A A A
  • 1957 - Sigríđur Ţórdís Ástvaldsdóttir
  • 1982 - Kristjana Sigríđur Skúladóttir
  • 2004 - Auđbjörg Erna Ómarsdóttir
Kristján Ottósson frá Svalvogum.
Kristján Ottósson frá Svalvogum.

Fyrir all löngu hittum  við Kristján Ottósson frá Svalvogum, fyrrum forseta Lagnasambands Íslands og framkvæmdastjóra og báðum hann að segja okkur frá Kúlubardaganum mikla eins og hann minnist hans eftir allan þennan tíma.

 

   “Já, við vorum þarna hjónin, boðið í afmælið hjá Garðari Waage, sem þá var í fullu fjöri, eins og fleirum. Það stóð nú víst aldrei til að halda þetta ball og veit ég nú eiginlega ekki hvernig það orsakaðist. En hvað um það. Þarna safnaðist saman mikill mannfjöldi, meðal annars úr Mjólkárvirkjun. Harmonikuleikari var nábúi okkar úr Reykjavík, snaggaralegur strákur, en nafn hans man ég ekki lengur. Hann vann í virkjuninni. Er nú skemmst frá því að segja að á miðju balli hoppar Gunnlaugur á Tjaldanesi upp og lemur bylmingshögg í þilið að innanverðu í salnum, svo dundi í öllu húsinu. Garðar stóð þar hjá honum og hefur þetta sennilega átt að æsa afmælisbarnið eitthvað upp. Það brá öllum við þetta. Harmonikuleikarinn fór upp á stólinn sem hann sat á og spilaði þar standandi svo ballið hætti ekkert. Svo barst þetta út fyrir dyrnar og veit ég nú ekki hvað þar varð í upphafi, nema ég fór út ásamt konunni, sem var orðin óttaslegin og vildi ekki sleppa mér neitt. Þá var búið að rota Gunnar Sigurðsson meistara og sumir sögðu að augað á bróður hans, Jóni Sigurðssyni ref, væri komið út á kinn. Við heyrðum að Gunnlaugi bónda var hótað í gríð og erg og sleginn um hann hringur. Hann yrði drepinn, ef ekki núna, þá bara seinna.

   Jón refur kallaði og það oftar en einu sinni ef ég man rétt:

   “Við drepum hann þegar hann kemur á dýrfirska grund.”

 

Þegar hann var kominn í mátulega högghæð, þá rotaði hann Gunnar

 

   „Mál voru semsé komin í óefni. Ég man að þarna var Þórður heitinn á Múla, sem var edrú, Jónas á Stöðinni ásamt Valdimar á Mýrum og systkinum hans sem voru í útilegu með Ungmennafélagi Mýrahrepps á Dynjanda. En menn voru þarna í kippnum.

   Ég stakk upp á því við Gunnlaug að nú yrði hann að forða sér. Hann mundi verða slasaður ef ekki drepinn. Hann hefði unnið til þess. Ég stakk upp á því að við færum heim til hans, færum yfir Kúluána og út fjörur heim að Tjaldanesi.

   Þegar við erum komnir yfir ána, sjáum við hvar Gunnar Sigurðsson meistari kemur askvaðandi, skellir sér beint í ána, töluvert fyrir neðan brúna og ætlaði að stytta sér leið, en var kominn á fjóra fætur.

   Þá segir Gunnlaugur. “Bíddu, bíddu bíddu.”

   “Nú hvað er að”, segi ég.

   “Bíddu bara”, segir hann þá og hljóp aðeins niðureftir og beið á bakkanum þangað til Gunnsi var kominn yfir. Þegar hann var kominn í mátulega högghæð, þá rotað hann Gunnar. Þetta var nú kannski ekki drengilega gert, en svona var þetta bara.

   Þegar hér var komið sögu, var tíminn orðinn það naumur, að það var ekki hægt að komast með Gunnlaug upp á bakkana, sem eru þarna fyrir utan, því liðið var allt komið á hæla okkar, sumir óðu yfir ána og aðrir fóru yfir brúna. Svo ég fór bara með hann út fyrir bakkana, út á grundirnar fyrir utan Lónseyri, en þar náðu þeir okkur.“

 

Hún gerði það sem hún gat til að verja bónda sinn

 

   „Frú Gunnlaugs, Ingibjörg, reyndi að verja sinn mann eins og hún gat. Og hvað gat hún? Hún gat náttúrlega ekki slegist, en hún gat kastað í okkur grjóti og það gerði hún alveg miskunnarlaust. Hún komst upp á bakkana og þaðan rigndi grjótinu yfir okkur. Hún gerði það sem hún gat til að verja bónda sinn.

   Síðan var sleginn hringur um okkur þarna. Ég fékk nú högg frá einhverjum, en féll  ekki. En þarna voru rosalegar hótanir. Gunnsi og Jón vildu vaða í Gunnlaug, en einhvern veginn tókst okkur að verjast, en svo kom að því að karlinn var rotaður. Það var annaðhvort Guðmundur heitinn eða Jóhann sem rotuðu hann. Þórður heitinn var í úlpu frá Belgjagerðinni. Ég tók af honum úlpuna og setti hana yfir hausinn á Gunnlaugi og stóð sitt hvoru megin við eyrun, þannig að þeir gætu ekki sparkað í hausinn á honum.

   Ég sá að nú var komið í algjört óefni og kallaði því í Jóa og sagði honum að nú yrði hann að ganga í lið með okkur. Þetta myndi enda að öðrum kosti með einhverju sem enginn vildi. Og það varð. Jói gekk í lið með okkur og hjálpaði okkur að sefa bræður sína. Það tókst og slagsmálin gufuðu upp og grjótkastið hætti frá bakkanum. Gunnlaugur hvarf svo, ég veit ekkert hvert, ég fylgdi því ekkert eftir.“

 

Hún skildi nú ekki nema annaðhvert orð, því hér var töluð vestfirska

 

   „En eftirmálar nokkrir urðu eftir þennan fræga bardaga sem voru dálítið skemmtilegir að mörgu leyti. Kærumál gengu til hreppstjóra á Þingeyri um nóttina. Þá var Hulda Sigmundsdóttir settur hreppstjóri fyrir mann sinn, Árna heitinn Stefánsson, sem var fjarverandi. Hún vissi náttúrlega ekki neitt og hafði sjálfsagt lúmskt gaman af, ef ég þekki hana rétt. En ég held þetta hafi aldrei náð neitt lengra, þó ég vilji ekki fullyrða neitt um það. Ég held þetta hafi bara sofnað í hjörtum manna og nú í dag held ég að menn séu bara farnir að vitna í þennan bardaga eins og Íslendingasögurnar í gamla daga sér til upplyftingar.

   Konan mín var að koma í fyrsta sinn hingað á Vestfirði þegar hún lenti í þessum fræga bardaga. Hún skildi nú ekki nema annaðhvert orð, því hér var töluð vestfirska. Þegar slagsmálin hófust, hélt hún sig bara komna aftur í aldir og var auðvitað logandi hrædd við þessa karla.”

 

Henni fannst sem hún væri komin beint inn í Íslendingasögurnar!

 

   Eiginkonan segir að þetta ball, Kúlubardaginn mikli, hafi verið mikil upplifun. Hún vissi eiginlega ekkert hvert hún var komin. Hún hafði lesið Íslendingasögurnar og fannst sem hún væri eiginlega kominn beint inn í þær. En þetta var hennar fyrsta og síðasta sveitaball. Hún lýsir því þannig, að hasarinn hafi byrjað á milli 10 og 12. Það var lamið bylmingshögg í stofuþilið og þá hafi allt farið af stað. Kærastinn hennar, því þau voru í tilhugalífinu, hvarf á braut til að hjálpa Gunnlaugi. Þá tók hún það ráð að halda sig sem þéttast að Dúdda á Múla og víkja ekki frá honum, þar sem hún var mjög óttaslegin.

    Ballið leystist upp, en var þá búið að standa í nokkuð langan tíma og ekkert sérlega mikið fyllirí. Mannfjöldinn, svona 60-70 manns, fylgdist álengdar með orrustunni. Þegar allt var um garð gengið, komu sumir og heilsuðu henni. Meðal þeirra var Jón Sigurðsson, Jónsi rebbi. Hann var allur krambúleraður og útkýldur. Svo var og um fleiri.


« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31