Sterk kona og dugleg
Leikkonan Hera Fjord leitar í smiðju Dýrfirðingsins; langalang- ömmu sinnar, Kristínar Dahlstedt Jónsdóttur veitingakonu, í einleiknum Fjallkonunni sem hún frumsýndi á einleikjahátíðinni Act alone á Suðureyri í síðasta mánuði og sýndi í Tjarnarbíói um liðna helgi í leikstjórn Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur. Vel er skiljanlegt að Heru hafi langað að vinna með og miðla sögu Kristínar, enda merkileg kona sem setti mikinn svip á íslenskan veitingarekstur á fyrri hluta 20. aldar. Í raun má segja að hún hafi verið brautryðjandi á sínum tíma.
Rétt fyrir aldamótin 1900 sigldi Kristín, þá rúmlega tvítug, til Danmerkur til að sækja sér þekkingu og reynslu í matargerð. Þegar hún sneri heim nokkrum árum síðar leið ekki á löngu þar til hún stofnaði sinn fyrsta veitingastað, en hún átti eftir að reka þá nokkra víðs vegar um borgina – flesta undir nafninu Fjallkonan – þar til hún settist í helgan stein rúmlega sjö- tug eftir fimmtíu ára starf í veitingabransanum.
Af heimildum að dæma virðist Kristín hafa verið bæði sjálfstæð og beinskeytt nútímakona, sem var ekkert að skafa utan af skoðunum sínum. Hún eignaðist þrjú börn með þremur mönnum auk þess að ala upp fósturdóttur. Hún fékk sinn skerf af mótlæti bæði persónulega og rekstrarlega, enda ýmsir samtímamenn hennar ekki sáttir við að kona stæði ein í atvinnurekstri. Kristín bryddaði upp á ýmsum nýjungum í veitingabransanum eins og að bjóða upp á lifandi tónlistarflutning, notaði gas til lýsingar og eldamennsku, flutti inn fyrsta grammófóninn og sjálfspilandi píanó. Uppskriftir hennar vöktu lukku, en vinsælasti rétturinn var buff með spæleggi og lauk.
Í nálgun sinni leitast Hera við að spegla sig í Kristínu og ævi hennar. Í því augnamiði skoðar hún hvað er líkt með þeim og hvað ólíkt. Þar sem hún kynntist aldrei langalangömmu sinni í lifandi lífi, en Kristín lést 92 ára að aldri árið 1968, er helsta heimild hennar endurminningar Kristínar sem gefnar voru út á bók 1961 og endur- útgefnar fyrir fimm árum.
Báðar fylgdu þær ástríðu sinni í þekkingar- og reynsluöflun erlendis. Meðan Kristín var margra barna móðir sem sá engan annan kost en gefa elsta barnið frá sér til að sinna ástríðu sinni í veitingabransanum er Hera barnlaus og óttast þær skuldbindingar sem fylgja því að eignast barn og verða við það mögulega ekki lengur í fyrsta sæti í eigin lífi. Meðan Kristín virðist hafa verið ótrúlega fylgin sér plagar óöryggi Heru, sem óttast að hún sé of mikil frekja, sé ekki nógu dugleg, ekki nógu sæt, ekki nógu listræn eða nógu góð leikkona. Hliðstæðurnar sem þannig eru dregnar upp milli kvennanna tveggja ganga því mið- ur ekki nógu vel upp og fyrir vikið vantar betra lím í frásögnina. Það skýrir mögulega líka að hluta hversu köflótt sýningin verður orkulega séð.
Á tæpri klukkustund bregður Hera sér í hlutverk fjölda samferðamanna og -kvenna Kristínar auk langalangömmunnar sjálfrar framan af ævi hennar. Skiptingar milli persóna eru nákvæmar, eins og sjá má í senunni þegar tvær konur mæta á veitingastað Krist- ínar til að slúðra um hana og hneykslast á því að hún eigi von á lausaleikskrakka. Fæðing barnsins er fallega útfærð og margar myndir lifa lengi, eins og t.d. skipsferð- irnar yfir hafið.
Leikmynd Evu Bjargar Harðardóttur samanstendur af fáum en vel völdum hlutum, þar sem sjá má grammófón, snjáða ferðatösku, endurminningabókina og emaleraða kaffikönnu. Allt hlutir sem tengja áhorfendur við gamla tíma. Sama á við um búninginn sem hentar tíðarandanum vel. Falleg lýsing Magnúsar A. Sigurðarsonar og Hafliða E. Barðasonar og frá- bær hljóðmynd Sigrúnar Harðardóttur býr til réttu stemninguna og tíðarandann.
Hera fer þá leið að tala mjög dönskuskotna íslensku í hlutverki Kristínar, en sennilega hefði farið betur á því að nota í staðinn bara einstök vel valin dönsk orð. Í ljósi þess hversu danskan verður fyrirferðarmikil hefði þurft að útskýra betur hvaða hlutverki hún gegndi. Missti Kristín tök á móðurmáli sínu eftir áralanga dvöl í Danaríki eða var hún að elta tískustrauma síns tíma þar sem þótti fínna að tala dönsku en íslensku? Og hver var afstaða samferðafólks hennar til talsmáta hennar?
Ljóst er að Hera hefur haft úr spennandi og áhugaverðum efnivið að moða. Og hiklaust má taka undir með henni um nauðsyn þess að halda á lofti minningu merkilegra kvenna sem voru brautryðjendur og mikilvægar fyrirmyndir.
Morgunblaðið 14. september 2017.
Tjarnarbíó Fjallkonan Eftir Heru Fjord.
Leikstjórn og dramatúrg: Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.
Leikmynd og búningar: Eva Björg Harð- ardóttir.
Tónlistarumsjón og hljóðmynd: Sigrún Harðardóttir.
Lýsing: Magnús A. Sigurðarson og Hafliði E. Barðason.
Leikari: Hera Fjord. Frumsýnt á einleikjahátíðinni Act alone á Suðureyri 10. ágúst 2017, en rýnt í sýninguna í Tjarnarbíói sunnudaginn 10. september.
LEIKLIST
SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR