A A A
  • 2000 - Dagur Ernir Steinarsson
  • 2000 - Birna Filippía Steinarsdóttir
11.02.2017 - 10:22 | Vestfirska forlagið,Leifur Reynisson,Blaðið - Vestfirðir,Björn Ingi Bjarnason

Örlagarík sjóferð

Hvanneyri 1912. Skólahúsin og kirkjan sem Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson teiknaði.
Hvanneyri 1912. Skólahúsin og kirkjan sem Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson teiknaði.
« 1 af 4 »

En nú kemur að þeim kafla í sögu vinar míns sem mér er sárt að minnast en segi þó sannleikanum samkvæmt. Þegar leið á sláttinn kom skólastjóri auga á það að Jón var ekki meðal allra fremstu sláttumanna. Það var eðlilegt því hann hafði alltaf á sjó verið. En nú fór það svo að skólastjóri fór fram á það að Jón lækkaði kaup sitt dálítið af þeim sökum. Jón neitaði því að sjálfsögðu og sagði upp vinnunni.“

Í síðasta blaði kynnti ég Jón Mósesson frá Arnarnesi til sögunnar þar sem fram kom hvernig hann hugðist koma ár sinni fyrir borð með því að sækja nám í Bændaskólann á Hvanneyri þaðan sem hann útskrifaðist árið 1912.

Byggðist frásögnin nokkuð á eftirmælum Ingimars Jóhannessonar um Jón en þeir voru miklir vinir og er tilvitnunin að ofan sótt til hans. Jón var nýútskrifaður þegar hér er komið sögu og hafði ráðið sig í kaupavinnu á Hvanneyri fyrir hæsta kaup en laun fóru eftir afköstum. Jón var kraftmikill og dugandi til starfa en þar sem hann var ekki með vanari sláttumönnum stóðst hann þeim öflugustu ekki snúning. Skólastjórinn hugðist því lækka laun hans sem varð til þess að Jón sagði upp vistinni.

Ég gríp nú aftur niður í eftirmæli Ingimars þar sem hann segir frá síð- asta degi Jóns á Hvanneyri: „Við Nonni unnum saman síðasta daginn sem hann var á Hvanneyri. Við vorum sendir á skektunni út fyrir Kistuhöfða og inn í Andakílsá eftir einhverjum flutningi. Veður var ágætt en okkur var báðum þungt í skapi, bæði yfir nefndum atburði og eins því að skilja samvistum. En við glöddumst við þá von að koma seinna heim í sveitina okkar og verða þar að einhverju liði. Það var okkar æskuhugsjón.“

Þar sem aðra vinnu var ekki að hafa í héraðinu afréð Jón að leita fyrir sér í Reykjavík. Hann hafði vonast til að vera laus við sjómennskuna en þó fór svo að hann réði sig um borð í flutningaskip, skonnortu sem sigldi fyrir seglum til Norðurlanda um haustið. Eftir að hafa skilað sínum varningi var timburfarmur tekin í Svíþjóð og var meira sett um borð en gott taldist og þótti sumum sem skipið væri ofhlaðið. Skonnortan hreppti óveður á heimleiðinni og urðu heimamenn áhyggjufullir þegar hún skilaði sér ekki á eðlilegum tíma. Leið og beið þar til skipsflakið rak upp að Knarrarnesi á Mýrum undir árslok 1912. Fórust allir sem um borð voru.

Ingimar var enn við nám í Búnaðarskólanum þegar þessi atburður varð og vísa ég nú aftur til orða hans: „Þegar þessi harmafregn barst til Hvanneyrar varð fólk harmi lostið, ekki síst skólastjórinn sem gat kennt sér um burtför Jóns. Var ekki mikið um þetta talað en ég heyrði að vinkona okkar, Kristjana mjólkurbústýra, hefði ávítað skólastjóra á mjög eftirminnilegan hátt og ég veit að þessi atburður var skólastjóra þung raun því að hann var tilfinninganæmur mjög enda þótt hann væri örlyndur og skapstór.“

Þannig endaði saga Jóns sem svo miklar vonir voru bundnar við. Varð mönnum mikið um heima í héraði og setti einn af velmektarmönnum sveitarinnar, Kristinn Guðlaugsson á Núpi, saman stórbrotið erfiljóð sem inniheldur mikla mannlýsingu en það hefst á þessum orðum:

“Hann jafnan var bjartsýnn
og hraustur og hreinn,
í huga til orða og verka.”

En mestur var vitaskuld missir foreldra hans og systkina sem sáu ekki einungis á eftir ástvini heldur einnig þeirri vongleði sem fylgdi Jóni um bjartari tíma. Fátækri fjölskyldu hafði auðnast að koma frumburðinum til mennta en það gaf fyrirheit um bætta afkomu og aukna mannvirðingu. Eftir að Jón útskrifaðist frá Bændaskólanum á Hvanneyri var ekki annars að vænta en hagur foreldra hans og systkina væri tryggari en áður. Lífið hélt áfram að vera basl næstu árin eftir fráfall Jóns og sú tilfinning var sterk innan fjölskyldunnar að ættarsagan hefði orðið önnur hefði Jón ekki farið í sína örlagaríku sjóferð.

 

Leifur Reynisson, sagnfræðingur.

 

Blaðið Vestfirðir 9. febrúar 2017.


« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30