulagsstofnunar á framlögðum gögnum sýnir að leið Þ-H er í aðalatriðum sambærileg veglína og leið B sem lögð var fram til umhverfismats í fyrra matsferli. Mesta einstaka frávik á legu vegarins er á um 2,6 km kafla í Þorskafirði, þar sem fylgt er leið sem lögð var fram til samanburðar í fyrra matsferli. Þegar allt er talið felur leið Þ-H í sér breytta veglínu frá leið B sem nemur allt að rúmlega þriðjungi alls vegarins og rúmlega helmingi þess kafla sem liggur um Teigsskóg. Hvað varðar efnistöku hafa framkvæmdaáformin tekið verulegum breytingum. Horfið hefur verið frá efnistöku í Teigsskógi með tilheyrandi vegslóðum og einnig hefur verið dregið úr efnistöku á Grónesi. 

Framangreindar breytingar á veglínu og efnistöku hafa í för með sér að skerðing á Teigsskógi verður talsvert minni en samkvæmt fyrri áformum. Þannig er gert ráð fyrir að leið Þ-H skerði skógarsvæði um 16 ha í stað 26 ha vegna vegar samkvæmt leið B og 17 ha vegna efnistöku fyrir leið B. Einnig mun leið Þ-H liggja utan skógarins á um 2,6 km kafla, en leið B lá eftir skóginum endilöngum. Jafnframt er nú fyrirhugað að græða upp um 9 ha raskaðs skógar meðfram veginum með kjarri. 

Allt aðrar forsendur 

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar, að þær breytingar sem gerðar hafa verið á legu vegarins út úr Teigsskógi að hluta, auk breyttra hönnunarforsendna og hönnunar á þverunum yfir Djúpafjörð og Gufufjörð og breytingar á fyrirkomulagi efnistöku, feli í sér verulegar breytingar á forsendum umhverfismats, sem gefi tilefni til endurskoðunar þess, þar sem umræddar breytingar séu líklegar til að hafa áhrif á umhverfismat framkvæmdarinnar hvað varðar áhrif á skóglendi, landslag og leirur og fjörur. 

Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar, að fallist er á beiðni Vegagerðarinnar um endurupptöku á þeim hluta úrskurðar stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar um Reykhólahrepp sem varðar leið B í 2. áfanga. Ákvörðun Skipulagsstofnunar er kæranleg til umhverfis- og auðlindaráðherra.
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31