11.12.2008 - 01:10 | bb.is
Setja út á stærð golfvallarins í aðalskipulagi
Landeigendur í Meðaldal í Dýrafirði hafa gert athugasemdir við drög að aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar þar sem stærð golfvallarins í dalnum er skráð 64,6 km² en er í raun 1,0 km² að mati landeigandanna. Þeir segja að ekki sé gert ráð fyrir stækkun vallarins í samningi eigenda við Golfklúbbinn Glámu og að golfvöllurinn sé rekinn með tímabundnu leyfi eigendanna. Í bréfi frá Andrési F. Kristjánssyni, einum af landeigendum í Meðaldal segir að í samningi sem landeigendur í Meðaldal gerðu við Golfklúbbinn Glámu sé gert ráð fyrir 9 holu velli í dalnum og ekki komi til álita að hálfu eigenda að golfvöllurinn verði stækkaður. „Hvort golffélaginu verður heimilað að halda starfsemi sinni áfram með sama hætti í Meðaldal eftir árið 2015 eins og samningurinn gerir ráð fyrir, hefur ekki verið ákveðið enn. Það er þó ekkert í stöðunni í dag sem ætti að hindra að svo gæti orðið," segir í bréfinu.
Óskað er eftir að þessar staðreyndir komi fram í kynningu aðalskipulagsins og að ákveðin óvissa sé um áframhaldandi leyfi fyrir golfvellinum í Meðaldal eftir árið 2015. Bæjarráð vísaði erindinu til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.