Steinar Steinsson - Fæddur 14. október 1926 - Dáinn 16. maí 2015 - Minning
Foreldrar hans voru Jóhann Torfi Steinsson, f. 6.6. 1887 í Neðra-Hvammi í Dýrafirði, d. 11.11. 1966, og Esther Judith Löfstedt Steinsson, f. 23.6. 1898 í Rönne á Borgundarhólmi, d. 24.4. 1972. Foreldrar Jóhanns voru Steinn Kristjánsson, bóndi í Neðri-Hvammi í Dýrafirði og Helga Jónsdóttir. Foreldrar Estherar voru Aage Löfstedt og Matthilda Guðmundsdóttir.
Systkini Steinars voru sjö. Alsystkin, Örn, f. 26.5. 1921, d. 1.3. 2009. Inger Steinunn, f. 8.4. 1924, d. 25.4. 1936. Aage, f. 14.10. 1926, Helgi, f. 27.12. 1928, d. 4.8. 2000. Haukur, f. 27.9. 1933, d. 16.3. 2013. Harry, f. 27.9. 1933, d. 17.1. 2003 og hálfsystir, Ólafía Jóhannsdóttir, f. 1.3. 1915, d. 20.9. 1998, af fyrra hjónabandi Jóhanns. Móðir hennar var Ólafía Hólm Ólafsdóttir, f. 29.3. 1888, d. 3.3. 1915.
Steinar kvæntist eftirlifandi konu sinni, Guðbjörgu Jónsdóttur, f. 15.5. 1924, hinn 2. júní 1948. Foreldrar hennar voru Jón Valdimarsson, f. 4.5. 1891, d. 11.9. 1946, og Herdís Kristín Pétursdóttir, f. 18.12. 1892, d. 4.2. 1946. Börn þeirra eru 1) Þór, f. 27.10. 1948, kona hans er Aníta Knútsdóttir, f. 2.1. 1949, þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn; Sonja Steinsson, f. 7.6. 1976, og Stefán Þór, f. 22.10. 1980; 2) Margrét, f. 23.7. 1950, maður hennar er Kristján Sigurður Kristjánsson, f. 24.3. 1950, þau eiga tvær dætur og sex barnabörn; Gréta Björk, f. 5.2. 1973, og Þórdís Heiða, f. 22.10. 1974; 3) Erla Björk, f. 2.11. 1955, maður hennar er Björn Jakob Tryggvason, f. 7.9. 1955, þau eiga þrjá syni og átta barnabörn; Steinar, f. 31.3. 1979, Halldór, f. 30.3. 1981 og Guðberg, f. 25.5. 1984.
Steinar lauk námi frá Ingimarsskóla 1941, vélvirkjanámi 1946, vélstjóraprófi 1948, tæknifræðinámi frá Odense Maskinbygnings Teknikum 1951 og námi frá Driftorganistorisk Læreanstalt 1952. Hann vann hjá Fredrikshavns Værft og Flydedok 1952-53 og kenndi við Fredrikshavns Maskinistskole. Vann á teiknistofu Vélsmiðjunnar Héðins hf. og kenndi við Vélskóla Íslands 1954-56. Steinar var framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Raufarhöfn 1957-64 og meðeigandi í söltunarstöðinni Björgu. Stjórnarformaður Vélsmiðjunnar Norma 1965-77. Kennari við Iðnskóla Hafnarfjarðar 1958-74 og skólameistari þess skóla 1974-94. Kynnti sér iðnnám í Englandi árin 1994-95. Hann var um skeið formaður fræðslunefnda í plötu- og ketilsmíði, blikk- og eldsmíði og málmsteypu. Sat í samstarfshópi véltækniiðnaðar á Norðurlöndunum um fræðslu- og iðnþróunarmál 1975-87. Á þeim tíma samdi hann og þýddi námsefni fyrir málmiðnaðarmenn. Sat um árabil í skólanefnd Kópavogs og í skólanefnd Tækniskóla Íslands. Var mörg ár í Iðnfræðsluráði og í vatnsveitu- og hitaveitunefndum Kópavogs. Formaður Tæknifræðingafélags Íslands í þrjú ár og formaður í Lífeyrissjóði þess. Sat í stjórn Meistarafélags járniðnaðarmanna og í varastjórn Landsambands iðnaðarmanna og í ýmsum nefndum þess.
Hann var félagi í Rótarý-klúbbi Hafnarfjarðar í þrjá áratugi og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn. Eftir formleg starfslok stofnaði Steinar fyrirtækið Steinco sem vann að hönnun, þróun og framleiðslu vélbúnaðar til að flokka og flytja lifandi fisk og fiskseiði. Nokkur íslensk fyrirtæki framleiða vélar byggðar á hönnun Steinco.
Útför hans fór fram frá Kópavogskirkju í gær, 21. maí 2015.
Morgunblaðið fimmtudagurinn 21. maí 2015