A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
01.12.2008 - 01:42 | Tilkynning

Sýnishorn úr bókinni Bær við árnið kenndur

Ágúst að segja bræðrasonum sínum eitthvað skemmtilegt. Sitjandi t.v. er Ágúst Einarsson, aftan við hann Einar Alexandersson og síðan Óskar Jóhannesson og Bjarni Alexandersson.
Ágúst að segja bræðrasonum sínum eitthvað skemmtilegt. Sitjandi t.v. er Ágúst Einarsson, aftan við hann Einar Alexandersson og síðan Óskar Jóhannesson og Bjarni Alexandersson.
« 1 af 2 »
Einar Ágúst Einarsson var yngstur sona Einars Bæringssonar á Dynjanda, fæddur þann 2. ágúst 1903, lést á Ísafirði 9. September 1990. Kona hans var Þórunn Magnúsdóttir, ættuð úr Aðalvík, fædd þann 28. ágúst 1904 en lést á Ísafirði 15. janúar 1973. Þó hann teljist ekki til ábúenda á Dynjanda, þá tengist frásögn hans lífi, starfi og atburðum þar og tíðarandanum er var við lýði um 1930 þegar faðir hans lést. Ágúst var duglegur maður, var á og við sjóinn alla sína starfsævi. Hann byrjaði snemma að róa á áraskipi föður síns, Sigurvon, og var orðinn formaður á henni er slysið varð sem hann segir frá í frásögninni, 14. maí 1927, þá 24 ára gamall. Hann var einnig nokkuð á vertíðarbátum og togurum en þó mest á eigin báti sem hann eignaðist nýjan ungur að árum. Það má segja að ævistarf hans hafi verið samofið tilveru þessa báts, sem honum þótti mjög vænt um og hélt vel við. Hann er nú í góðu standi á byggðasafninu á Ísafirði. Bátinn lét hann heita Jóhönnu eftir föðurömmu sinni og hafði trú á því, að hún væri jafnan með sér á sjónum (konan með bláa klútinn).

Ágúst flutti frá Dynjanda 1932 að Sæbóli í Aðalvík og gerði þaðan út þar til að víkurnar fóru í eyði, þá færði hann sig til Hesteyrar og stundaði sjóinn þaðan til 1947, að hann flutti til Ísafjarðar. Þá var Sléttuhreppur allur að fara í auðn. Ágúst hafði síldarmatsréttindi og var nokkur sumur planstjóri og matsmaður hjá Skapta á Nöf á Siglufirði. Einnig var hann með síldarsöltun eitt sumar um borð í togaranum Ísborgu frá Ísafirði. Hann var frændrækinn mjög og alls staðar aufúsugestur í stórfjölskyldunni, á góðri stundu léttur og kómískur og sagði vel frá. Fréttamenn tóku viðtöl við hann. Jökull Jakobsson rithöfundur tók við hann viðtal fyrir Ríkisútvarpið og Vestfirska fréttablaðið á Ísafirði á sjómannadaginn 1984. Það viðtal birtist hér. Það var stinningskaldi af norðaustan og brimið barði fjöruna fyrir neðan húsið hans Gústa. Þó var sumarið opinberlega gengið í garð. Jóhanna, trillan hans Gústa, kastaði mæðinni á kambinum við hlið á húsi eigenda síns. Hún er hvít og blá orðin 54 ára gömul þó svo að hún beri aldurinn ekki utan á sér. Þó hefur hún áreiðanlegavelt sér á krappari báru en þeirri sem lamdi fjöruna þennan dag.

Gústi kom til dyra, bauð þessum stráklingi til stofu og ýjaði að því að nú væri hann að fara fýluferð, kvaðst vera orðinn svoddan gamalmenni. Strákur skellti skollaeyrum við, kvaðst hafa heyrt hans að góðu getið. Þeir tylltu sér í einu horni stofunnar og þegar skimað var um hana blöstu við myndir af Vigdísi forseta og sama máli virtist gegna um aðrar vistarverur hússins, alls staðar voru myndir af Vigdísi. Á sjónvarpinu var mynd sem sýndi Gústa leiða forsetann upp bryggjuna. Strákur spurði fyrst hvort hann væri þá Vigdísarmaður? Já, ég studdi hana til forsetakjörs. Ansans ósköp almennileg kona og blátt áfram bara. - Þið hittust í fyrra, hvernig bar það að? Það var þannig að ég hafði verið að segja manni að sunnan dálitla ævisögu af trillunni minni. Þar með af hverju listinn og kapparnir á henni væru málaðir bláir. Þannig var að hún amma mín fylgdi mér alltaf á Jóhönnu og bjargaði mér einu sinni. Þessi amma mín gekk alltaf með bláan klút á höfðinu. Þetta hafði ég sagt þessum manni, sem var rithöfundur, og hann hafði sagt Vigdísi að þessi Ágúst Einarsson ætti trillu sem honum þætti vænt um. Svo segir hún að sig langi að sjá hana Jóhönnu með bláa klútinn. Þegar hún svo kom hér í fyrra var hún búin að segja bæjarstjóranum að sig langaði að taka í hendina á honum Ágústi Einarssyni og skipshöfninni af Guðbjarti, ef þeir væru við. Hann hringir bara í mig og spyr hvernig ég þekki hana. Ég sagði að ég bara vissi hver hún væri, ég hefði staðið með henni og væri henni dyggur þjónn. Svo þegar hún kemur hingað, þá er svolítið hlé hjá henni áður en hún á að mæta á Austurvelli. Þá segir hún við bæjarstjórann hvort það væri ekki möguleiki að fá að hitta hann Ágúst niður við trilluna. Hann hringir hérna í mig og spyr hvort ég sé tilkominn. Já, ég segist nú vera að klæða mig. Það var ekkert með það, hann sendi lögreglubíl eftir mér. Daginn eftir mætir hún á Hlíf. Mér dettur þá í hug að fara inn eftir og mæta henni þar. Svo þegar hún er að fara og gengur fram og ég er inni í miðri þvögunni, þá kemur hún bara inn í hana miðja og segist bara verða að fá að kyssa mig. Ég sé velkominn að Bessastöðum hvenær sem ég komi suður. Ósköp almennileg að tala við hana.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31