A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
21.11.2016 - 06:34 | Vestfirska forlagið,Leifur Reynisson,Blaðið - Vestfirðir

Skemmtiganga á suðurleið

Finnjón Mósesson.
Finnjón Mósesson.
« 1 af 2 »
„Það var 24. október að ég lagði af stað heiman frá mér til Reykjavíkur. Klukkan eitt um morguninn lagði ég af stað frá heimili mínu Sjónarhól í Dýrafirði. Bærinn er í miðri sveit norðantil við fjörðinn. Þegar ég kom að bæ þeim er heitir Lækjarás fékk ég mig fluttan yfir fjörðinn. Veðrið var gott og fagurt, ofurlitla morgungolu lagði niður dalinn. Þegar komið var á miðjan fjörðinn sáum við skipið „Gullfoss“ sem ég ætlaði með koma inn fjörðinn.“

Þannig fórust Finnjóni Mósessyni orð í stílæfingu þegar hann var nemandi í Núpsskóla á árunum 1915-1917. Ég held nú áfram að vísa í skrif hans en í síðasta blaði greindi ég lauslega frá bakgrunni Finnjóns og skólahaldi á Núpi í grein minni „Söngstund á Mýrafelli“ en hún byggist að mestu leyti á skólaritgerð sem hann skrifaði við sama skóla. Skólastíll Finnjóns sem hér er til umfjöllunar segir frá ferð hans suður til Reykjavíkur með Gullfossi en á þessum árum voru siglingar eina raunhæfa leiðin þegar ferðast var landshorna á milli.

Flugvélar höfðu ekki enn numið land, bílar voru fáir og akvegir nánast ekki til. Væri landleiðin valin var ekki um annað að ræða en fara fótgangandi eða bregða sér á hestbak en slíkur ferðamáti tók óratíma og ekki öllum hent að komast yfir hest.

Með stofnun Eimskipafélagsins árið 1914 eignuðust Íslendingar gufuskipið Gullfoss sem var fyrsta millilandaskip landsmanna sem sigldi reglubundið með farþega og varning. Skipið sinnti einnig strandferðum víða um land en slíkar siglingar hófust að marki á síðari hluta 19. aldar og voru til vitnis um að þjóðin stefndi að nútímalífsháttum þar sem sjálfsþurftarbúskapur vék fyrir markaðssamfélaginu. Það segir sína sögu um breytta þjóðfélagshætti að Finnjóni var fært að bregða sér suður án mikillar fyrirhafnar þó hann væri af fátæku fólki kominn. Hann hefur eflaust þurft að kosta töluverðu til og kannski var erindið brýnt en ástæður ferðarinnar eru mér ókunnar.

Gullfoss kom til landsins árið 1915 en hann var smíðaður í Danmörku sama ár og var því svo til nýr þegar Finnjón sigldi með honum. Í skipinu var pláss fyrir 74 farþega auk þess sem töluvert rými var fyrir varning. Skipið kom við á mörgum stöðum á ferð sinni um landið eins og fram kemur í ritgerð Finnjóns hér á eftir og það gat því tekið tíma að komast á leiðarenda. Finnjón segir reyndar ekki alla ferðasögu sína en frásögnin hverfist að mestu um viðdvöl sem farþegar áttu í Stykkishólmi þar sem hafst var við í tvo daga. Ég gríp aftur niður í textann þar sem frá var horfið en Finnjón var þá kominn til Þingeyrar þaðan sem hann fór með Gullfossi í sína löngu ferð suður til Reykjavíkur.

„Kaupstaðurinn Þingeyri er innantil við miðjan fjörð, þar er góð höfn og hafskipabryggja. Gullfoss lagðist þegar að bryggjunni og fór ég þá um borð í skipið og fékk farrými suður. Síðan lagðist ég til svefns og svaf vel til kl. 4. Þá vaknaði ég við það að Gullfoss var að létta akkerum og leggja af stað til Ísafjarðar og kom þangað snemma dags. Eftir tveggja sólarhringa viðstöðu fór hann frá Ísafirði til Stykkishólms og var þar tvo daga.

Seinni daginn, sem Gullfoss var í Stykkishólmi, tóku 20 farþegar sér skemmtigöngu upp á Helgafell og var ég með í ferðinni. Veðrið var gott en hægur austan vindur er svalaði ferðafólkinu og gerði því léttara fyrir. Margt var haft til umræðu í ferðinni og var það til dæmis eitt að formaður ferðarinnar sagði okkur frá því að það væri gömul trú að þeir sem færu upp á fellið mættu hvorki tala saman eða líta við. Þeir sem stóðust þetta áttu að geta óskað sér þriggja óska og fengið þær uppfylltar. En brigðu þeir út af myndu vættirnar í fellinu reiðast þeim.

Þegar kom að fellinu ásettu sér allir að komast upp á fellið án þess að tala saman eða líta við því enginn vildi verða fyrir reiði vættanna. Lögðu nú allir af stað upp á fellið með mikilli alvöruhugsun því allir vildu getað fengið uppfylltar óskir sínar. Þegar upp á fellið kom höfðu allir óskað sér einhverra óska nema stúlkurnar, þær gleymdu því, en einn piltur hafði litið við á leiðinni og mátti hann búast við reiði vættanna.

Útsýnið var gott af fellinu og sáum við flestar eyjar í Breiðafirði. Uppi á fellinu var tekin mynd af hópnum. Síðan lagði hann af stað niður að bænum. Þar keyptum við okkur kaffi og hvíldum okkur. Í túninu sáum við leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, hafði hún verið heygð þar. Við komum inn í kirkjuna og sáum þar gömul listaverk. Nú var farið að líða á daginn og var því farið til baka. Þá um nóttina lagði Gullfoss af stað til Hafnarfjarðar og fór ég þaðan á bíl til Reykjavíkur.“

Leifur Reynisson, sagnfræðingur.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31