A A A

Í fréttum Rúv um helgina sagði m. a. svo:


„Plastefni fundust í nærri öllum blóð- og þvagsýnum sem tekin voru úr 2.500 börnum á milli áranna 2014 til 2017. Alls fundust agnir 11 af 15 plastefnum sem leitað var eftir í rannsókn þýska umhverfisráðuneytisins. Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í þýska tímaritinu Der Spiegel. Tekin voru sýni úr börnum frá þriggja upp í sautján ára aldur.

Vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina hafa mestar áhyggjur af magni perflúoroktan sýra, PFOA sem fannst í sýnum barnanna. Efnið er mikið notað í vatnsheld föt og viðloðunarfríar pönnur. PFOA verður bannað í Evrópusambandsríkjum á næsta ári, en það er meðal annars hættulegt fyrir kynfæri og lifrina. Eins er talið að nokkur plastefni trufli hormónastarfsemi, og geti þannig leitt til offitu, krabbameins eða seinþroska meðal barna.


Rannsóknin hefur enn ekki verið gerð opinber, en niðurstöður hennar voru birtar að beiðni Græningja á þýska þinginu. Alls fundust plastefni í 97% blóð- og þvagsýna sem tekin voru úr börnunum.“


Evrópusambandið ætlar sem sagt að banna eitt plasteiturefni á næsta ári! Það var og. Hreppsnefnd Auðkúluhrepps kom aftur á móti saman á fund á Rauðsstöðum í dag kl. 10:30. Sem kunnugt er hefur sú góða nefnd samþykkt að vera áfram langt á undan sinni nútíð líkt og verið hefur nú um sinn, hvað sem Evrópusambandið gerir. Ýmsar tillögur voru afgreiddar á fundi þessum. En í tilefni fréttar Rúv hér að ofan voru ítrekaðar samþykktir nefndarinnar frá 1. ágúst s. l. Þær hljóða svo:


Blátt bann við allri plastnotkun

„Nefndin samþykkir að leggja blátt bann við allri plastnotkun í hreppnum frá og með 15. ágúst. Felur hún hreppstjóra að fara nú milli bæja og leggja hald á allt plast sem hann kemst höndum undir. Setja það svo undir lás og slá í þinghúsi hreppsins undir Auðkúlubökkum, en þar fór fram Kúlubardaginn mikli 1956 sem kunnugt er. Það var mesta fólkorusta á Vestfjörðum allt frá Flóabardaga.“

Plastverksmiðjunni lokað!

„Þá verði settur slagbrandur fyrir plastverksmiðju hreppsins, Plastic Union. com í Hokinsdal og útibúið í Gíslaskeri frá og með Höfuðdegi 29. ágúst. Var þess farið á leit við gamla sýslumanninn að hann setji innsigli á útidyrnar.“

  
Það skal upplýst, að gamli sýslumaðurinn er væntanlegur í yfirreið í Auðkúluhrepp á næstunni. Verður nánar skýrt frá því ferðalagi þegar þar að kemur. 

    Grelöð Bjartmarsdóttir, jarls á Írlandi

       fundarritari

 

 
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30