A A A
07.10.2016 - 08:18 | Vestfirska forlagið,bb.is

Sjónum beint að Dýrafjarðargöngum í Vísindaporti

« 1 af 2 »
Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða í dag, föstudaginn 7. október 2016, mun Gísli Eiríksson, verkfræðingur og forstöðumaður jarðgangagerðar Vegagerðarinnar, fjalla um Dýrafjarðargöng og framkvæmd þeirra. Farið verður yfir rannsóknarsögu ganganna, val á staðsetningu og ferli framkvæmdanna. Áætlað er að framkvæmdir við göngin, sem tengja Dýrafjörð og Arnarfjörð, hefjist á næsta ári en útboðsferli þeirra er þegar hafið. 

Gísli mun í erindi sínu einnig fjalla um ýmsar tæknilegar útfærslur ganganna en þversnið þeirra er hið sama og Óshlíðarganganna þótt innra útlit verði eitthvað frábrugðið. Í göngunum er m.a. gert ráð fyrir háspennustrengjum Landsnets. Gísli mun einnig fara yfir öryggismál í göngunum og búnað þar að lútandi auk þess sem hann mun fjalla um gangagerð á Íslandi almennt. 

Gísli Eiríksson er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og byggingaverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann lauk prófi í byggingaverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn (DTU) 1978 og hóf þá störf sem verkfræðingur við brúardeild Vegagerðarinnar. Hann var umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar á Vestfjörðum á árunum 1980-2004 og tók þá við sem yfirmaður framkvæmda á Norðvestursvæði. Hann hefur veitt jarðgangadeild Vegagerðarinnar forstöðu frá 2009. 

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða. Það stendur frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Fyrirlesturinn fer fram á íslensku. 

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30