A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
18.01.2017 - 20:23 | Vestfirska forlagið,Emil Ragnar Hjartarson,Björn Ingi Bjarnason

SKAÐAVEÐUR fyrir 60 árum í Önundarfirði

Flateyri rétt um 1950.
Flateyri rétt um 1950.
« 1 af 2 »

Fyrir sextíu árum, um miðjan janúar 1957 geysaði afspyrnuveður í þrjá daga samfellt í Önundarfirði og olli miklum skemmdum.

Hinn 15. janúar var ofsa vestanveður og urðu þá miklir skaðar á Vífilsmýrum, en þar var tvíbýli. Þar fauk þak af tveim hlöðum og fjós skemmdist svo að flytja varð kýrnar á næsta bæ. Vörubílll, Chevrolet 4,5-5 tonna í eigu Kaupfélags Önfirðinga var sendur á vettvang með segl til að breiða yfir heyið. Þeir sem fóru með bílnum gengu áleiðis til bæjar en þá skall á ógnar hviða og fauk vörubíllinn á hvolf en jeppi sem stóð rétt hjá honum haggaðist ekki. Í þessari hviðu tókst á loft bóndinn á Kotum sem kominn var til aðstoðar , skall á jörð og féll í öngvit. Hann var fluttur í sjúkraskýlið á Flateyri, þjáður, óbrotinn en með heilahristing.

Næsta dag hafði veðrið snúist og var nú komið það sem Önfirðingar kalla "Grundarendaveður"--í þessu ofviðri fauk skreiðarhjallur og fiskverkunarhús sem stóðu á Flateyrarodda og olli brak úr þeim talsverðum skaða á " Kaupfélagshúsinu" þar sem bjuggu tvær jölskyldur ( Kaupfélagshúsið þekkir yngra fólk undir nafninu " Oddahús") Auk þessa fauk hálft þak af gripahúsi á eyrinni með sperrum og öllu saman og lenti inni í húsgarði í talsverðri fjarlægð.

Að kvöldi 17. jan hafði veður snúist til norðvesturs og stóð nú svo að segja beint inn fjörðin. og gekk svo aðfaranótt þess 18. 

Veðrinu fylgdi afskaplegt hafrót og æddu úthafsöldur inn fjörðinn, skullu óbrotnar á Flateyri , flæddu yfir eyrina og rifu sundur þjóðveginn sem lá út af henni. Flateyri var þannig einangruð með öllu. Fólk varð að flýja úr húsum sínum, bjarga varð kindum úr fjárhúsum sem stóðu á miðri eyrinni--menn stóðu í austri úr kjöllurum húsa sinna. Þetta leit satt að segja illa út því von var á stærra flóði um morguninn. Það varð rafmagnslaust. Rafmagnið framleitt með dieselvélum og var lengi barist við að koma í veg fyrir að sjór flæddi inn í rafstöðvar húsið. Það fór þó svo að sjór náði upp að stóru svinghjóli á vélinni og jós sjó upp um alla veggi, þar á meðal á rafmagnstöflur og varð að stöðva rafmagnsframleiðslu. Í svarta myrkri barðist fólk við að forða eignum sínum frá stórskemmdum--það var neyðarástand.

Ég ætla ekki að segja fleiri sögur af flóðinu mikla, margir muna þennan atburð og eiga hver sína minningu um nóttina hræðilegu.

Heima á Grundarstíg 18 á Flateyri var staðið í austri úr kjallara framundir morgun.

Þegar kom að morgunflóði hafði vindur snúist og lægt verulega og sjór gekk ekki lengur á land. Þá komu smám saman í ljós þær gífurlegu skemmdir sem hafrótið hafði valdið.

Fólk þakkaði fyrir að ekki urðu önnur slys en það sem varð á Vífilsmýrum en margvíslegur skaði mikill.

 

Af Facebook-síðu Emils R. Hjartarsonar.

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31