Síðasti dagur Sveins skotta í Félagsheimilinu
Ekki er nú allt sagt um skottann því leikhópurinn ætlar einnig að skreppa til höfuðborgarinnar. Sýnt verður í hinu nýuppgerða leikhúsi við tjörnina, Tjarnarbíó. Aðeins verður um tvær sýningar að ræða; sú fyrri fimmtudaginn 27. janúar og svo daginn eftir föstudaginn 28. janúar og hefjast sýningarnar kl.20. Miðasala á þær sýningar er einnig hafin á www.midi.is
Síðasti dagur Sveins skotta var frumsýndur á síðasta leikári við svívirðilega góðar viðtökur. Síðasti dagur Sveins skotta er ljóðleikur eða söngdans þar sem jafngild eru leiklist, tónlist og dans. Svört kómedía sem gerist á 17. öld og fjallar um Svein Björnsson þjóf, nauðgara og galdramann sem var hengdur í Rauðuskörðum á Barðaströnd 1648. Sveinn þessi var enn í móðurkviði þegar faðir hans Axlar-Björn var tekinn af lífi fyrir morðverk sín. Helstu höfundar og flytjendur verksins eru: Benóný Ægisson höfundur handrits og tónlistar, Elfar Logi Hannesson leikari, Halldóra Malín Pétursdóttir leik- og söngkona, Henna Riikka Nurmi höfundur sviðshreyfinga, leikari og dansari, Steingrímur Guðmundsson höfundur tónlistar og hljóðfæraleikari og Ársæll Níelsson leikari. Þorsteinn J. Tómasson hannar lýsingu, hljóðmaður er Guðmundur Hjaltason og Marsibil G. Kristjánsdóttir hannar leikmynd og búninga.
Uppsetning verksins er styrkt af Menningarráði Vestfjarða og fyrirtækjum á Ísafirði sem eru vinveitt listum og menningu.