A A A
  • 1943 - Kristján Gunnarsson
23.03.2016 - 22:06 | Einar K. Guđfinnsson

Stórsókn framundan í vestfirskum vegamálum

Einar Kristinn Guđfinnsson.
Einar Kristinn Guđfinnsson.
Tillaga að nýrri samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi sl. föstudag ( 18. mars) gerir ráð fyrir miklum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum; sannkallaðri stórsókn í vestfirskum vegamálum. Hafist verður handa við öll þau stóru verkefni sem mjög hafa verið til umræðu á Vestfjörðum, svo sem vegagerð á Vestfjarðavegi 60 í Gufudalssveit ( oft kennd við Teigskóg), Dýrafjarðargöng ( sem sumir vinir mínir í Arnarfirði vilja raunar fremur kalla Arnarfjarðargöng!) og veg yfir Dynjandisheiði. Þessu viðbótar er gert ráð fyrir frekari vegagerð á Vestfjörðum sem nánar verður vikið að síðar. 

Sjá krækju

Vegagerð í Gufudalssveit 

Tökum fyrst veginn í Gufudalssveitinni, oft kennd við Teigsskóg. Staðan á málinu er sú, að í sátt við alla hlutaðeigandi, þingmenn Norðvesturkjördæmis, sveitarstjórnarmenn og yfirvöld samgöngumála, var óskað eftir endurupptöku á umhverfismati á þessari leið. Lögð er til grundvallar ný tillaga að vegstæði, sem hafa mun sáralítil sem engin umhverfisáhrif á þessu svæði. Ætla má að niðurstaða í því máli liggi fyrir um eða upp úr miðju þessu ári. Verði niðurstaðan jákvæð – sem manni finnst við blasa – þá er hægt að leggja af stað með útboð í kjölfarið. Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir 2,7 milljörðum til þessa verkefnis fram til ársins 2018. 

Dýrafjarðargöng - Dynjandisheiði 

Víkum þá að Dýrafjarðargöngum. Í tillögunni er gert ráð fyrir fjárveitingum upp á 5,1 milljarð fram til ársins 2018, á því tímabili sem hún nær til. 100 milljón króna fjárveiting á þessu ári ætti að duga til þess að bjóða verkið út síðla yfirstandandi árs. Áformað er að framkvæmdir hefjist eftir mitt næsta ár og að þeim ljúki árið 2020. Dýrafjarðargöngin hafa í för með sér styttingu á Vestfjarðavegi um 27 kílómetra. 

Samhliða framkvæmdum við Dýrafjarðargöng boðar samgönguáætlunin að framkvæmdir við Dynjandisheiði hefjist árið 2017. Um er að ræða 30 kílómetra nýjan uppbyggðan veg, með bundnu slitlagi vitaskuld, sem leysir af hólmi núgildandi veg. Ljóst er því að framkvæmdir á Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöngin verða unnin á sama tíma, enda forsendan fyrir því að hin nýju jarðgöng komi að fullu gagni sú að Dynjandisheiðin geti orðið greiðfær vetrarvegur. Vegagerðin vinnur nú að því að ljúka endanlegu staðarvali hins nýja vegar og má ætla að þær tillögur líta brátt dagsins ljós. 

Risaverkefni 

Allt eru þetta risaverkefni. Heildarfjárframlög á þessu ári og fram til ársins 2018, á gildistíma nýrrar vegáætlunar, verða um 8,7 milljarðar í ofangreind verkefni. Í samgönguáætlun til lengri tíma, sem væntanlega verður lögð fram síðar á þessu þingi, munum við síðan sjá fjárveitingar til þess að ljúka þessum stórvirkjum í vestfirskri vegagerð. Það má því öllum ljóst vera að framundan eru ekki einasta miklar framkvæmdir, heldur úrlausn á stærstu vegagerðarverkefnum okkar Vestfirðinga. 

Til viðbótar við þessi stórvirki er rétt að nefna önnur verkefni, brýn og mikilvæg, þó þau verði borin saman í umfangi við þær framkvæmdir sem hér hafa verið raktar. 

Fjölmörg önnur og brýn verkefni 

1. Djúpvegur, Hestfjörður–Seyðisfjörður. 
Fjárveitingin er ætluð til fyrstu lagfæringa á Djúpvegi yst í Hestfirði vestanverðum og Seyðisfirði en vegurinn á þessum kafla er bæði mjór og með blindhæðum. Stórir flutningabílar hafa átt erfitt með að mætast á sumum köflum vegarins. Fjárveitingar til þessa verkefnis árið 2018, 150 milljónir króna. 

2. Djúpvegur um Súðavíkurhlíð. 
Lagt er til að unnið verði að snjóflóðavörnum á Súðavíkurhlíð á árinu 2016 og 2017. Rekin verða niður stálþil sem mynda skápa þar sem snjóflóðin verða fönguð og er fjárveiting áætluð alls 250 milljónir króna í ár og á næsta ári. 

3. Innstrandavegur, Heydalsá–Þorpar. 
Lagt er til að framkvæmdir við lagfæringu og lagningu bundins slitlags á Innstrandavegi hefist árið 2018 og er fjárveiting á því ári 50 milljónir króna. 

4.Strandavegur um Bjarnarfjarðarháls. 
Fjárveiting á Strandavegi er til endurgerðar vegarins um Bjarnarfjarðarháls á árunum 2015, 2016 og 2017. 

5.Strandavegur um Veiðileysuháls. 
Lagt er til að framkvæmdir við endurgerð vegar yfir Veiðileysuháls á milli Veiðileysufjarðar og Reykjafjarðar í Árneshreppi hefjist árið 2018. Fjárveiting á því ári 200 milljónir króna. 

Gjörbreytt staða í samgöngumálum bætir búsetuskilyrðin 

Allt eru þetta gríðarlega mikilvæg verkefni sem munu á allra næstu árum gjörbreyta stöðu Vestfjarða í samgöngumálum. Rofin verður einangrun á milli byggða, vegalengdir styttar og vegir almennt bættir. 

Ef við skoðum bara stóru verkefnin í Austur Barðastrandasýslu og Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði blasir þetta við: Áætla má að þessum verkefnum verði lokið í kring um árið 2020 eða þar um bil. Eftir þetta verða komnar heilsárssamgöngur á milli norður og suðurhluta Vestfjarða. Vegasamgöngur frá sunnanverðum Vestfjörðum inn á aðalþjóðvegakerfið verða komnar í mjög gott horf og fréttir eins og þær sem við höfum séð upp á síðkastið um flutningabíla sem sitja fastir í for og drullu heyra sögunni til. Og síðast en ekki síst leiðin á milli Vestfjarða – sunnanverðra sem norðanverðra - styttist mjög umtalsvert. Segja má að vegurinn á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verði viðlíka langur og leiðin er í dag á milli Akureyrar og Reykjavíkur og yfir jafn marga fjallvegi að fara. Þetta mun opna algjörlega ný tækifæri á öllum sviðum, ekki síst í hinni ört vaxandi ferðaþjónustu og almennt bæta búsetuskilyrði á Vestfjörðum til mjög mikilla muna. 

Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis og þingmaður Norðvesturkjördæmis 
« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31