A A A
  • 1931 - Valgerður Kristjánsdóttir
  • 1956 - Auðbjörg Halla Knútsdóttir
  • 1984 - Hrafnhildur Ýr Rafnsdóttir
  • 1988 - Emil Ólafur Ragnarsson
02.06.2015 - 07:05 | Kristinn Jóhann Níelsson,BIB

Sýning og málþing á Núpi laugardaginn 27. júní 2015

Sigtryggur Guðlaugsson.
Sigtryggur Guðlaugsson.
« 1 af 4 »

Ákveðið hefur verið að setja upp sýningu á Núpi í Dýrafirði í sumar, um  sálmaskáldið, þjóðlagasafnarann og tónlistarfræðinginn sr. Sigtrygg Guðlaugsson. Í tengslum við sýninguna verður haldið málþing, þar sem dr. Bjarki Sveinbjörnsson tónlistarfræðingur, Una Margrét Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður á Rás 1, Aðalsteinn Eiríksson formaður Hollvinafélags Núpsskóla, Þröstur Sigtryggsson sonur sr. Sigtryggs, og fleiri munu halda erindi. 

 

Sýningarefni er að miklu leyti úr bóka- og handritasafni Sigtryggs, en einnig verða til sýnis ýmis hljóðfæri og heimildir úr hljóðritunum, myndasafni, bréfum og ævisögum. Lokaverkefni og niðurstöður undirritaðs koma þar líka við sögu, auk málþings, sýningarheftis og hljóðritunar á sálmum. Þáttur Sigtryggs í þjóðlagasöfnun hefur mikið vægi.   

 

Drjúga skráningarvinnu þarf að inna af hendi áður en hægt er að setja upp sýninguna á Núpi og því afar mikilvægt og þakkarvert að fá allan þann stuðning sem mögulegur er til að sýningin og málþingið geti orðið að veruleika. Það hefur lengi verið draumur undirritaðs að geta nýtt menntun og reynslu í framlag til menningaruppbyggingar í heimabyggð. Verkefnið er fræðilega vel undirbúið og í það hefur farið mikill tími. Allar forsendur eru fyrir jákvæðu og varanlegu framtaki sem mun stuðla að styrkingu menningarlífs og ferðaþjónustu á Vestfjörðum um ókomna tíð.

 

Verkefnið hefur hlotið styrk frá Menningarráði Vestfjarða 2014.

 

Meðal samstarfsaðila má nefna Safnahúsið á Ísafirði, Þröst Sigtryggsson, Tónlistarsafn Íslands, Hollvinafélag Núpsskóla, Stofnun Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands og Gistiheimilið á Núpi.  

  

Hér að neðan er kynningartexti úr lokaverkefni undirritaðs í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands 2014:

 

Sr. Sigtryggur Guðlaugsson, prestur, kennari og sálmaskáld á Núpi í Dýrafirði, er umfjöllunarefni þessarar ritgerðar. Bók hans, 70 sönglög kirkjulegs efnis, er tekin til sérstakrar skoðunar og greiningar. Sálmar Sigtryggs eru bornir saman við sálma og sönglög í íslenskum sálmabókum og söngheftum. Jafnframt er leitast við að setja skoðanir og verk sr. Sigtryggs í sögulegt og hugmyndafræðilegt samhengi, og kynna hugmynd að menningartengdri ferðaþjónustu í tengslum við líf og starf Sigtryggs. Í öllu þessu leikur bróðir hans, Kristinn Guðlaugsson, stórt hlutverk. Áhugi þeirra bræðra á tónlist, skáldskap, mannrækt og fegurð, er sameiginlegur og líf þeirra að miklu leyti samtvinnað.

         Þeir unnu sveitinni, þjóðlegum arfi, landinu og ræktun, auk þess að vera ötulir talsmenn reglusemi og bindindis. Trúin á heimahagana og skyldur við guð og landið.  Að norðan komu þeir úr umhverfi mikils framfara- og fróðleikshugar. Allt sem viðkom menntun og mannrækt í víðum skilningi, var þar efst á baugi hjá mörgum. Þess sér t.d. stað í bréfasöfnum þeirra Sigtryggs og Kristins. Bréfin opna dyr að hugarheimi og aðstæðum. Fegurðarþráin er skoðuð og hvernig hún lýsir sér í bréfum og skrifum, með aðaláherslu á tónlist.    

         Gerð er nokkur grein fyrir þjóðlagasöfnun og framlagi Sigtryggs í safni sr. Bjarna Þorsteinssonar, Íslensk þjóðlög.  

         Sigtryggur kaus ljóðræna eiginleika framyfir aðra og hvatti til nýsköpunar og endurnýjunar í sálmaflóru þjóðarinnar undir yfirskriftinni: Syngið drottni nýjan söng.    

         Hann skrifaði merkilega grein sem ber heitið Hugleiðingar um forníslenskan kirkjusöng. Í greininni koma fram skoðanir hans og þekking sem tónlistarfræðings og þjóðlagasafnara. Hann hvatti til þess að íslensku þjóðlegu sálmaarfleiðinni yrði meiri gaumur gefinn og að úr þeirri arfleið mætti verða efni í íslenska list.  

         Framlagi Sigtryggs sem brautryðjanda og frumkvöðuls í skóla- , félags- og ræktunarmálum, er ekki gert skil hér, enda hafa aðrir ítarlega fjallað um þann þátt. Ber þar hæst stofnun unglingaskóla á Núpi, en Sigtryggur var skólastjóri hans frá stofnun árið 1907 til 1929, og garðurinn Skrúður sem var stofnaður árið 1909.

 

 

Með kveðju,

Kristinn Jóhann Níelsson

kristinnjnielsson@simnet.is

4567846

8490115

« Júní »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30