Spilar Händel í dag í Hallgrímskirkju
Svava Bernharðsdóttir er 55 ára í dag - 15. ágúst 2015
Svava Bernharðsdóttir víóluleikari starfar einnig sem ökuleið- sögumaður á sumrin og keyrði þrjá hringi um landið, vikulangar ferðir hverja, eina fyrir þýskumælandi og tvær þar sem franska var töluð og svo fór hún einnig oft í dagsferðir, þá aðallega fyrir þá sem tala ensku. „Þarna tók ég mér smáfrí frá tónlistinni en annars var ég að spila á sumartónleikum í Skálholti með Skálholtskvartettinum svokallaða.
Ég fór á ættarmót í sumar í tilefni hundrað ára afmælis ömmu minnar og alnöfnu, Svövu Bernharðsdóttur. Afkomendur hennar hittust á Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði og máluðu kirkjuna í dalnum.
Frænka mín, Björg Þórhallsdóttir, myndlistarkona í Noregi, málaði nýja altaristöflu og vinkona hennar gerði steinda glugga í kirkjuna.“
Svava mun spila í óratóríunni Salómon eftir Händel á kirkjulistahátíðinni í Hallgrímskirkju í dag með Alþjóðlegu kammersveitinni í Haag. „Við erum nokkrir Íslendingar sem leikum á tónleikunum en hljóðfæraleikararnir og söngvarar koma hvaðanæva úr heiminum. Það verður mjög gaman að eiga afmæli á svona flottri tónlistarhátíð. Verkið er þrír tímar að lengd og það rúmast ekki mikið fleira á afmælisdeginum, kannski afmæliskaka einhvers staðar.
Svo byrja ég að æfa með Sinfóníunni á mánudaginn eftir sumarfrí og kennarafundur verður í Listaháskólanum og Tónlistarskóla Kópavogs. Ég kenni einnig í sumar á Tónlistarhátíð unga fólksins. Þar er fín þátttaka og allt mjög vel skipulagt.“ Dóttir Svövu er Rannveig Marta Sarc, en hún er að læra á fiðlu í Juilliard í New York.
Morgunblaðið laugardagurinn 15. ágúst 2015