A A A
24.10.2016 - 07:19 | Vestfirska forlagi­,Morgunbla­i­

Svo kom allt Ý einu ljˇs

Bjartsřn - ä╔g var eiginlega allan tÝmann sannfŠr­ um a­ mÚr yr­i bjarga­,ô segir Sˇley EirÝksdˇttir.
Bjartsřn - ä╔g var eiginlega allan tÝmann sannfŠr­ um a­ mÚr yr­i bjarga­,ô segir Sˇley EirÝksdˇttir.
« 1 af 4 »

• Nóttin sem öllu breytti heitir bók sem Sóley Eiríksdóttir sagnfræðingur hefur skrifað og er að koma út
• Meðhöfundur að bókinni er Helga Guðrún Johnson blaðamaður
• Bók þessi fjallar um snjóflóðið á Flateyri, sem féll á byggðina þar 26. október 1995 og varð tuttugu manns að bana


„Ég var grafin þarna lifandi upp úr snjónum,“ segir Sóley Eiríksdóttir þegar hún er spurð um tengsl sín við þennan hræðilega atburð.

„Ég var ellefu ára gömul og var í öðru herbergi en Svana systir mín sem var nítján ára og lést í snjóflóðinu ásamt vini sínum Halldóri Svavari Ólafssyni, sem gisti hjá okkur þar sem hann var veðurtepptur á Flateyri. Svana var búsett í Kópavogi en var hjá mér þar sem foreldrar okkar voru fjarverandi og Óli bróðir okkar var einnig fluttur að heiman.

Ég hélt alltaf að Halldór vinur Svönu væri kærastinn hennar en meðan ég var að skrifa þessa bók um snjóflóðið og afleiðingar þess þá komst ég að því að þau hefðu verið saman en voru bara vinir þegar þarna var komið sögu. Ég hafði bara gert ráð fyrir því í mínum barnshuga að þau væru enn kærustupar þegar þau dóu, það var enginn sem sagði mér það – ég hélt það bara en svo var sem sagt ekki.

Ég var sofandi þegar flóðið féll klukkan fjögur að nóttu 26. október fyrir rétt tuttugu og einu ári. Ég svaf ein í herbergi en ég bjargaðist af því að ég skorðaðist undir steinvegg og var þar í níu tíma. Ég lýsi þeirri vist í bókinni.“

 

Sannfærð um að sér yrði bjargað

„Síðan þessir atburðir urðu hef ég lengi velt fyrir mér öllu því sem gerðist meðan ég var inni í húsinu okkar að Unnarstíg 2, sem grófst alveg undir flóðinu. Bókin snýst mikið um það sem gerðist ofanjarðar meðan ég beið.“

Hélstu að þér yrði bjargað?

„Já, ég var eiginlega allan tímann sannfærð um að mér yrði bjargað. Ég lá á maganum föst og gat ekki hreyft mig en hafði andrými. Ég gat ekki látið vita af mér. Annar handleggurinn lá fyrir ofan höfuð mitt og ég reyndi að krafsa með honum og raunar hinni hendinni líka en það heyrði enginn. Eftir nokkra klukkutíma hætti höndin sem lá fyrir ofan höfuðið að virka, dofnaði upp svo ég fann ekkert fyrir henni. Hinni hendinni lá ég ofan á.“

Heyrðir þú í fólkinu ofanjarðar?

„Já, ég heyrði nokkrum sinnum í einhverjum en ég heyrði ekki þegar menn voru að grafa sig niður að mér. Svo kom allt í einu ljós. Eftir að mér hafði verið bjargað úr snjóflóðinu var ég seinna um daginn flutt á Sjúkrahúsið á Ísafirði í umsjá Þorsteins Jóhannessonar læknis og annars starfsfólks. Ég var veikburða og þurfti stuðning ef ég hreyfði mig um en um kvöldið fór ég að fá mátt. Ég hafði ekki meitt mig, aðeins fengið smá skrámur. Foreldrar mínir voru í Reykjavík, þau höfðu verið veðurteppt helgina áður á Akureyri en biðu svo veðrið af sér í Reykjavík hjá ömmu og afa. Ég var send suður með fyrsta flugi daginn eftir.“

Hvernig var ástandið hjá ykkur eftir þessar hörmungar?

„Sagan sem ég er að segja í bókinni minni snýst um hvernig öllum leið, ekki bara mínu fólki heldur einnig öðrum sem snjóflóðið svipti ástvinum og heimilum. Sorgin var mikil. Mér hefur alltaf þótt merkilegt að hafa lent í þessu og það hefur lengi verið löngun mín að segja fólki hvernig það er að lenda í snjóflóði – hvernig fólki raunverulega líður. Oft hefur verið talað um hve allir hafi sýnt mikinn styrk og gengið rösklega til verka. Þetta er auðvitað satt en þar með er ekki öll sagan sögð – annað mál er hin innri líðan þeirra sem í snjóflóðinu lentu og afleiðingar þess fyrir byggðarlagið.“

Var mikið talað um þessa atburði næstu árin?

„Já, það var mikið um þetta talað. Flateyri er lítið samfélag og allir þekktu alla. En við fórum aldrei til baka. Húsið okkar gjöreyðilagðist og það var ekkert fyrir okkur að sækja vestur. Ég segi alltaf: „Við fluttum ekki – við fórum aldrei til baka.“

 

Varð að koma þessari sögu frá mér

Var systir þín jörðuð á Flateyri?

„Nei, það var enginn jarðaður á Flateyri, kirkjugarðurinn fór undir snjóflóðið. Ein jarðarför var í Holti þarna rétt hjá og önnur á Ísafirði en hinir voru jarðaðir á höfuðborgarsvæðinu eða þar í grennd. Systir mín hvílir í grafreit í Gufuneskirkjugarði ásamt fleira fólki sem fórst í snjóflóðinu.“

Hvernig kom fjölskylda þín út úr þessum atburðum?

„Foreldrar mínir eru mínar fyrirmyndir. Þau eru ótrúlega sterk miðað við það sem þau hafa gengið í gegnum. Það er ekki á þeim að sjá hvað þau hafa misst. Þau eru bæði lífsglöð og jákvæð. Sorg þeirra var eigi að síður mikil vegna dótturmissisins og alls þess sem á eftir fylgdi – en þau völdu lífið.“

Hvað varð til þess að þú fórst að skrifa þessa sögu? „Langvarandi þörf sem ég fann innra með mér til þess að miðla þessari reynslu. Ég hef alltaf verið ófeimin við að segja þessa sögu og smám saman fór ég að finna knýjandi þörf til að koma henni á framfæri í bók. Síðustu árin jókst ókyrrðin innra með mér vegna þessa, ég fann að ég beinlínis varð að koma þessu frá mér. Eftir stúdentspróf lærði ég sagnfræði við Háskóla Íslands og kannski var það val ómeðvitað sprottið af þessari þörf – undirbúningur að því að skrifa þessa bók. Síðan ég var krakki hef ég alltaf vitað undir niðri að ég myndi einhvern tíma skrifa bók um þessa lífsreynslu og það sem henni fylgdi.“

 

Skrifaði fyrst BA-ritgerð um snjóflóðið

Hvenær byrjaðir þú að skrifa bókina? „Ég byrjaði fyrir alvöru rétt fyrir jól árið 2014. Ég var þá enn í fæðingarorlofi og vissi að ég myndi bráðlega fara að vinna og ákvað að fara að drífa í skriftunum. Þetta væri ábyggilega rétti tíminn. Ég komst nokkuð áleiðis en svo þurfti ég að fara til vinnu. Ég starfaði á leikskóla þá. En þegar ég var byrjuð að vinna fann ég skýrt og greinilega að þetta var ekki málið – ég ætti heldur að halda áfram að skrifa þessa bók.

Fyrsta tilraun mín til þess að skrifa um snjóflóðið á Flateyri var raunar BA-ritgerðin mín. Hún fjallaði um snjóflóðið, þetta var stutt ritgerð, ég tók þrjú viðtöl við einstaklinga sem tengdust snjóflóðinu. Eftir þau skrif var ég andlega þreytt. En svo leið tíminn og nokkrum árum seinna fór þetta efni að ásækja mig aftur af síauknum krafti. Ég vildi gera þetta en aðstæðurnar voru erfiðar þar sem við hjónin eigum þrjár ungar dætur. Loks sagði maðurinn minn, Stefán Reynisson, við mig: „Þú skalt fara að skrifa. Ég skal sjá um að vinna fyrir heimilinu á meðan.“ Hann fann hve þetta verkefni hvíldi þungt á mér. Foreldrar mínir, Ragna Óladóttir og Eiríkur Guðmundsson, hafa líka stutt mig, mamma hvatti mig raunar til að skrifa BA-ritgerðina um snjóflóðið, mér leist ekki á það í fyrstu en leiðbeinandinn minn hvatti mig líka svo ég réðst í þetta.“

Var sagnfræðin gott tæki til þess að beita við skriftirnar?

„Hlutleysiskrafan sem fylgir sagnfræðinni var mér nokkuð erfið við ritun BA-ritgerðarinnar vegna lífsreynslu minnar. En þegar út í bókarskrifin var komið var þetta bara mín saga. Þetta er alls ekki fræðileg bók en ég nota auðvitað mjög mikið heimildir og tók mörg viðtöl sem ég notaði við skriftirnar.

Þegar nálgaðist endasprettinn í ritun þessarar bókar fékk Forlagið, sem gefur bókina út, mér til aðstoðar Helgu Guðrúnu Johnson blaðamann. Hún hjálpaði mér að tengja saman kafla, yfirfara skrifin og gera flæði efnis betra. Hún fór með mér til Flateyrar í vettvangsskoðun í febrúar síðastliðnum og grúskaði með mér í myndum og ýmsum öðrum gögnum undir lokin. Þetta samstarf gekk vel og var ánægjulegt.“

 

Heimildasaga í bland við ævisögu

Hvernig vannstu viðtölin?

„Ég skrifaði viðtöl og upplýsingar sem ég fékk hjá einstaklingum og sendi þeim svo þau kaflabrot sem að þeim sneru til yfirlesturs. Fólk tók afskaplega vel í þetta verkefni. Ég talaði ekki aðeins við þá sem lentu í snjóflóðinu eða misstu ástvini heldur líka þá sem tóku þátt í hjálparstarfinu. Þeir sem eru persónur í bókinni og eru nefndir með nöfnum fengu sem sagt að yfirfara þá kafla þar sem þeir komu við sögu. Þar kom sagnfræðin inn í. Almennt gerði þetta fólk aðeins smávægilegar breytingar. Bók mín; Nóttin sem öllu breytti, er því miklu víðtækari saga en bara saga mín. Hún kemur að öllu því sem gerðist meðan ég lá undir snjófarginu og eftir að ég fór suður til foreldra minna. Þetta er því heimildasaga í bland við ævisögu. Ég er sögumaðurinn og bind efnið þannig saman.

Helga Guðrún kom að þessu verkefni með mér í fyrrahaust. Þá var ég orðin þreytt og var fegin að fá aðstoð. Ég sendi henni handritið og hún fór yfir það og skrifaði inn í kaflabrot sem gerði flæðið betra og sendi mér það svo til baka. Einnig fórum við í fáein viðtöl saman og skoðuðum saman myndir og gögn. Þannig hjálpuðumst við að til að ljúka þessu verki. En eðli málsins samkvæmt er þetta auðvitað fyrst og fremst mín saga og mín bók.“

 

Skrifin ollu kvíða um tíma

Er mikið af myndum í bókinni?

„Já, það eru fjölmargar myndir í henni. Það var mikil vinna að finna myndir og hafa upp á ljósmyndurum sem tóku þær. En þeir voru sannarlega mjög liðlegir. Í þessari 250 síðna bók eru nokkrar myndir sem aldrei hafa verið birtar. Þær tók ljósmyndari á svæðinu. Einnig eru í henni blaðaljósmyndir og myndir úr einkasöfnum.“

Birtir þú einhver heil viðtöl í bókinni?

„Nei, ég nota þau innan um og saman við annan texta sem ég skrifaði sem sögumaður. Í formálanum er útskýrt hvernig ég gat verið sögumaður meðan ég var föst undir snjóflóðinu. Þar kom Helga Guðrún með ágæta lausn.“

Hvernig líður þér eftir að hafa komið þessu í verk?

„Ég finn fyrir miklum létti en vissulega var fæðing þessarar bókar langvinn og mér afar erfið – einkum andlega. Þetta var mjög krefjandi verkefni, ekki síst fannst mér erfitt að hringja í fólk sem lent hafði í þessum hörmungum og biðja það um viðtöl. Það er erfitt að rifja svona lagað upp. Á tímabili ollu skrifin mér kvíða, ég fór jafnvel að ímynda mér að ég væri að gera einhverjum óleik með þeim og kannski vildi fólkið ekki að ég væri að þessu. En það kom mér á óvart, þegar ég var komin mun lengra með verkefnið, hve rangt ég hafði þar fyrir mér. Þegar ég kom á Flateyri í vetur sem leið þá fann ég fyrir mikilli velvild. Fáir af þeim sem lentu í sjálfu snjóflóðinu eru búsettir þar vestra ennþá – en þeir sem ég hitti tóku mér með hlýhug – eins og dóttur sem væri að snúa heim.“


« Mars »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31