Spurning dagsins: - Þurfa menn ekki aðeins að hugsa sinn gang í ræktunarmálum hér vestra?
Það var ekki spáð vel fyrir hugsjónamönnum í skógrækt hér á Vestfjörðum lengi vel á 20. öldinni. Margir töldu það tóma dellu að vera að eyða fé, tíma og fyrirhöfn í að gróðursetja tré. Tíminn hefur nú leitt annað í ljós. Hugsjónamenn eins og séra Sigtryggur Guðlaugsson, Martinus Simson, séra Stefán Eggertsson, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Þórður Njálsson og fleiri og fleiri voru langt á undan sinni samtíð í skógræktarmálum.
En nú er svo komið að varla telst maður með mönnum hér vestra nema hann fari út í skógrækt. Sumsstaðar jafnvel í stórum stíl. Og girðingar rísa allt um kring. Land er friðað fyrir sauðkindinni. Heilu sveitirnar orðnar sauðlausar. Með því kalla menn yfir sig lúpínu sem veður yfir allt og skógarkerfillinn gleypir svo hana og allan annan lággróður.
Spurning dagsins er einföld: Þurfa menn ekki aðeins að fara að hugsa sinn gang í þessum ræktunarmálum?
Hallgrímur Sveinsson.