Páll Jóhann Pálsson, útgerðarm. og fyrrv. alþm. í Grindavík 60 ára - Sjómennskan og búskapurinn toguðust á
Bóndinn og sjómaðurinn hafa alltaf togast á í sálarlífi Páls: „Tólf ára heimtaði ég að fá að fara í sveit og útvegaði mér sjálfur sveitabæ með hjálp Húnvetninga sem voru á vertíð hjá pabba. Ég var svo tvö sumur í Meðalheimi í Húnavatnssýslu hjá Guðnýju og Óskari. Loks fékk ég svo að fara á sjó upp á hálfan hlut hjá þeim dýrfirsku bræðrum Krismundi og Ólafi Finnbogasonum en Kristmundur var maður Dísu, systur pabba.
Páll fékk svo pláss í vélinni á loðnuskipinu Grindvíkingi og vann í Vélsmiðju Jóns og Kristinns 1982. Hann byrjaði skipstjóraferilinn á Fjölni GK 17 en var svo lengst af með Sighvat GK 57: „Eftir að hafa landað rækju vikulega heilt sumar á Sauðárkróki þar sem siglt var inn búsældarlegan Skagafjörðinn í morgunroðanum vaknaði upp í mér bóndinn. Við hjónin keyptum jörðina Halldórsstaði og fluttum þangað vorið 1987. Ég var bátsmaður á togaranum Skafta SK og hjálpaði frúnni við bústörfun í landlegum. Þetta var draumalíf. En það stóð aldrei til að fara út í mikinn búskap. Fyrr en varði voru kindurnar orðnar yfir hundrað, nokkur naut og hrossin of mörg, en lítill tími til útreiða.“
Nú togaði útgerðin og fjölskyldufyrirtækið í Pál og 1990 réð hann sig aftur skipstjóra á Sighvat GK en þá hafði verið sett í hann beitningarvél. Konan og börnin voru áfram fyrir norðan og Páll flaug á milli og tók sér góð frí. Árið 1994 fór hann svo í land og gerðist útgerðarstjóri hjá Vísi hf. og fjölskyldan flutti aftur suður til Grindavíkur.
Páll hætti hjá Vísi árið 2000 og varð vélstjóri á uppsjávarskipinu Þorsteini EA sem var þá við síldveiðar í Smugunni. Árið 2002 stofnuðu Páll og eiginkona hans fyrirtækið Marver ehf., létu smíða smábátinn Daðey GK 777 sem var svo sjósett vorið 2003: „Í Daðey var fullkomin beitningarvél eins og í stóru bátunum en fæstir höfðu trú á að fullvinna línuna um borð í litlum báti og margir hlógu að okkur fyrir uppátækið. Þeir sem hlógu hæst urðu svo fyrstir til að koma á eftir þegar í ljós kom að þetta svínvirkaði.“
Páll var mikið um borð fyrstu árin en hefur dregið úr því, enda með góða menn um borð, þá Júlíus M. Sigurðsson og Ólaf Sigurðsson.
Páll sat í stjórn Hestamannafélagsins Mána 1982-83, í stjórn Reykjaness, félags smábáta á Reykjanesi, 2002-2010, var formaður stjórnar Landssambands línubáta 2010-2013, situr í bæjarstjórn Grindavíkurbæjar frá 2010, í stjórn Saltfiskseturs Íslands og í stjórn Suðurlinda ehf. frá 2010, er formaður hafnarstjórnar Grindavíkurhafnar frá 2011, var alþingismaður Suðurkjördæmis 2013-2016 fyrir Framsóknarflokkinn og sat í atvinnuveganefnd 2013-2016, velferðarnefnd 2013-2015 og í fjárlaganefnd 2015-2016.
Árið 2002 keypti fjölskyldan draumahúsið, Stafholt í Þórkötlustaðahverfi: „Það var að vísu nánast ónýtt en staðsetningin frábær og við byggðum það nánast upp frá grunni. Þarna erum við komin í sveitina aftur þó að stutt sé niður á höfn.“
Fjölskylda
Eiginkona Páls er Guðmunda Kristjánsdóttir, f. 21.11. 1952, útgerðarstjóri. Foreldrar hennar: Kristján Karl Pétursson og Ágústa Sigurðardóttir en þau eru látin.
Synir Páls og Guðmundu eru Páll Hreinn, f. 20.10. 1983, þjónustustjóri skipa hjá Vísi hf. en kona hans er Svala Jónsdóttir innanhússarkitekt, og Eggert Daði, f. 5.11. 1985, yfirvélstjóri frystihúss hjá Vísi hf en kona hans er Theódóra Steinunn Káradóttir flugfreyja.
Sonur Páls Jóhanns og Evu Sumarliðadóttur er Lárus Páll, f. 30.4. 1977, framkvæmdarstjóri UMF Sindra á Hornafirði en kona hans er Jónína Kristín Ágústsdóttir heimilisfræðikennari.
Stjúpbörn Páls eru Ágústa G. Massaro f. 7.5. 1972, aðstoðarmaður tannlæknis en maður hennar er Hermann Úlfarsson, verkstjóri hjá Íslensku sjávarfangi, og Valgeir, f. 2.12. 1980, sjómaður.
Barnabörnin eru nú tólf talsins.
Systkini Páls:
1) Margrét, f. 6.11. 1955, sjálfstætt starfandi málfræðingur og stundakennari við HÍ;
2) Pétur Hafsteinn, f. 6.7. 1959, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík;
3) Kristín Elísabet, f. 25.2. 1961, leikskólakennari í Grindavík;
4) Svanhvít Daðey, f. 6.12. 1964, sjúkraliði í Grindavík;
5) Sólný Ingibjörg, f. 29.6. 1970, ljósmyndari í Grindavík.
Foreldrar Páls:
Dýrfirðingurinn Páll Hreinn Pálsson, f. 3.6. 1932, d. 16.2. 2015, skipstjóri, útgerðarmaður og fiskverkandi í Grindavík, og Margrét Sighvatsdóttir, f. 23.5. 1930, d. 3.2. 2012, húsfreyja og tónlistarmaður.
Páll er að heiman í dag.
Morgunblaðið.