Nýtt frá Vestfirska forlaginu: Hornstrandir og Jökulfirðir - Ýmsar frásagnir af horfnu mannlífi
Tvær úr Jökulfjörðum.
Bjarney Sólveig Guðmundsdóttir, húsfreyja á Hrafnfjarðareyri, skartbúin í söðli á færleik sínum. Hún var merkileg heimskona á sinn hátt þó hún færi sjaldan út fyrir heimasveit sína. Ljósmyndina tók þýskur maður sem var á ferð á þessum slóðum um 1930. (Sjá Grunnvíkingabók 1. Guðrún Ása Grímsdóttir. Útg. Grunnvíkingafélagið 1989)
Sonja W. Benjamínsson de Zorrilla var ættuð frá Marðareyri í Jökulfjörðum. Hún var heimskona í orðsins fyllstu merkingu og hagvön í veislusölum víða um heim og verðbréfamarkaðinum í New York. Hugur hennar leitaði oft til Vestfjarða. (Sjá Reynir Traustason: Sonja. Útg. JPV forlag Rvk. 2002)
Vestfirska forlagið hefur byrjað útgáfu ritraðar um Hornstrandir og Jökulfjörðu.Verður þar dregið fram úrval úr þeim bókum og ritum sem forlagið hefur gefið út um þetta stórkostlega landsvæði og má kalla að hér sé um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum. Einnig verður leitað fanga víðar eftir atvikum, bæði um nýtt og eldra efni. Ótrúlega mikið efni um þessar eyðibyggðir Vestfjarða er að finna vítt og breytt í Bókunum að vestan. Hér er um að ræða fjölbreyttar og áhugaverðar frásagnir sem þurfa að koma fyrir augu sem flestra. Í vestfirsku örlagasögunum er bæði spenna og ást. Fólk hugsar oft ekki út í þetta og talar um þjóðlegan fróðleik með neikvæðum teiknum. Það er ekki síður spenna í því sem gerðist í raun og veru og stundum miklu meiri. Hvernig menn lifðu af á Vestfjörðum fyrr á tímum kostaði mikinn manndóm eins og víðar á landinu. Vestfirsku örlagasögurnar og glæpa- og spennusögurnar sem hampað er í fjömiðlum árið út og árið inn eru andstæður sem menn ættu að bera saman.
Fyrsta bókin um Hornstrandir og Jökulfirði kom út í fyrra og fékk mjög góðar móttökur.
Önnur bókin er að koma út þessa dagana. Þar er meðal annars sagt frá heims-og glæsikonunni Sonju Benjamínsson de Zorrilla sem ættuð var úr Dýrafirði og Jökulfjörðum. Hún var alla tíð mjög stolt af uppruna sínum. Reynir Traustason, ritstjóri, samdi mjög læsilega bók um ævi hennar fyrir nokkrum árum. Bjarney Solveig Guðmundsdóttur, húsfreyja á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum, kemur við sögu, en hún var stórkostleg manneskja eins og Sonja, þó hún kæmi aldrei í veislusali heimsins. Birtur er kafli úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, en þeir ferðuðust um Hornstrandir 1754. Þá er löng grein eftir Guðmund Guðna Guðmundsson, fræðimann, þar sem fjallað er um bjarndýrsbana á Hornströndum og áfram er fjallað um Hall á Horni. Einsetumaður í Hornvík segir frá ótrúlegum manni og þrekvirkjum hans. Óborganlegar frásagnir í gamansömum stíl eru í bókinni af séra Magnúsi franska á Stað í Aðalvík. Þegar hann lýsti samgöngum innan sóknar hjá sér sagðist hann heldur vilja fara fótgangandi til helvítis en ríðandi norður að Horni. Séra Magnús hlýtur að hafa verið stórkostlegur persónuleiki og er svo um fleiri af umræddum slóðum.
Vestfirska forlagið á Þingeyri