A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
26.07.2016 - 07:30 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Tærleiki einkennir tónlistina

Sumartónleikar. - Jónas Tómasson ásamt flytjendunum, f.v.: Þórunn Arna, Sólveig Anna, Herdís Anna, Anna Áslaug, Tinna, Leon og Hlíf.
Sumartónleikar. - Jónas Tómasson ásamt flytjendunum, f.v.: Þórunn Arna, Sólveig Anna, Herdís Anna, Anna Áslaug, Tinna, Leon og Hlíf.

• Fjölbreytt tónlistardagskrá með verkum Jónasar Tómassonar tónskálds


Sumarkvöld með Jónasi Tómassyni nefnist tónleikadagskrá sem haldin verður á Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi í Reykjavík í kvöld, þriðjudaginn 26. júlí 2016, og hefst kl. 20.30.

Tónleikarnir eru haldnir af tilefni sjötugsafmælis tónskáldsins og flutt verða einleiks-, einsöngs- og dúóverk frá ýmsum tímum á ferli hans.

Jónas stundaði framhaldsnám í tónlist í Amsterdam á sínum tíma en hefur nú búið á Ísafirði í yfir fjörutíu ár. Þar hefur hann verið kennari, flautuleikari og kórstjóri og séð um tónleikahald fyrir Tónlistarfélag Ísafjarðar.

Meðfram þessu hefur hann verið afkastamikið tónskáld og samið fjölmörg verk af ólíkum toga. Eftir hann liggja hljómsveitarverk, konsertar, kórverk og kammerverk auk fjölda einleiks- og einsöngsverka fyrir ýmis hljóðfæri. Verk Jónasar hafa verið flutt af mörgu af fremsta tónlistarfólki hér á landi og sum þeirra hafa komið út á geisladiskum.

 

Lifandi og fjölbreytt

Skipuleggjendur og flytjendur á tónleikunum eru allir tengdir Jónasi fjölskyldu- og vinaböndum.

„Við tókum okkur nokkur til og settum saman þessa dagskrá. Við erum vinir og fjölskylda Jónasar, sem hafa spilað verk eftir hann og tengjumst flest Ísafirði sem er mikill tónlistarbær,“ segir Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari sem býr og starfar í München.

„Dagskráin verður mjög lifandi og fjölbreytt,“ útskýrir Anna Áslaug. „Flutt verða m.a. ljóð fyrir söngrödd og píanó. Herdís Anna Jónasdóttir, dóttir tónskáldsins, sem er óperusöngkona í Saarbrücken í Þýskalandi, mun flytja þau. Hún syngur líka dúett með æskuvinkonu sinni frá Ísafirði, Þórunni Örnu Kristjánsdóttur sem er leikkona í Reykjavík og syngur núna í Mamma mía. Þær syngja mjög skemmtilega dúetta í léttum nútímastíl sem Jónas samdi sérstaklega fyrir þær.“

Tveir aðrir píanóleikarar koma einnig fram á tónleikunum, en það eru Tinna Þorsteinsdóttir sem hefur víðtæka reynslu á sviði nýrrar tónlistar og Sólveig Anna Jónsdóttir sem hefur leikið víða sem meðleikari einsöngvara og kóra. Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari kemur einnig fram og Hollendingurinn Leon van Mil baritónsaxófónleikari sem spilar mest djass.

„Leon er staddur hér á landi og ætlar að spila verk sem Jónas samdi fyrir hann og konuna hans sem er píanóleikari, en Leon er mágur Jónasar,“ segir Anna Áslaug.

- En hvað ætlar þú að leika?

„Við Hlíf leikum saman verk fyrir píanó og fiðlu, svo leik ég eitt með Leon og annað með Herdísi Önnu. Ég spila líka sónötu, einsleiksverk fyrir píanó, sem er elsta verkið sem flutt verður á tónleikunum en það er samið 1973.“

Anna Áslaug segir verkin á tónleikunum spanna allan feril Jónasar og flest vera í klassískum nútímastíl.

 

Fallegt og frumlegt

- Er þetta frumleg tónlist?

„Jónas hefur mjög sérstakan stíl, hann hefur hreinan og mínímalískan stíl, en samt er alltaf mikil hreyfing í tónlistinni. Já, ég myndi segja að hann væri með frumlegri tónskáldum hér á landi. Það sem einkennir hans stíl er að verkin hans eru mjög vel samin og mikill tærleiki í allri hans tónlist. Ég hef spilað ýmislegt eftir hann í gegnum árin og tónlistin hans vinnur mjög mikið á. Stundum eru ekki mjög margar nótur, en allt er mjög fallega og frumlega sett fram,“ segir Anna Áslaug að lokum og vill benda á að tónleikarnir verða haldnir aftur á Ísafirði n.k. fimmtudag 28. júlí 206 í Hömrum á Ísafirðikl. 20.


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30