Páll Hreinn Pálsson - Fæddur 3. júní 1932 - Dáinn 16. febrúar 2015 - Minning
Foreldrar Páls voru Páll Jónsson, f. 12.12. 1904, d. 25.11. 1943, skipstjóri og útgerðarmaður á Þingeyri, og Jóhanna Daðey Gísladóttir, f. 17.1. 1908, d. 2.7. 1981, húsfreyja og útgerðarmaður.
Systkini Páls eru: Guðmunda, f. 20.7. 1927, Sigurður, f. 14.9. 1930, d. 14.3. 2008, og Þórdís, f. 21.6. 1933, d. 22.11. 1991.
5. júní 1955 kvæntist Páll Margréti Sighvatsdóttur, f. 23.5. 1930. Foreldrar Margrétar voru Sighvatur Andrésson, f. 14.3. 1892, d. 6.7. 1979, og Kristín Árnadóttir, f. 16.2. 1894, d. 22.1. 1975. Margrét lést í Grindavík 3.2. 2012. Eftirlifandi sambýliskona Páls er Soffía Stefánsdóttir, f. 1.12. 1937.
Börn Páls og Margrétar eru: 1) Margrét, f. 6.11. 1955. Sambýlismaður: Ársæll Másson. Börn: a) Björg Pétursdóttir, f. 1978. Sambýlismaður: Erlingur Pálmason. Þau eiga eina dóttur. b) Þórdís Pétursdóttir, f. 1992. Unnusti: Benjamin Parpex. 2) Páll Jóhann, f. 25.11. 1957. Maki: Guðmunda Kristjánsdóttir. Börn: a) Lárus Páll, f. 1977. Sambýliskona: Jónína Kristín Ágústsdóttir. Börn þeirra eru þrjú. b) Páll Hreinn, f. 1983. Hann á eina dóttur. c) Eggert Daði, f. 1985. Maki: Theódóra Steinunn Káradóttir. Þau eiga eina dóttur. Stjúpbörn: a) Ágústa Gunnarsdóttir, f. 1972. Sambýlismaður: Hermann Úlfarsson. Þau eiga fjögur börn. b) Valgeir Magnússon, f. 1980. Hann á tvö börn. 3) Pétur Hafsteinn, f. 6.7. 1959. Maki: Ágústa Óskarsdóttir. Börn: a) Erla Ósk, f. 1980. Maki: Andrew Wissler. Þau eiga tvo syni. b) Margrét Kristín, f. 1982. Maki: Jóhann Helgason. Þau eiga tvö börn. c) Ólöf Daðey, f. 1982. Maki: Magnus Oppenheimer. Þau eiga einn son. d) Óskar, f. 1989. Sambýliskona: Eyrún Ösp Ottósdóttir. Þau eiga eina dóttur. 4) Kristín Elísabet, f. 25.2. 1961. Maki: Ágúst Þór Ingólfsson. Börn: a) Aníta Ósk, f. 1979. Maki: Hávarður Gunnarsson. Þau eiga þrjú börn. b) Valgerður, f. 1987. Sambýlismaður: Steinþór Júlíusson. Þau eiga tvö börn. c) Ingólfur, f. 1990. Maki: Sigríður Etna Marinósdóttir. Þau eiga eina dóttur. 5) Svanhvít Daðey, f. 6.12. 1964. Maki: Albert Sigurjónsson. Börn: a) Þórkatla Sif, f. 1986. Maki: Þorleifur Ólafsson. Þau eiga þrjú börn. b) Margrét, f. 1989. Unnusti: Steinn Þorleifsson. c) Sigurpáll, f. 1993. 6) Sólný Ingibjörg, f. 29.6. 1970. Maki: Sveinn Ari Guðjónsson. Börn: a) Guðjón, f. 1995. b) Sighvatur, f. 2000. c) Pálmar, f. 2003. d) Fjölnir, f. 2010. e) Hilmir, f. 2011. Stjúpbörn: a) Máney Sveinsdóttir, f. 1984. Hún á tvö börn. b) Alexsandra Sveinsdóttir, f. 1989.
Páll fæddist í Reykjavík en fluttist nokkurra vikna gamall til Þingeyrar, þar sem hann ólst upp með foreldrum sínum og þremur systkinum. Hann fór ungur á sjó og stundaði sjómennsku og útgerð, fyrst í Keflavík og síðar í Grindavík, þar sem hann bætti fiskvinnslu við reksturinn. Hann var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001 fyrir störf sín að sjávarútvegi.
Útför Páls verður gerð frá Grindavíkurkirkju í dag, 27. febrúar 2015, kl. 14.
Bein útsending frá útförinni verður á vefslóðinni www.streamingmedia.is.
_______________________________________________
Minningarorð barna Páls H. Pálssonar.
Það var ró yfir föður okkar þegar hann kvaddi þetta jarðlíf, umvafinn fólkinu sínu. Hann langaði til að lifa lengur og barðist sinni sérstöku baráttu fyrir einu sumri enn. Hann var vanur að taka lífinu eins og það birtist honum hverju sinni og þessi eiginleiki nýttist honum þegar hann þurfti að sættast við dauðann. Hann vissi allt sitt líf hvað hann gat og hvað hann gat ekki. Hann sagði hvorki sjálfum sér né öðrum ósatt og reyndi aldrei að vera neinn annar en hann sjálfur. Sannleikurinn getur verið harður skóli, það lærði hann þegar hann missti föður sinn 11 ára gamall.
Hann var maður mikilla andstæðna. Hann vildi öryggi en var framsækinn. Hann vildi varkárni en var ævintýramaður. Hann var í senn harður húsbóndi og hjálpsamur verndari, þoldi ekki hroka eða mont en lyfti þeim upp sem eitthvað hallaði á. Hann kenndi vinnusemi um leið og hann hvatti til hvíldar og þess að njóta frístundanna. Hann gat verið dómharður en að sama skapi var það liðið sem liðið var. Baksýnisspegill var ekki til hjá honum, hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum.
Hann hafði unun af að ferðast með okkur um landið sitt. Um leið og vertíð lauk var lagt af stað á vit ævintýranna. Börnunum pakkað út í bíl og brunað út í óvissuna. Lífsgleðin smitaði út frá sér og hann bar okkur á háhesti upp á fjöll og leiddi litlar hendur okkar í skóginum. Hann klifraði með okkur í trjánum, gekk á höndum og tók heljarstökk aftur á bak og áfram.
Hann varðveitti barnið í sér með því að slá ævintýraljóma á barnaleikina með ótal skringilegum leiktækjum. Með sonunum fór hann í bátaleiki um öll hús. Leikurinn fólst í því að dreifa um gólfið litlum bréfmiðum sem hann hafði skrifað aflatölur á. Þeir skriðu svo með bátana, sem ýmist voru úr bréfi eða spýtum, um allt hús og leituðu miðana uppi. Hann hafði unun af að dansa og dæturnar nutu góðs af því að dansa við pabba á böllum. Ekkert var betra en að svífa um dansgólfið í öruggum örmum hans.
Hann vildi snemma rækta garðinn sinn. Með þolinmæði og þrautseigju kom hann upp öflugum gróðri í Grindavík, nokkru sem fáir höfðu trú á. Þar væri rok og rigning og með þessu sjávarseltan sem eyðilegði allt. Pabbi lét þetta þó ekki á sig fá og bera garðar þeir, sem hann ræktaði, vitni um elju hans og natni. Fuglar himinsins nutu síðan gróðursins sem og fóðurgjafa hans þegar illa áraði.
Hann annaðist móður okkar af alúð og ást þegar hún veiktist af Alzheimer og fékk síðar heilablóðfall. Þegar hún dó ákvað hann að heiðra minningu hennar með því að lifa lífinu áfram. Síðustu árunum eyddi hann með henni Soffíu sem stóð honum við hlið allt til enda. Áhugamál þeirra fóru saman og kepptust þau við að njóta þess sem skaparinn bauð þeim.
Hann siglir nú öruggur og sáttur í sína friðarhöfn, þar sem þau bíða sem þrá hann mest. Þar mun kona breiða faðm sinn móti honum, þar munu systkini spyrja hinn unga sjómann aflafrétta og þar munu foreldrar fagna.
Hafðu þökk fyrir allt, elsku pabbi, og njóttu þín á nýjum stað.
Börnin þín sex,
Gréta, Palli Jói, Pétur, Kristín, Svanhvít og Sólný.
Morgunblaðið föstudagurinn 27. febrúar 2015