Ólafur Hörður Sigtryggsson - Fæddur 17. mars 1934 - Dáinn 24. okt. 2017 - Minning
Ólafur Hörður var sonur hjónanna Kristjönu Vigdísar Jónsdóttur, f. 23. nóvember 1904, d. 1. maí 1984, og Sigtryggs Kristinssonar, f. 18. nóvember 1896, d. 19. desember 1972.
Bræður Harðar eru:
1) Gunnar Jón, f. 3. febrúar 1928, d. 10. febrúar 2002, maki Guðbjörg Svanhildur Jónsdóttir, f. 27.11. 1930.
2) Kristján, f. 8.6. 1931, maki Sigrún Guðmundsdóttir, f. 3.10. 1931.
3) Kristinn Gils, f. 2.2. 1944.
Hörður kvæntist Þórunni Melsteð Haraldsdóttur.
Dætur þeirra eru:
1) Erla Ó. Melsteð. f. 1. júlí 1958, d. 20. febrúar 2017, maki Árni Árnason. f. 1957. Börn Erlu a) Soffía, maki Jón, eiga þau tvö börn, b) Brynjar sem á einn son. 2) Soffía Ólafsdóttir Melsteð, f. 27. mars 1960, maki Jóngeir Hjörvar Hlinason, f. 1955. Börn þeirra eru a) Hlini, maki Ásta Möller, þau eiga þrjú börn, b) Þór, c) Freyr, f. 1995. Þórunn og Hörður skildu. Hörður kvæntist síðan Sigrúnu Daníelsdóttur, f. 13.7. 1938. Börn þeirra Sigrúnar eru: 1) Björk, f. 30. júlí 1963, maki Ketill Guðmundsson, f. 14. janúar 1958. Börn Bjarkar og fyrrverandi maka: a) Ylfa Guðný, maki Hákon Svanþórsson og eiga þau tvö börn, b) Sigtryggur Benedikt, maki Hildur María Halldórsdóttir og eiga þau tvo syni, c) Stefanía Rós, maki Bjarni Hrafnkelsson, og eiga þau einn son, d) Maj-Britt Anna, f. 29.6. 1996.
2) Ragnheiður, f. 8. apríl 1965, fv. maki Axel Björnsson, f. 28. júlí 1962. Börn þeirra a) Ágúst Leó, b) Úlfar Björn, f. 21. nóvember 1997.
3) Eygló, f. 21. nóvember 1966, fv. maki Ásmundur Agnarsson, f. 24. apríl 1967. Börn þeirra: a) Aldís Rún, b) Agnar Daníel.
4) Ægir, f. 29. október 1968, maki Hlíf Sævarsdóttir, f. 6. nóvember 1971. Sonur Ægis a) Davíð Aron. Dóttir Ægis og Hlífar a) Hildisif Sigrún.
5) Sigtryggur, f. 3. júlí 1971, maki Kristín Þyri Þorsteinsdóttir, f. 10. september 1977. Börn þeirra: a) Sunneva Eldbjörg, f. 3. apríl 2004, b) Daníel Viljar, f. 20. nóvember 2006.
Synir Sigrúnar af fyrra hjónabandi, stjúpsynir Ólafs: 1) Jón Atli, f. 27. janúar 1958. Börn Jóns Atla a) Guðmundur Úlfar, maki Signý Rós Þorsteinsdóttir og eiga þau þrjú börn, b) Viktoría. 2) Úlfar Guðni, f. 22. mars 1959, d. 4.6. 1975. Sigrún og Hörður skildu.
Útför Ólafs Harðar fór fram frá Fossvogskirkju í dag, föstudaginn 3. nóvember 2017.
________________________________________________________________________
Minningarorð
Vorið 1934 flutti fjölskylda Harðar að Alviðru í Dýrafirði. Þar naut hann bernsku- og æskuáranna við fallegan fjörðinn, næstyngstur í fjögurra bræðra hópi.
Stutt var niður í fjöru og fylgst var með gróðri og dýralífi; hrognkelsi og silungur veidd í net, róið á trillubáti til handfæraveiða og synt í sjónum á góðviðrisdögum. Í háum, bröttum og klettóttum fjöllunum sýndi sig fljótt hversu óhræddur Hörður var við að taka áhættu, t.d. þegar sækja þurfti kindur í kletta. Hann fór ungur að vinna í vega- og byggingavinnu. Þar reyndi á mikla verklagni hans og færni við að skila góðu verki, sem hann ætíð gerði.
Vorið 1949 flutti fjölskyldan og leigði jörðina Kalastaðakot í Hvalfirði. Hörður vann í Olíustöðinni, málaði olíutanka og gekk í önnur verk.
Um haustið 1951 fluttu þau til Reykjavíkur. Hann fór að vinna í Stálsmiðjunni í Reykjavík og lagði jafnframt stund á nám í Iðnskólanum í Reykjavík. Í Stálsmiðjunni kom hann að smíði á fyrsta stálskipinu á Íslandi, dráttarbátnum Magna sem var einnig sveinsstykki Harðar í plötu- og ketilsmíði eða stálskipasmíði eins og fagið var seinna kallað. Hörður lauk iðnnámi þann 15. október 1954, fékk sveinsbréfið 20. nóvember 1956 og meistarabréfið þann 17. febrúar 1960.
Að loknu námi í Stálsmiðjunni stofnaði Hörður fyrirtækið Járnver og tók að sér réttingar á bílum auk þess að smíða m.a. landbúnaðartæki og járnhandrið fyrir stiga og svalir.
Um haustið 1967 flutti hann til Sandgerðis og stofnaði Vélsmiðju Harðar hf. sem seinna varð Skipasmiðjan Hörður. Stærri smiðja var reist í Njarðvík auk trésmiðju. Unnið var að hönnun, nýsmíði, viðgerðum og endurbyggingu á stálskipum auk framleiðslu á toghlerum sem voru seldir innanlands og erlendis.
Fyrsta stálskipið sem var smíðað hjá Vélsmiðjunni var Hamraborg SH 222. Á þessum tíma sat Hörður einnig í stjórn Félags dráttarbrauta og skipasmiða.
Eftir að mikill samdráttur varð í atvinnugreininni á landsvísu auk erfiðs efnahagsástands flutti Hörður aftur á höfuðborgarsvæðið og rak um tíma smiðju þar.
Upp úr miðjum 10. áratug síðustu aldar hélt hann til Úganda til að byggja upp fiskvinnsluhús við Viktoríuvatn.
Eftir dvölina í Afríku fluttist Hörður á bernskuslóðir sínar og settist að á Þingeyri við Dýrafjörð.
Þar tók hann að sér að teikna og smíða yfirbyggingu á bát og vann auk þess að endurbyggingu fyrsta björgunarskips Vestfjarða, Maríu Júlíu. Hann hafði einnig þá framtíðarsýn að efla mætti atvinnulífið á svæðinu með bættum samgöngum og stóð fyrir undirskriftasöfnun árið 2012 til að skora á stjórnvöld að hraða Dýrafjarðargöngum. Hann hafði þá sett sig í samband við erlenda aðila sem höfðu áhuga á að fjárfesta í framleiðslu á fullunnum fiskafurðum en settu sem skilyrði að samgöngur yrðu tryggðar árið um kring. Á þessu má sjá að Hörður var skapandi og stórhuga allt til enda starfsævi sinnar.
Hann var hörkuduglegur og ósérhlífinn, hugmyndaríkur og hagur. Vinnan var hans líf og yndi.
Soffía Ólafsdóttir Melsteð
Björk Ólafsdóttir
Ragnheiður Ólafsdóttir
Eygló Ólafsdóttir
Ægir Ólafsson
Sigtryggur Ólafsson.
Morgunblaðið 3. nóvember 2017