Panamaskjölin og Brúneggjamálið verðlaunuð
Önfirðingurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson hlaut í dag blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir ítarlegar rannsóknir á þeim hluta Panamaskjalanna sem vörðuðu íslenska hagsmuni og umfjöllun um mikil viðskipti í skattaskjólum í samstarfi við aðra miðla.
Tryggvi Aðalbjörnsson, fréttamaður RÚV, fékk verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir umfjöllun sína um Brúnegg.
Þá fékk Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir verðlaun fyrir viðtal ársins við Berglindi Ósk Guðmundsdóttur sem segir sögu systur sinnar, Kristínar Gerðar, sem svipti sig lífi eftir áralanga baráttu við eiturlyfjafíkn og afleiðingar misnotkunar.
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir fékk síðan blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun ársins fyrir þáttaröðina Leitin að upprunanum sem sýnd var á Stöð 2 en hún segir sögu þriggja ættleiddra kvenna og árangursríka eftirgrennslan landa á milli um rætur þeirra.