A A A
  • 1926 - Ingibj÷rg Finnbogadˇttir
  • 1967 - Kristjßn Ů ┴stvaldsson
03.12.2016 - 11:13 | Vestfirska forlagi­,Bla­i­ - Vestfir­ir

Sjˇmannsfj÷lskylda hleypir heimdraganum

Leifur Reynisson.
Leifur Reynisson.
« 1 af 2 »

Elsku systir mín! Innilega óska ég þér gleðilegs sumars. Nú er úti ungmennaskólinn hjá okkur og hefir mér liðið mjög vel þessa tvo vetur sem ég hef verið í honum. Ég veit ekki hvar ég verð í sumar en í vor verð ég á skipi frá Þingeyri. Það biður allt að heilsa þér í kotinu. Okkur líður öllum vel. Vertu blessuð og sæl Maja mín og guð styrki þig í öllu góðu.“ Svo segir í póstkorti sem Finnjón Mósesson sendi Maríu systur sinni vorið 1917 en hann hafði þá ný- lokið námi við Núpsskóla í Dýrafirði.

Mikil umskipti áttu sér stað í íslensku samfélagi þegar Finnjón stóð á þessum tímamótum í lífi sínu. Gamla sveitasamfélagið var að líða undir lok með sínum dreifðu byggðum og frumstæða atvinnulífi. Þéttbýli óx fiskur um hrygg, menntun og menning efldust og atvinnuhættir urðu fjölbreyttari og tæknivæddari. Ég hef í síðustu tveimur blöðum gert eilitla grein fyrir námi Finnjóns við Núpsskóla en í þessari grein mun ég segja nánar frá fjölskyldu hans en saga hennar varpar nokkru ljósi á þær þjóðfélagshræringar sem áttu sér stað á þessum árum.

Foreldrar hans, þau Kristín og Móses, fæddust inn í frumstætt landbúnaðarsamfélag sem hafði tekið litlum breytingum frá því land var numið. Þeirra beið lítið annað en lífshættir forfeðranna. Meginkeppikeflið var að komast yfir jörð því það var forsenda þess að stofna fjölskyldu og hafa sem mest yfir sjálfum sér að segja. En landgæði voru knöpp fyrir vestan og því var sjósókn flestum lífsnauðsyn. Þegar þau hjón hófu búskap rétt fyrir 1890 áttu þau einungis smá- skika í jörðinni Arnarnesi við Dýrafjörð en þar var þríbýlt á þeim árum en slíkt var alvanalegt. Þau höfðu bú- stofn fyrir heimilið en meginafkoman byggðist á sjómennsku Móses.

Börn þeirra sinntu að mestu venjubundnum sveitastörfum á æskuárum sínum eins og tíðkast hafði frá alda öðli. Strákarnir Jón, Finnjón og Sveinn voru við fjármennsku og heyskap. Þegar þeir komust á unglingsár bættist sjómennskan við – fyrst á árabátum en síðar á þilskipum. Stúlkurnar, María og Þorlaug, voru hins vegar sendar í vist, ýmist á sveitabæjum eða á Þingeyri, þar sem þær gegndu margvíslegum heimilisstörfum.

Atvinnuhættir voru enn frumstæðir í Dýrafirði en nútíminn gerði vart við sig í mennta-, menningar- og félagsmálum. Þar skipti mestu stofnun Núpsskóla og sú vakning sem ungmennafélögin höfðu í för með sér. Öll börn þeirra Kristínar og Móses, dæturnar jafnt sem drengirnir, gengu í skólann og þau voru jafnframt lið- tæk í félagsstarfi sveitarinnar. Má það merkilegt teljast að fátækri sjómannsfjölskyldu lánaðist að koma ár sinni svo vel fyrir borð.

Það var enn fremur til marks um breytta tíma að systkinin hleyptu öll heimdraganum og öfluðu sér starfsmenntunar. Jón gekk í búnaðarskólann á Hvanneyri þar sem hann var við nám þar til hann útskrifaðist árið 1912. María og Þorlaug lærðu hjúkrun í Laugarnesspítala. María varð hjúkrunarfræðingur árið 1916 en Þorlaug varð að hætta námi eftir að hún varð að mestu óvinnufær vegna spænsku veikinnar árið 1918. Finnjón flutti suður rétt fyrir 1920 og Sveinn fylgdi á eftir ásamt foreldrum sínum nokkrum árum síðar. Þeir gerðust báðir málarameistarar.

Núpsskóli reyndist þeim systkinum mikilvægur stökkpallur til frekari menntunar. Alls er óvíst að þeim hefði lánast að losna úr baslinu og ganga menntaveginn hefðu þau ekki kynnst þeirri vakningu sem átti sér stað í Mýrahreppnum og jafnframt fengið þá undirstöðumenntun sem skólinn bauð upp á. Í skrifum Finnjóns til systur sinnar, sem vísað er til hér að ofan, kom fram að hann hafi ráðið sig á skip frá Þingeyri. Námið hafði kostað sitt en hann þurfti einnig að safna fyrir frekari skólagöngu. Hann var, rétt eins og hin systkinin, staðráðinn í að nýta þau tækifæri sem myndast höfðu með nýjum samfélagsháttum.

Leiðin lá suður þar sem fagmenntun var helst að fá. Haustið 1919 hóf hann nám í Samvinnuskólanum en árið eftir tók málaranámið við. Leiðin til náms og starfsframa reyndist greið og má ætla að eftirfarandi bréf sem hann hafði upp á vasann frá sínum gamla skólastjóra hafi haft sitt að segja: „Hér með vottast að sveinninn Finnjón Mósesson lauk námi í ungmennaskólanum að Núpi vorið 1917 eftir tveggja vetra dvöl með ágætri námstundun og prýði í heimilisframkomu, og með góðum námsárangri.“

Leifur Reynisson sagnfræðingur.

Blaðið Vestfirðir 1. desember 2016.

 

 

« J˙lÝ »
S M Ů M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31